Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 19. maí 2009 08:30
Fótbolti.net
Spá fyrirliða og þjálfara fyrir 3.deild: B-riðill
Álftanes er spáð sigri í B-riðli.
Álftanes er spáð sigri í B-riðli.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Augnablik er spáð öðru sæti og KB því þriðja.
Augnablik er spáð öðru sæti og KB því þriðja.
Mynd: Matthías Ægisson
KFS er spáð fjórða sæti og KFR því sjötta.
KFS er spáð fjórða sæti og KFR því sjötta.
Mynd: Guðmundur Karl
Þrótti Vogum er spáð fimmta sæti.
Þrótti Vogum er spáð fimmta sæti.
Mynd: Kristbjörg Una Guðmundsdóttir
Fótbolti.net fékk alla þjálfara og fyrirliða í þriðju deild karla til að spá fyrir um lokaniðurstöðuna í sínum riðlum.

Í dag birtum við niðurstöðurnar úr B-riðli en þjálfararnir og fyrirliðarnir röðuðu liðunum í 1-5.sæti og fékk liðið í fyrsta sæti 5 stig, liðið í öðru sæti 4 stig og svo koll af kolli. Ekki var hægt að velja sitt eigið lið í spánni.

Spá fyrirliða og þjálfara í B-riðli:
1. Álftanes 41 stig
2. Augnablik 38 stig
3. KB 34 stig
4. KFS 30 stig
5. Þróttur Vogum 22 stig
6. KFR 15 stig


1. Álftanes
Heimavöllur: Bessastaðavöllur
Heimasíða: http://www.umfa.is/meistaraflokkur/
Álftanes er nú með meistaraflokk þriðja árið í röð og liðið stefnir hátt í sumar. Álftanes náði ágætis úrslitum í Lengjubikarnum og ljóst er að liðið mætir sterkt til leiks í sumar. Ásgrímur Einarsson hefur tekið við þjálfun liðsins af Dragi Pavlov og nokkrar breytingar hafa orðið á leikmannahópnum. Andri Janusson og Guðjón Lýðsson fóru í Hauka sem var mikill missir en á móti hefur Álftanes fengið nokkra leikmenn sem eiga að fylla skarðið sem Andri og Guðjón skyldu eftir sig.

2. Augnablik
Heimavöllur: Smárahvammsvöllur
Augnablik er ekki í samstarfi við Breiðablik líkt og undanfarin ár og því munu leikmenn úr 2.flokki Blika ekki leika með Augnablik eins og áður. Gamla kempan Hákon Sverrisson er við stjórnvölinn líkt og undanfarin ár en hann spilar einnig með liðinu. Augnablik var hársbreidd frá því að fara í úrslitakeppnina í fyrra og í vor fór liðið í undanúrslit í C-deild Lengjubikarsins. Því kemur ekki á óvart að liðinu sé spáð góðu gengi í sumar.

3. KB
Heimavöllur: Leiknisvöllur
KB, varalið Leiknis, er á sínu þriðja starfsári. KB fékk mikla umfjöllun í fyrra þegar liðið sló Njarðvík út og komst í 32-liða úrslit VISA-bikarsins. Þar tapaði liðið naumlega 1-0 gegn KR. Í fyrra munaði litlu að KB kæmist í úrslitakeppnina en liðið hefur breyst þónokkuð síðan þá. Ungu leikmennirnir Ólafur Hrannar Kristjánsson og Óttar Bjarni Guðmundsson leika nú með Leikni og fyrirliðinn Ingþór Theodór Guðmundsson fór í Hamar á dögunum svo eitthvað sé nefnt en gamlir leikmenn hafa verið að taka skóna úr hillunni og taka við keflinu af yngri leikmönnum.

4. KFS
Heimavöllur: Helgafellsvöllur
Heimasíða: http://kfs.eyjar.is/
KFS náði sér ekki á strik á síðustu leiktíð og var talsvert frá sæti í úrslitakeppninni. Eyjamenn eru líkt og áður undir stjórn Hjalta Kristjánssonar og verður spennandi að sjá hvernig þeim vegnar í sumar. Úrslitin á undirbúningstímabilinu hafa verið upp og ofan en ljóst er að enginn getur bókað þrjú stig gegn KFS í sumar.

5. Þróttur Vogum
Heimavöllur: Nesbyggðarvöllurinn
Heimasíða: http://www.throtturv.net/
Þróttur Vogum tók þátt í 3.deildinni að nýju í fyrra og endaði í 4.sæti í B-riðlinum. Jakob Már Jónharðsson er sem fyrr við stjórnvölinn og nokkrir leikmenn hafa komið til Þróttar í vetur frá hinum Suðurnesjafélögunum.

6. KFR
Heimavöllur: Hvolsvöllur
KFR hefur ekki riðið feitum hesti í 3.deildinni undanfarin ár og krækt í afar fá stig. Mikil batamerki hafa hins vegar verið á leik liðsins á undirbúningstímabilinu og undir stjórn Vésteins Gauta Haukssonar er ekki ólíklegt að liðið bæti árangur sinn verulega frá því í fyrra þegar að einungis einn sigur kom í hús.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner