Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 06. júlí 2015 21:35
Elvar Geir Magnússon
Viðtal
Hannes: Óraði ekki fyrir að þetta myndi springa svona út
Hannes er kominn í hollensku úrvalsdeildina.
Hannes er kominn í hollensku úrvalsdeildina.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hannes hefur verið frábær með íslenska landsliðinu.
Hannes hefur verið frábær með íslenska landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í landsleik gegn Króatíu.
Í landsleik gegn Króatíu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður Íslands, var í besta skapi þegar Fótbolti.net ræddi við hann í kvöld. Frágengið er að Hannes er orðinn leikmaður hollenska úrvalsdeildarfélagsins NEC Nijmegen sem keypti hann frá Sandnes Ulf í Noregi.

„Það er mikil gleði og mikill léttir að þetta sé frágengið. Þetta hefur verið ákveðið ferli sem hefði getað dottið hvoru megin sem var en eg er mjög ánægður að búið sé að ganga frá öllu," segir Hannes.

„Nú flýg ég bara til Hollands á morgun og byrja strax að æfa með liðinu. Undirbúningstímabilið er nýfarið af stað hjá þeim. Það eru tveir æfingaleikir fram að móti og svo hefst þetta."

Stoltur af þessum áfanga
„Ég verð að viðurkenna að ég er mjög stoltur af þessum áfanga og þetta er mjög spennandi skref. Þetta er skref sem ég bjóst ekki við að taka fyrir nokkrum árum síðan. Hollenska úrvalsdeildin er ein sú sterkasta í Evrópu og þetta er mikil áskorun, það verður gaman að spila á fullum völlum í hverri viku. Þetta verður nýtt og öðruvísi, mikil pressa en ég hlakka mikið til," segir Hannes.

Hann er fullur sjálfstrausts og ákveðinn í að festa sig vel í sessi í hollensku deildinni. Hann er sóttur með það í huga að hann verði aðalmarkvörður.

„Ég hef fengið þau skilaboð að þetta sé undir mér komið. Það er mikilvægt fyrir mig að ég sé að spila og ég var búinn að kanna þetta vel. Ég tel mig ekki vera að taka of mikla áhættu. Ég þekki sjálfan mig og veit að ef ég byrja mótið þá er ég kominn til að vera, það bendir allt til þess að ég sé sóttur sem fyrsti markvörður."

Lygilegt hvernig hefur spilast úr þessu
NEC vann sér inn sæti í hollensku úrvalsdeildinni á ný síðasta tímabil.

„Liðið bætti stigamet í B-deildinni í fyrra svo það er ljóst að er mikið spunnið í þetta lið. Það er mjög gott veganesti til að taka inn í úrvalsdeildina aftur. Ég hef ekki hugmynd um styrkleika liðsins miðað við önnur lið en ég held að eftir gott gengi í fyrra komi menn með bullandi sjálfstraust inn í mótið. Við skulum vona að ég geti hjálpað til," segir Hannes.

Það er nóg að gera hjá Hannesi og afar spennandi tímar framundan. Auk þess að vera að fara að spila í hollensku úrvalsdeildinni er hann að hjálpa íslenska landsliðinu sem reynir að komast í fyrsta sinn á stórmót og er í afar góðri stöðu.

„Það verður að segjast að það er lygilegt hvernig hefur spilast úr þessu. Maður hefur lagt mikið á sig gegnum tíðina og nú er verið að uppskera. Hlutirnir hafa ekki alltaf gengið upp en nú er þetta skref komið."

„Það eru blóð, sviti og tár að baki. Varðandi landsliðið er náttúrulega ævintýri líkast að hitta á þennan tímapunkt, standa í markinu þegar við eigum þetta frábæra lið og allt er í gangi. Þetta er langt framar vonum þegar maður var fyrir einhverjum fimm árum að vonast til að komast í landsliðshópinn. Mig óraði ekki fyrir því að þetta myndi springa svona út," segir Hannes.

Þakklátur Sandnes Ulf
Hann segist vera mjög þakklátur Sandnes Ulf og er ánægður með þann tíma sem hann átti hjá félaginu.

„Sandnes sótti mig í KR þegar ég var alveg við það að vera of seinn til að komast út. Ferillinn virtist í rauninni vera að staðna. Ég er gríðarlega þakklátur þeim fyrir að hafa sótt mig. Ég átti góða tíma hérna en þetta er hárréttur tímapunktur fyrir mig að taka þetta skref því maður er ekkert að yngjast. Það er ekkert sjálfgefið að félög stökkvi á 31 árs gamla markverði. Ég er mjög þakklátur Sandnes fyrir að hafa sótt mig og öllu því fólki sem hefur stutt mig á leiðinni," segir Hannes að lokum.
Athugasemdir
banner
banner