Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   fim 07. september 2017 15:00
Valur Páll Eiríksson
Heimild: ESPN | Amnesty | Twitter | Mirror | Wikipedia 
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Önnur hlið á ævintýri Sýrlendinga
Valur Páll Eiríksson
Valur Páll Eiríksson
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Firas al-Khatib skorar úr víti gegn Japan árið 2011, áður en hann hætti með landsliðinu.
Firas al-Khatib skorar úr víti gegn Japan árið 2011, áður en hann hætti með landsliðinu.
Mynd: Getty Images
Í fyrradag var greint var frá sögulegum árangri Sýrlands í Undankeppni HM í Rússlandi en þeir hafa aldrei verið nær því að komast á Heimsmeistaramót. Þeir eru komnir í umspil þar sem þeir mæta Áströlum í næsta mánuði og sigri þeir það fara þeir í annað umspil gegn liði frá Norður Ameríku um sæti á HM.

Ótrúlegt er að sjá eins stríðsþjáða þjóð og Sýrland ná árangri sem þessum og ekki á hverjum degi sem hægt er að segja jákvæðar fréttir af landinu. Ekki er hins vegar allt sem sýnist þegar litið er á Öskubuskusögu landsliðsins. Eins og alþjóð veit ríkir borgarastyrjöld í landinu og henni fylgja margar hræðilegar sögur og er fótboltinn þar í landi því ekki undanþeginn frekar en neitt annað.

Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, gerir sér grein fyrir því, líkt og margir einræðisherrar sögunnar (t.a.m. Franco, Mussolini, Hitler o.fl.) að íþróttir eru sterkt sameiningartákn. Rétt eins og við á Íslandi þekkjum þegar við flykkjumst á bakvið landslið okkar og íþróttamenn þegar vel gengur.

Sýrlendingar lifa flestir í stanslausum ótta um að láta í sér heyra gegn stjórninni og eiga í hættu á að vera teknir af lífi. Í Sýrlandi hafa fótboltamenn almennt góða stöðu til áhrifa vegna frægðar sinnar, rétt eins og annars staðar. Vegna þess eru þeir e.t.v. í meiri hættu en hinn almenni borgari að verða fyrir barði ofbeldis láti þeir uppi mótmæli gegn stjórn Assads.

Margir Sýrlendingar styðja því ekki knattspyrnuliðið sitt því þeir telja leikmenn liðsins vera ýmist hlynnta stjórn Assads, styðja verðleika stjórnar hans með því að ná góðum árangri og láta ekki í sér heyra gagnvart ofbeldisstjórn hans.

Stjórn Assads heldur því hins vegar fram að fótbolti og fótboltaleikir séu eini staðurinn þar sem fólk getur komið friðsamlega saman. Bashar Mohamed, talsmaður landsliðsins, segir fótboltann vera „drauminn sem færir fólk saman. Hann fær fólk til að brosa og hjálpar þeim að gleyma lykt eyðileggingar og dauða.“

Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA tekur undir þessa afstöðu og segir landslið Sýrlands vera algjörlega óháð pólitískum sjónarmiðum en reglur FIFA segja til um að öll landslið þurfi að vera það og hafa nokkrum sinnum í gegnum tíðina bannað liðum að taka þátt í mótum sínum vegna pólitískra afskipta af knattspyrnusamböndum. T.a.m. Íran árið 2006, Írak árið 2009 og Nígería árið 2010.

Til eru sögur eru af fótboltamönnum sem gætu e.t.v. verið í landsliðinu í dag en eru það ekki vegna ótta eða einfaldlega vegna þess að þeir hafa verið teknir af lífi. Þar má t.a.m. nefna markvörðinn Abdul Baset al-Sarout sem átti framtíðina fyrir sér og hafði spilað fyrir unglingalandslið Sýrlands en gekk til liðs við hersveitir stjórnarandstæðinga og gaf þar með upp fótboltaferil sinn og allan séns á að leika fyrir landslið Sýrlendinga í framtíðinni. A.m.k. meðan Assad er enn við stjórnvölin í Sýrlandi. Sarout hefur lifað af þrjár morðtilraunir stjórnarliða.

Dæmi um aðrar sögur eru Ayad Quiader, fótboltamaður frá Damaskus sem mótmælti Assad. Hann var tekinn fastur, pyntaður og tekinn af lífi. Zakaria Youssef frá Aleppo dó í sprengjuárás þegar hann var að þjálfa börn árið 2012. Tamam Zarour og fjölskylda hans frá Homs lést sömuleiðis í sprengjuárás stjórnarliða árið 2012. Í heildina er talið að 38 knattspyrnumenn í tveimur efstu deildum Sýrlands hafi látist í borgarastyrjöldinni.*

Þá var fyrrum landsliðsfyrirliðinn Jihad Qassab handtekinn og pyntaður til dauða án dóms og laga í hinu alræmda Sednaya-fangelsi stjórnarliða. Þar dúsa andófsmenn, eru pyntaðir og oft teknir af lífi. Fjölskylda Qassads vissi ekki hvað hafði orðið af honum en gerði sér í hugarlund að hann hefði verið tekinn í fangelsið. Það var ekki fyrr en tveimur árum eftir aftöku hans að tilkynnt var um dauða hans. Samkvæmt skýrslu Amnesty International hafa á bilinu fimm til þrettán þúsund fangar verið teknir af lífi í fangelsinu frá september 2011 fram í desember 2015.

Að lokum er líklega frægust sagan af Firas al-Khatib. Khatib er 34 ára gamall framherji og fyrirliði landsliðsins. Hann er goðsögn í heimalandinu og á að baki 57 landsleiki og hefur skorað í þeim 27 mörk. Khatib tók þá ákvörðun að sniðganga landsliðið árið 2012 eftir að stjórn Assads fyrirskipaði sprengjuárásir á heimabæ hans Homs.

Snemma á þessu ári sneri Khatib hins vegar aftur í landsliðið og ákvað að leggja allt í sölurnar til að koma liðinu á HM í Rússlandi. Í viðtali við Steve Fainaru á ESPN segir hann frá þeim stanslausa ótta sem hann búi við.

„Ég er hræddur, ég er hræddur. Í Sýrlandi núna, ef þú talar, þá mun einhver drepa þig – fyrir það sem þú segir, fyrir það sem þú hugsar. Ekki fyrir það sem þú gerir. Þeir munu drepa þig fyrir það sem þú hugsar.“

Hann segir jafnframt að ákvörðunin sem hann hafi tekið hafi verið gríðarlega erfið og hann hafi fengið hundruði skilaboða á hverjum degi ýmist að hvetja hann til þess að spila með landsliðinu eða skilaboð sem hvetja gegn því. T.a.m. sögðust góðir vinir hans myndu aldrei tala við hann framar tæki hann landsliðsskónna fram á nýjan leik og að hans yrði minnst sem enn eins peðs stríðsglæpamannsins Assads.

Hér er einungis stiklað á stóru og ljóst að ástandið er mjög snúið. Snöggt á litið sér maður frábæran árangur landsliðsins sem sjaldgæft ljós í dimmum hversdagsleika hins almenna Sýrlendings. Við nánari skoðun virðist sem margur líti á árangur þess sem framlengingu á valdi Assads og enn aðrir velta fyrir sér hvort liðið eigi tilverurétt í mótum FIFA yfirhöfuð. Nánar er hægt að lesa um málið í frábærri grein ESPN sem vitnað var í hér að ofan og umfjöllunin er að mestu byggð á.

* Þessar sögur eru teknar af nafnlausri Twitter-síðu Putintin. En nafnleysi hans er nokkuð skiljanlegt á miðað við sögurnar sem koma fram í fréttinni.

Heimildir má sjá efst í hægra horni greinarinnar.

Athugasemdir
banner
banner