Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 27. ágúst 2014 12:35
Elvar Geir Magnússon
Tommy Nielsen hættur: Fyrstu titlarnir með FH standa upp úr
Opinn fyrir því að fara út í þjálfun
Tommy Nielsen lyftir Íslandsmeistarabikarnum.
Tommy Nielsen lyftir Íslandsmeistarabikarnum.
Mynd: FH.is
Tommy Nielsen fór upp um tvær deildir með Fjarðabyggð.
Tommy Nielsen fór upp um tvær deildir með Fjarðabyggð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Daninn Tommy Nielsen er goðsögn hjá FH en þessi öflugi varnarmaður gerði garðinn frægan með félaginu í níu ár. Hann varð fimm sinnum Íslandsmeistari með FH og tvívegis bikarmeistari.

Hann hefur nú lagt skóna á hilluna í annað sinn en þeir eru komnir til að vera í hillunni að þessu sinni enda er hann orðinn 42 ára gamall.

Tommy hætti hjá FH eftir tímabilið 2011 en tók skóna fram að nýju fyrir tímabilið í fyrra og gekk þá til liðs við Fjarðabyggð. Á fyrsta tímabili hjálpaði hann liðinu upp í 2. deild og í ár tók hann þátt í því að koma liðinu upp í 1. deild.

„Þetta er komið gott en það er frábært að ná að enda ferilinn með þessum hætti og gaman að taka þátt í þessu. Ég vissi ekki alveg hvað ég var að fara út í þegar ég tók skóna fram aftur en þetta gekk mjög vel," segir Tommy við Fótbolta.net.

Hefur gaman að þjálfun
Hann varð fyrir krossbandaslitum í hné og getur því ekki klárað tímabilið með Fjarðabyggð en liðið hefur þegar tryggt sér sæti í 1. deildinni. Tommy gæti farið út í frekari þjálfun en hann er aðstoðarþjálfari Fjarðabyggðar.

„Ferlinum er lokið og nú gefur maður fjölskyldunni tíma. Það er kannski hollt að taka sér frí alveg frá boltanum í eitt ár eða svo, þetta kemur allt í ljós. Ég hef verið í þjálfun og það er eitthvað sem ég er alveg opinn fyrir því að þjálfa áfram í framtíðinni. Við klárum þetta tímabil og sjáum hvað gerist."

En er hann að stefna í meistaraflokksþjálfun í framtíðinni?

„Það hefur alveg komið upp í hugann en mér finnst einnig mjög skemmtilegt að þjálfa yngri leikmenn. Það gæti alveg verið að maður verði meistaraflokksþjálfari ef rétta tilboðið kemur en ég þarf að bæta mig við þjálfaramenntun. Það er mjög líklegt að ég geri það," segir Tommy.

Stemningin í klúbbnum ólýsanleg
Þegar Tommy lítur yfir fótboltaferilinn standa fyrstu stóru titlarnir hjá FH upp úr. Hann var sem klettur í vörn FH og er hiklaust einn besti erlendi leikmaður sem hefur spilað hér á landi.

„Það sem stendur upp úr eru fyrstu titlarnir með FH. Stemningin í klúbbnum var algjörlega ólýsanleg. Við tryggðum okkur fyrsta Íslandsmeistaratitilinn í sögu FH með sigri gegn KA á Akureyri 2004 og fengum svo rosalegar móttökur þegar við komum heim. Það var ótrúlega gaman ásamt því að taka þátt í Evrópuverkefnum," segir Tommy Nielsen.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner