Arsenal hlustar á tilboð í Jesus - Tottenham reynir við Gallagher - Liverpool orðað við varnarmann Frankfurt
   mán 27. mars 2017 14:40
Magnús Már Einarsson
Viðtal
Harpa: Fagnaði því að strákurinn kom fyrir tímann
Harpa í leik með íslenska landsliðinu.
Harpa í leik með íslenska landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Harpa ólétt í leik með Stjörnunni í fyrrasumar.
Harpa ólétt í leik með Stjörnunni í fyrrasumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég er farin að huga að þessu. Ég held að ég fari að byrja að sparka eitthvað með vorinu," sagði markadrottningin Harpa Þorsteinsdóttir í samtali við Fótbolta.net í dag. Harpa eignaðist sitt annað barn í lok febrúar en hún stefnir á að snúa aftur í lið Stjörnunnar í Pepsi-deildinni í vor.

„Ég byrja vonandi að hlaupa eftir tvær vikur og þá sé ég þetta betur en ég held að þetta sé raunsætt með vorinu. Um leið og ég byrja að æfa sé ég betur hvenær er raunhæft að fara að byrja að spila."

„Ég var undir það búin að draga mig í hlé"
Hin þrítuga Harpa var markahæst í Pepsi-deild kvenna í fyrra en hún hefur verið markahæst þrjú af síðustu fjórum tímabilum. Harpa íhugaði að leggja skóna á hilluna eftir að hún varð ólétt en hún ætlar nú að taka slaginn áfram í fótboltanum.

„Mesta spurningamerkið var hvort að mig langaði að fara aftur í fótbolta. Ég er komin með smá fiðring í tærnar að koma mér í form og það er fyrsta skrefið," sagði Harpa.

„Ég var ekki búin að ákveða hvað ég ætlaði að gera. Ég hélt mér í formi en ég hef gengið í gegnum þetta áður og veit að það er ekkert sjálfgefið að vera 100% líkamlega og andlega beint á eftir. Ég var undir það búin að draga mig í hlé en það er erfitt. Tímasetningin skiptir líka máli. Núna er að koma vor og ég væri kannski ekki jafn spennt ef undirbúningstímabilið væri að byrja núna," sagði Harpa létt í bragði.

Drengurinn kom fyrir tímann
Meðgangan hjá Hörpu gekk vel sem og fæðingin. Á meðan á meðgöngunni stóð hélt Harpa sér í formi.

„Ég held að ég hafi búið að því að ég var í góðu formi í lok síðasta sumars. Það voru engir kvillar hjá mér. Ég reyndi að æfa þrisvar í viku að lágmarki. Tvisvar í viku var ég hjá Svavari Sigursteinssyni í Sporthúsinu á æfingum. Hann passaði upp á mig og passaði upp á að ég færi ekki að gera of mikið. Ég held að það hafi skipt máli."

Drengur Hörpu kom fyrr í heiminn en áætlað var og hún fagnaði því. „Hann kom tíu dögum fyrir settan dag og það var kærkomið. Það munar um það," sagði Harpa og hló. „Ég græði hins vegar ekki á því hvað mótið byrjar snemma. Ég tapa þar," sagði Harpa en keppni í Pepsi-deild kvenna byrjar fyrr í sumar en áður. Fyrsta umferðin verður 27. apríl þar sem hlé verður gert þegar EM fer fram í sumar.

Vill lítið segja um EM
Harpa var markahæst í undankeppni EM með íslenska landsliðinu en hún skoraði tíu mörk í sex leikjum. Ísland hefur leik á EM í Holland í sumar þann 18. júlí en er Harpa bjartsýn á að vera komin í gott form til að vera með þar?

„Ég vil segja sem minnst um það. Mér finnst núna skipta mestu máli að fái frið til að koma mér í stand og byrja að spila fyrir Stjörnuna. Það er fyrsta skrefið fyrir mig. Svo er það í höndunum á Frey (Alexanderssyni, landsliðsþjálfara) að meta hvernig standi ég verð í. Það er ekki mitt að gefa út núna hvort það sé raunhæft fyrir mig. Ég mun bara taka einn leik fyrir í einu og ég ætla að njóta þess að spila fótbolta í einhvern tíma í viðbót," sagði Harpa að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner