Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 20. apríl 2010 06:00
Magnús Már Einarsson
Heimild: Sögueyjan Ísland 
Drogba skrifar formála í ljósmyndabók hjá Páli Stefánssyni
Didier Drogba.
Didier Drogba.
Mynd: Getty Images
Páll Stefánsson, ljósmyndari, hefur gefið út ljósmyndabókina ,,Africa - The Future of Football" en um er að ræða risavaxið verkefni sem hann hefur unnið að í rúm tvö ár.

Páll og útgefandi hans Kristján B. Jónasson hjá forlaginu Crymogea hafa ferðast til 25 landa í Afríku á 30 mánuðum. Hugmyndin að bókinni kviknaði þegar Páll var taka myndir á vegum Unesco við moskuna í Djenné í Malí.

Didier Drogba, framherji Chelsea og Fílabeinsstrandarinnar, skrifar formála bókarinnar.

Hægt er að sjá myndir og fræðast meira um bókina með því að smella hér.

Formáli eftir Didier Drogba:
Fótbolti er merkilegur leikur. Það skiptir ekki máli hvort frægustu leikmenn heims spila fyrir framan tugþúsundir áhorfenda eða bara nokkrir berfættir strákar á strönd, reglurnar eru alltaf þær sömu. Það er bolti og það er mark. Þessi tæri einfaldleiki er ástæðan fyrir því að fótbolti er langvinsælasta íþrótt heims.

Þessi sannleikur á sérstaklega við í löndum Afríku þar sem boltinn er oft búinn til úr þurrum pálmaviðargreinum, tuskum eða plastpokum. Mörkin eru tveir steinar eða trjágreinar sem stungið er í jörðina. En um leið og þetta er til staðar er hægt að byrja og þá er það geta og kraftur leikmannanna sem ráða úrslitum.

Afrískir fótboltamenn venjast því frá unga aldri að spila við misjafnar aðstæður og það hjálpar þeim að öðlast styrk og úthald. Hvort sem það er í þröngum götum Kaíróborgar, á akri í Senegal eða á „Le Félicia“ í Abidjan. Leikurinn er þrunginn ástríðu og krafti sem fær viðstadda til að grípa andann á lofti.

Fólk má ekki gleyma því að Afríka er álfa fótboltans umfram allt. Fréttir um stríð og átök eru gjarnar á að einblína á það sem miður hefur farið, en raunveruleikinn er oft allt annar. Það eru engar ýkjur að segja að knattspyrna hafi leikið lykilhlutverk í að auka á skilning meðal þjóða Afríku og lyfta þeim upp frá amstri dagsins. Afrískir leikmenn sem leika með fremstu félagsliðum veraldar, leikmenn á borð við Michael Essien, Samuel Eto'o, Yaya Toure, og marga aðra, hafa styrkt ímynd Afríku gagnvart umheiminum. Við erum sendifulltrúar, en á okkur hvílir einnig sú ábyrgð að sýna Afríkubúum að fótboltinn er jákvætt afl sem vísar veginn til framtíðar.

Þessi bók er óður til afrískrar knattspyrnu og til barnanna sem eru framtíð álfunnar okkar.
banner
banner