Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 04. maí 2015 15:30
Arnar Daði Arnarsson
Pepsi-deildin
Davíð Atla: Hef fyllt Sjallann tvisvar
Davíð Örn var maður leiksins í leik Keflavíkur og Víkings í gær.
Davíð Örn var maður leiksins í leik Keflavíkur og Víkings í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
<i>,,Þetta var mjög gott viðtal að mig minnir.
,,Þetta var mjög gott viðtal að mig minnir.
Mynd: Atli Rúnar Halldórsson
„Davíð Örn Atlason, skoraði fyrsta mark Víkinga auk þess að eiga stoðsendingu í öðru markinu. Hann var svo öryggið uppmálað í hægri bakverðinum og gerði það að verkum að Keflvíkingar fengu lítið út úr vinstri vængnum," svona var frammistöðu bakvarðar Víkings, Davíðs Arnar Atlasonar lýst í "Skýrslunni" eftir 3-1 sigur þeirra á Keflavík í gærkvöldi. Davíð Örn var valinn maður leiksins.

Það spyrja sig eflaust margir hver Davíð Örn Atlason sé og það er ekki nema von. Eflaust þekkja einhverjir kauða. Karl faðir hans, er Atli Hilmarsson fyrrum landsliðsmaður í handknattleik og systkini hans, Arnór Atlason og Þorgerður Anna Atladóttir eru landsliðsmenn í handknattleik. Davíð hefur glímt við meiðsli undanfarin ár.Hann var að spila sinn fyrsta leik í efstu deild í gær en hann lék með Dalvík/Reyni í 2. deildinni í fyrra.

„Ég get alveg samþykkt það, að ég sé óþekkt nafn í Pepsi-deildinni," segir Davíð sem hefur glímt við meiðsli undanfarin ár.

„Ég náði tveimur leikjum sumarið 2012 með Víkingum í 1. deildinni. Eftir það meiddist ég á hné og fór í tvær aðgerðir í kjölfarið. Ég jafnaði mig ekki eftir aðgerðina fyrr en fyrir ári síðan. Ég var meiddur meira og minna í tvö ár," segir Davíð sem lék 20 leiki með Dalvík/Reyni í fyrra. Hann er ánægður með að hafa stokkið til og flutt norður í fyrra.

„Ég er ekki bara ánægður með að hafa fengið að spila heldur var gott að standa á eigin fótum og búa ekki á Hótel Mömmu. Ég lærði einnig helling að vinna í hörkunni í iðnaðinum. Ég sé alls ekki eftir að hafa farið norður," segir Davíð sem spilaði á miðjunni hjá Dalvík/Reyni í fyrra, en eins og fyrr segir var hann í bakverðinum hjá Víkingum í gær.

„Á undirbúningstímabilinu fyrir tímabilið 2012, þegar Óli Þórðar. tók við Víking, spilaði ég mikið í bakverðinum. Ég var ánægður með að fá sénsinn í gær. Ég spilaði nokkra leiki á undirbúningstímabilinu en missti síðan sætið mitt í liðinu. En ég vann það síðan til baka."

Davíð kom Víkingum yfir í leiknum í gær og átti síðan mikinn þátt í öðru marki þeirra sem Igor Taskovic kláraði. „Ég veit ekki hvort að boltinn hafi verið á leiðinni inn eða ekki. Það sem skiptir mestu máli er að boltinn endaði að minnsta kosti í netinu," segir Davíð um markið sem Igor skoraði.

„Við nýttum okkar föstu leikatriði mjög vel. Við vorum búnir að tala um það fyrir leikinn að vera einbettir í föstu leikatriðunum og það skilaði sér heldur betur," segir Davíð en öll þrjú mörk Víkings komu úr föstum leikatriðum.

Í gær birti Fótbolti.net gamla mynd af Davíð í viðtali við Guðjón Guðmundsson á Twitter. Davíð hafði gaman að því athæfi.

„Þetta var á Rey-Cup 2008. Þetta var mjög gott viðtal að mig minnir. Ég þarf að grafa það upp einhverstaðar."

Davíð vinnur nú sem stuðningsfulltrúi í Klettaskóla en hann kláraði Verzlunarskóla Íslands síðasta vor. Þar sló hann rækilega í gegn í laginu „Mættir á mitt gólfið" með Pay Hoe.

„Ég átti það lag einn og sér. Ég hef tekið nokkur gigg í gegnum tíðina. Til að mynda hef ég fyllt Sjallann tvisvar sinnum. Ég hyggst ekki ætla að leggja þetta fyrir mér hinsvegar," segir Davíð Örn að lokum.

Hægt er að sjá lagið „Mættir á mitt gólfið" með því að smella hér.
Athugasemdir
banner