Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mán 12. október 2015 09:16
Alexander Freyr Tamimi
skrifar frá Konya
Aron: Gaman að æsingnum í tyrkneskum áhorfendum
Icelandair
Aron Einar var hress á blaðamannafundinum.
Aron Einar var hress á blaðamannafundinum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, snýr að öllum líkindum aftur í byrjunarliðið þegar Ísland heimsækir Tyrkland á Torku Arena í Konya á þriðjudagskvöld.

Aron Einar sat fyrir svörum ásamt Heimi Hallgrímssyni landsliðsþjálfara á blaðamannafundi á leikvangnum í dag, en leikurinn er sá síðasti í undankeppni EM 2016.

Miðjumaðurinn öflugi þurfti að horfa á 2-2 jafnteflið gegn Lettlandi á dögunum úr stúkunni, en hann afplánaði leikbann. Hann viðurkennir að það hafi verið erfitt að vera ekki með.

„Það var virkilega erfitt, maður vill spila alla leiki og maður var meira stressaður. Ég var virkilega ánægður með fyrri hálfleik, það var frábært spil, en svo var seinni hálfleikurinn alveg jafn lélegur og hinn var góður. En það var erfitt að geta ekki gert neitt og haft nein áhrif á leikinn," sagði Aron Einar á blaðamannafundinum.

Aðspurður hvað honum fannst vera að í seinni hálfleiknum, þar sem Lettar skoruðu tvö mörk, svaraði Aron:

„Mér fannst við vera værukærir. Við ætluðum að skora mörg mörk of fljótt, það á kannski ekki við. Þegar við skorum höfum við verið fastir til baka, það var smá værukærð yfir þessu. Við höfum talað saman og erum staðráðnir í að bæta fyrir þetta."

Búast má við svakalegri stemningu á Torku Arena annað kvöld, en þessi heimavöllur Konyaspor tekur yfir 40.000 manns í sæti og Tyrkir eru vanir því að sýna mikla ástríðu í stúkunni.

„Aðalmálið er að njóta, það er ekki oft sem menn fá tækifæri til að spila hérna og undir þessum kringumstæðum. Það er allt undir hjá Tyrkjunum og við vitum ekki hvernig þeir koma til með að spila á móti okkur, hvort þeir verði ánægðir með stig eða hvað. En þeir hafa komið út æstir og brjálaðir í byrjun heimaleikja sinna, alveg eins og áhorfendurnir," sagði Aron Einar, sem hlakkar til að spila fyrir framan tyrkneska stuðningsmenn.

„Það er æsingur í þeim, ég held þetta verði virkilega gaman, ég hef alltaf haft gaman að því að sjá æsinginn í áhorfendunum í Tyrklandi og ég ætla að njóta þess að spila hérna."
Athugasemdir
banner