Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 19. júlí 2017 09:30
Arnar Daði Arnarsson
Bestur í 2. deild: Þurfti að fá að spila
Kristinn Þór Rósbergsson (Magni)
Kristinn fagnar marki fyrr í sumar.
Kristinn fagnar marki fyrr í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
„Ég hugsa að ég hafi alveg átt betri leik í sumar spilalega séð en ég nýtti þau færi sem ég fékk og hjálpaði liðinu að ná góðum sigri svo það er auðvitað erfitt að segja að þetta hafi ekki verið minn besti leikur. Ég vil hjálpa liðinu með mörkum þannig að ég er mjög sáttur með mina frammistöðu," sagði Kristinn Þór Rósbergsson við Fótbolta.net.

Kristinn er leikmaður 12. umferðar í 2. deild karla en hann skoraði þrennu í 4-1 sigri Magna á KV um helgina. Magnamenn sitja í toppsætinu og Kristinn er ánægður með sumarið hingað til.

„Við erum mjög sáttir með stöðu okkar í deildinni og við erum þar sem við viljum og ætlum okkur að vera. Stigasöfnunin hefur verið góð og við erum staðráðnir í að halda henni áfram. Við höfum verið að vinna leiki sem við höfum ekkert endilega verið að spila frábærlega í og það finnst mér vera styrkleikamerki. Eins hefur gengi okkar á útivelli verið gott og er það mikil og jákvæð breyting fyrir okkur frá síðasta sumri. Við höfum mikla trú á því sem við erum að gera og erum hvergi nærri saddir."

Njarðvík og Huginn koma í næstu sætum og Kristinn býst við hörkubaráttu um tvö efstu sætin.

„Ég held að þetta verði hörð barátta allt til loka. Það eru mörg lið sem geta komið sér í baráttuna þó að efstu þrjú liðin hafi slitið sig aðeins frá pakkanum fyrir neðan. Sama hvað gerist þá erum við bara að hugsa um okkur og við ætlum okkur að vera þarna uppi allt til loka."

Kristinn er uppalinn hjá Þór en hann ákvað að ganga í raðir Magna fyrir síðasta tímabil. Hann er ánægður með þá ákvörðun.

„Já ég er það. Ég var á þeim stað að ég þurfti að fá að spila og mér fannst ég ekki fá þann séns sem ég taldi mig eiga skilið í Þór og tók þá ákvörðun að breyta til. Það var auðvitað erfitt að fara úr Þór enda er ég mikill Þórsari en þetta var góð og mikilvæg ákvörðun fyrir framhaldið hjá mér. Mér hefur verið tekið frábærlega hjá Magna. Þar er frábær hópur af leikmönnum og fólki í kringum liðið sem vinnur mikið og óeigingjart starf í að gera þetta verkefni sem er í gangi mögulegt í þetta litlu bæjarfélagi."

Næsti leikur Magna er á morgun en þá koma Völsungar í heimsókn frá Húsavík.

„Þetta eru alltaf hörkuleikir og ég veit að það verður engin breyting á því á fimmtudaginn. Völsungarnir eru með gott lið og við vitum að við þurfum að mæta 100% klárir til leiks ætlum við okkur að taka öll stigin. Við förum í þennan leik fullir sjálfstrausts og ekkert annað en sigur kemur til greina. Leiktíminn er hentugur fyrir fólk og spáin frábær svo ég á von á troðfullum Grenivíkurvelli," sagði Kristinn að lokum.

Fyrri leikmenn umferðarinnar:
11. umferð - Halldór Bogason (KV)
10. umferð - Blazo Lalevic (Huginn)
9. umferð - Kenneth Hogg (Tindastóll)
8. umferð - Andri Fannar Freysson (Njarðvík)
7. umferð - Bjarki Baldvinsson (Völsungur)
6. umferð - Ragnar Þór Gunnarsson (Tindastóll)
5. umferð - Hjörtur Geir Heimisson (Magni)
4. umferð - Stefán Birgir Jóhannesson (Njarðvík)
3. umferð - Andri Fannar Freysson (Njarðvík)
2. umferð - Kristján Atli Marteinsson (Magni)
1. umferð - Sæþór Olgeirsson (Völsungur)
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner