Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   lau 02. júlí 2016 08:35
Magnús Már Einarsson
Gummi Ben: Vitleysa sem ég hef lítinn áhuga á
Icelandair
Guðmundur Benediktsson að störfum í Frakklandi.
Guðmundur Benediktsson að störfum í Frakklandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðmundur Benediktsson hefur vakið heimsathygli fyrir lýsingar sínar fyrir Síminn Sport á EM í Frakklandi. Guðmundur er í láni hjá Símanum frá 365 og hann hefur lýst leikjum íslenska liðsins af ótrúlegri innlifun.

Fjölmiðlar út um allan heim hafa reynt að ná tali af Guðmundi undanfarnar vikur en hann hefur lítið viljað ræða við þá.

„Símtölin, tölvupóstarnir og skilaboðin skipta örugglega þúsundum. Þetta er bara vitleysa. Ég myndi orða það helst þannig. Þetta er alger vitleysa sem ég hef lítinn áhuga á að taka þátt í," sagði Gummi í viðtali við Fréttablaðið í dag en hann segist vera lítið fyrir sviðsljósið.

„Ég hef gaman af því að vinna mína vinnu en ég hef engan sérstakan áhuga á að vera áberandi þar fyrir utan. Það hefur aldrei heillað mig sérstaklega,“ segir hann.

Athyglin fór að beinast að Guðmundi eftir að hann lýsti sigurmarki Arnórs Ingva Traustasonar gegn Austurríki. Guðmundur hafði aman að athyglinni fyrsta klukkutímann morguninn eftir en meira var það ekki.

„En þetta hefur ekki verið gaman síðan. Ég get ekki skoðað fréttir í símanum mínum. Hann hringir bara. Þetta er í raun ekki það sem ég leitast eftir í mínu starfi,“ sagði Guðmundur við Fréttablaðið.

Guðmundur segist finna fyrir athyglinni í fréttamannastúkunni þegar hann lýsir leikjum Íslands.

„Ég varð var við það í leiknum gegn Englandi að það voru margir í kringum mig í stúkunni sem vissu greinilega af þessu og voru að fylgjast með mér. En maður getur ekki breytt því. Þetta er bara ég. Ég verð að vera ég. Það var einhvern tímann sagt að allt annað væri upptekið," sagði Guðmundur við Fréttablaðið í dag.




Athugasemdir
banner