Arsenal hlustar á tilboð í Jesus - Tottenham reynir við Gallagher - Liverpool orðað við varnarmann Frankfurt
   mið 15. apríl 2015 21:35
Ívan Guðjón Baldursson
Beckenbauer gagnrýnir Dante: Eins og Íslendingur í stígvélum
Mynd: Getty Images
Beckenbauer talaði mikið um Ísland í kvöld.
Beckenbauer talaði mikið um Ísland í kvöld.
Mynd: Getty Images
Bayern München tapaði fyrir Porto í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar fyrr í kvöld.

Dante var hræðilegur í leiknum og gerðist sekur um alvarleg varnarmistök þegar hann missti boltann til Ricardo Quaresma sem var þá kominn í gegn og tvöfaldaði forystu heimamanna.

Franz Beckenbauer, fyrrverandi leikmaður og knattspyrnustjóri Bayern, var að lýsa leiknum á þýskri sjónvarpsstöð Sky og var ekki ánægður með Dante.

Þegar tók að líða á leikinn byrjaði Beckenbauer að kalla Dante ,,brasilískan Íslending," og sagði hann spila ,,eins og Íslendingur í stígvélum," þegar hann missti boltann til Quaresma.

Dante verður ekki ánægður þegar hann fær að heyra að goðsagnakenndur varnarmaður Bayern, sem skoraði 60 mörk í 427 deildarleikjum fyrir félagið á sínum tíma, hafi líkt honum við Íslending í stígvélum.

Eftir leik hélt Beckenbauer áfram að tala um Dante og Ísland, hlustendum til mikillar furðu. ,,Ef hann væri Íslendingur, eða einhversstaðar frá norðurpólnum og ennþá með skíðaskóna sína á sér, þá væri þessi varnarvinna í lagi."

Við hjá fótbolta.net viljum góðfúslega benda Beckenbauer á að íslensk knattspyrna er í mikilli sókn og margir góðir miðverðir að koma upp. Svo er líka miklu kaldara á norðurpólnum.
Athugasemdir
banner
banner