Rashford, Fonseca, Moyes, Jorginho, Fati, Lenglet, Amorim, Sterling og Lukaku koma við sögu
   fim 19. maí 2016 11:20
Elvar Geir Magnússon
Sjö leikmenn á Englandi sem vilja gleyma tímabilinu
Grealish á U21 landsliðsæfingu með Englandi.
Grealish á U21 landsliðsæfingu með Englandi.
Mynd: Getty Images
Varnarmaðurinn John Stones.
Varnarmaðurinn John Stones.
Mynd: Getty Images
Erfitt fyrir Schneiderlin.
Erfitt fyrir Schneiderlin.
Mynd: Getty Images
Hefur ekki náð að stíga skrefið.
Hefur ekki náð að stíga skrefið.
Mynd: Getty Images
Staðnaður Ibe.
Staðnaður Ibe.
Mynd: Getty Images
Matic virkar latur.
Matic virkar latur.
Mynd: Getty Images
Enska úrvalsdeildin er að baki og fjölmiðlar og aðrir verið duglegir að verðlaun Riyad Mahrez, Dele Alli, Gylfa og alla þá fyrir flott tímabil.

En það geta ekki allir unnið. Það eru einhverjir leikmenn sem vilja gleyma tímabilinu sem er að baki. Leikmenn sem áttu að skína en skildu áhorfendur eftir vonsvikta.

Hérna eru sjö leikmenn sem Mirror setur í þennan flokk.

Jack Grealish
Miklar vonir voru bundnar við Jack Gralish eftir gríðarlega lofandi tímabil árið á undan. Hann fylgdi því tímabili eftir með skelfilegu tímabili þar sem Aston Villa tapaði öllum sextán leikjunum sem hann spilaði.

Hrikaleg tölfræði og skyndilega hefur fólk misst alla trú á þessum unga leikmanni.

Vísbendingarnar fóru að berast síðasta sumar þegar Grealish var myndaður með vodkaflösku. Hann lenti upp á kant við Remi Garde eftir að hafa verið myndaður í gleðskap eftir að Villa steinlá fyrir Everton.

Stuðningsmenn Villa vona að næsti stjóri komi stráknum aftur á beinu brautina í Championship-deildinni.

John Stones
Síðasta sumar var sumar óvissu fyrir John Stones sem á endanum var áfram í Guttagarði gegn eigin vilja. Everton hafnaði fjórum tilboðum í miðvörðinn sem fór sjálfur fram á sölu.

Everton stóð fast á sínu en þetta hafði augljós áhrif á Stones inni á vellinum.

Meiðsli Phil Jagielka gerði það að verkum að Stones var í hjarta varnarinnar með Ramiro Funes stærsta hluta tímabilsins og þessi 21 árs strákur átti í vandræðum án reynslumikla félaga síns.

Þrátt fyrir lélegt tímabil er Stones enn eftirsóttur og Everton þarf áfram að berjast fyrir því að halda honum.

Morgan Schneiderlin
Flestir töldu að Manchester United hafi gert frábær kaup þegar félagið fékk Schneiderlin fyrir 24 milljónir punda síðasta sumar. Það er of snemmt að afskrifa hann en hans fyrsta tímabil á Old Trafford var vonbrigði.

Hann endaði uppi sem fjórði kostur á miðju United. Hann átti í vandræðum með að taka skrefið upp í Meistaradeildarbolta og margir stuðningsmenn veltu því fyrir sér hvað hann hefði í raun fram að færa.

Slakt tímabil hefur gert það að verkum að hann hefur dottið úr franska landsliðshópnum sem undirbýr sig núna fyrir EM.

Alex Oxlade-Chamberlain
Enn og aftur voru meiðslin að hafa áhrif á Uxann. Hann spilaði 22 deildarleiki, aðeins níu sem byrjunarliðsmaður.

Óstöðugleikinn heldur áfram að elta hann og hann nær ekki að vinna sér inn fast sæti í liði Arsenal.

Arsene Wenger virðist eki vera viss um hver hans besta staða er og við mælum með því að Uxinn færi sig um set í sumar til að reyna að koma skriði á ferilinn.

Jordon Ibe
Ibe virtist maðurinn til að fara í skó Raheem Sterling þegar enski landsliðsmaðurinn fór til Manchester City. Ibe virtist eiga erfitt með að höndla væntingarnar og þessi tvítugi leikmaður hefur staðnað á Anfield.

Hann náði að spila alls 45 leiki á tímabilinu en lék mest sem varamaður eða í bikarleikjum.

Sheyi Ojo hefur ýtt Ibe niður goggunarröðina og næsta tímabil verður úrslitatímabil fyrir feril Ibe.

Nemanja Matic
Það gætu nánast allir leikmenn Chelsea komist á þennan lista eftir mjög vont tímabil. Branislav Ivanovic, Eden Hazard og Diego Costa banka þar fastast á dyrnar en Matic fær heiðurinn vafasama.

Serbinn var kallaður skrímslið á miðjunni þegar Chelsea vann Englandsmeistaratitilinn. En fallið er hátt.

Skyndilega virka andstæðingar hans sneggri, sterkari og klókari. Matic virkar latur og hefur algjörlega mistekist að verja vörnina fyrir aftan sig. Á hann framtíð undir stjórn Antonio Conte?

Wilfried Bony
Var stórhættulegur hjá Swansea en skrefið til Manchester City virðist hafa verið alltof stórt fyrir hann.

Keyptur á 30 milljónir punda fyrir 18 mánuðum en mörkin hafa aðeins verið 10 í öllum keppnum. Ekki getur hann kvartað yfir því að hafa ekki fengið tækifæri þar sem Sergio Aguero var frá vegna meiðsla stóran hluta tímabilsins.

Þegar Bony hefur fengið tækifærið hefur hann ekki gripið það og Kelechi Iheanacho er kominn á undan í röðina. Það er ekkert sem bendir til þess að Bony muni mögulega geta náð fyrri hæðum aftur.
Athugasemdir
banner