Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 27. júlí 2017 09:40
Magnús Már Einarsson
Efst í huga Jóa eftir leik - Þarf átak um og eftir 14-16 ára aldur
Auturríki fagnar marki í leiknum í gær.
Auturríki fagnar marki í leiknum í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leiknum í gær.
Úr leiknum í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhann Kristinn Gunnarsson, sérfræðingur Fótbolta.net.
Jóhann Kristinn Gunnarsson, sérfræðingur Fótbolta.net.
Mynd: Fótbolti.net - Benóný Þórhallsson
Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari.
Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhann Kristinn Gunnarsson, sérfræðingur Fótbolti.net, rýnir vel í leiki landsliðsins á EM í Hollandi. Hér má sjá uppgjör hans eftir 3-0 tapið gegn Austurríki í lokaleiknum í gærkvöldi.



Íslenska liðið var ekki nálægt því að vinna eða fá stig úr leiknum í gær. Byrjun leiksins og í raun fyrri hálfleikur allur var bara einstefna. Í kringum 30.mínútu setjum við líklega saman flestar sendingar í leiknum – jafnvel mótinu – og það endar með marktilraun langt yfir frá Hallberu. Annars var sóknarleikurinn á herðum Fanndísar og einstaklingsframtaki hennar. Föstu leikatriðin sköpuðu svo restina af tækifærum til þess að skora. Mikil vonbrigði að ná ekki marki eftir slíkt atriði. Öll þrjú liðin sem við mættum skoruðu úr eða eftir slík atriði gegn okkur. Það má segja að við höfum verið lögð á eigin bragði hvað það varðar.

Liðið okkar virkaði strekkt og undir pressu í leiknum gegn Austurríki. Það er skiljanlegt að áfallið að ná ekki markmiðum okkar og komast ekki áfram hafi verið mikið. Líklega tilfinningaþrungin stund eftir að hafa byggt upp væntingar, lagt ómælda vinnu á sig í undirbúningi og við æfingar, fengið og séð besta og mesta stuðning sem íslenskt kvennalandslið hefur fengið. Langað svo hrikalega að standast væntingar, komast áfram og njóta árangurs erfiðisins. Fyrir liðið, þjálfarateymið og þjóðina – stuðningsmennina sem voru langbestir á þessu móti. Það er svekkelsi að geta ekki gefið þeim þá augljósu góðu gjöf að fara lengra í mótinu. Ofan á það þá keyrðu þær sig út við að reyna og lögðu allt í þetta.

En þá er auðvelt fyrir okkur sem horfum á utanfrá að vera vitrir eftirá og velta fyrir sér hvort það hefði breytt einhverju að skella bara fleiri áköfum en þó reynsluminni leikmönnum í liðið í síðasta leiknum. En ákvörðun þjálfarans er skiljanleg þar sem liðið sem spilaði vildi, gat og ætlaði að klára mótið með því að taka stig úr síðasta leiknum og gefa sjálfum sér og stuðningsmönnum alvöru frammistöðu.

Það gekk engan veginn. Ég veit ekki af hverju. Leikmenn og þjálfari segja að þær hafi verið 100% undirbúnar og með allt á hreinu varðandi andstæðinginn. Eitthvað í sambandi við hugarfar hafi klikkað. Það þarf ekki að tala um getu maður á mann eða grunnfærni hér. Þegar út í leik eða svona mót er komið þá vinnur fyrsta snerting ekki leiki. Sendingageta vinnur ekki leiki.

Getur íslenska liðið ekki haldið bolta? Hverju hefði það breytt ef þær hefðu haldið boltanum betur?
Fleiri færi? Mögulega. Komist ofar á völlinn? Já líklega. Fengið færri mörk á sig? Kannski, en ekki endilega.

Héldum við boltanum vel fyrir ári síðan í Frakklandi? Hefðum við kannski bara unnið EM í fyrra ef við hefðum haldið boltanum betur?

Við þurfum ekki að fara í þessar bollaleggingar. Lið spila á sínum styrkleikum gegn sterkum andstæðingum í sterku móti.

Stundum þurfa hlutirnir að falla með manni. Það er alveg rétt sem þjálfari og leikmenn segja. En það þarf að skapa sér sína heppni. Íslenska liðið komst í fínar stöður í öllum leikjunum til að skora mörk. En skora samt bara eitt og það úr opnum leik. Það er einn af hlutunum sem liðið og þjálfari þarf að fara rækilega í gegnum. Álitlegar stöður eru margar – en lítil uppskera.

Hefðum við gert betur með annað kerfi? Meiddu leikmennina, ómeidda?
Ég var að horfa á viðtalið við Freysa þar sem hann er eðli málsins samkvæmt ansi loftlaus eftir átakamikla tíma og vonbrigði með niðurstöðu mótsins og mikla vinnu. Á sama tíma og hann er spurður út í ákvörðun hans að breyta leikkerfi liðsins kemur liðið sem var að vinna hann og hans lið 3-0 dansandi inn með miklum ærandi látum. Ég fann mikið til með honum. Það er því miður alveg jafn auðvelt að kunna ekki að vinna og það er að kunna ekki að tapa. Fíflagangur af þessu tagi er bara til að niðurlægja og sparka í liggjandi mann. Eins asnalegt og það er. Miðað við tímasetninguna á þessu bíói fannst mér hann svara spurningunni um kerfið óvenju yfirvegað.

Íslenska landsliðið á EM í ár er nokkuð nálægt því að vera eins og landsliðið sem verður í undankeppni HM. Því verður að setja til hliðar tal um þá sem vantar. Sama hvaða kerfi er spilað þá er liðið undirbúið það vel m.t.t. andstæðinga að niðurstaða leiksins ræðst alltaf á frammistöðu, ákvarðanatöku og gæða leikmanna og þjálfara í leiknum sjálfum. Þetta breytist ekkert. Þetta var svona á EM í ár og verður svona áfram. „Spekingar“ geta endalaust farið yfir þessa þrjá leiki á EM í ár og fundið atriði þar sem leikmenn og þjálfarar hefðu getað gert betur. Þetta geta öll lið gert. Mikilvæga atriðið er að þjálfararnir okkar og liðið fari vel yfir þetta og komi sterkari útúr mótinu og inní næstu verkefni.

Er Freysi á réttri leið með liðið? Er liðið almennt á réttri leið?
Hópurinn sem fór á EM þetta árið er vel samstilltur. Svörin í viðtölum eru nokkuð á sömu lund. Undirbúningurinn var 100%, umgjörðin var 100% og allir gerðu allt 100% til að vinna. En það bara gekk ekki. Við erum á svipuðum slóðum eða rétt á eftir hinum liðunum og þurfum að fara niður í 7.flokk á Íslandi með grunnatriði til að laga það sem uppá vantar.

Ísland er lítið og hægur vandi að stilla strengina betur. Ég er sammála því að alltaf þarf að bæta þjálfun, alveg niður í 7.flokk. Ég held samt að við ættum að gera átak núna í því að bæta það sem gerist um og eftir 14-16 ára aldurinn hjá íslenskum leikmönnum. Þetta er svo létt því þetta eru svo fáir á Íslandi. Hversu mikið mál er fyrir KSÍ að taka bara utan um þessa krakka sem stefna hátt og hjálpa þeim? Öllum! Fleiri og lengri samverustundir með KSÍ þjálfurum (landsliðsþjálfurum). Meiri vinnu landsliðsþjálfara með félagsþjálfurum – heimsóknir landsliðsþjálfara í félögin og vinna betur með þeim.

Umgjörðin á EM kvenna í ár virtist vera fyrsta flokks hjá KSÍ. Hefði verið hægt að gera betur þar? Við viljum eignast fleiri atvinnumenn erlendis og fleiri samkeppnishæfari leikmenn í landsliðinu. Hefðu þjálfarar í Pepsi getað lært af þessari vinnu teymisins í mótinu? Hefði miklu munað að innvinkla þá bara aðeins inní þetta? Vonandi verður lærdóm mótsins komið til þeirra svo þeir geti unnið áfram með sínum leikmönnum sem voru í hópnum í ár. Þannig eignumst við betri leikmenn sem virka betur í landsliðinu.

Það er gott og blessað að hafa U23 landslið kvenna. En það er ekkert með það að gera ef það þýðir bara 2-3 leikir í einhverju Nordic móti í byrjun júní. Það verður þá að keyra á alvöru verkefni. Æfa meira saman og lengur í einu. Fá alvöru leiki og kosta meiru til. Staðreyndin er að stór hluti landsliðshópsins er í Pepsi deildinni. Þá verður KSÍ að vinna betur með þeirri deild og hjálpa henni og þjálfurum hennar. Þá fáum við enn betra landslið.

Svo vona ég að mér hafi misheyrst á einum blaðamannafundinum en mér fannst landsliðsþjálfarinn tala um að hann þyrfti að svara tölvupóstum eftir mót varðandi leikmenn landsliðsins. Eins og um fyrirspurnir frá félagsliðum eða umboðsmönnum væri að ræða. Það er auðvitað ekki hlutverk landsliðsþjálfara að spá í slíkt. Hann velur bara sterkasta liðið hverju sinni óháð því hvar leikmaðurinn spilar í félagsliði.
Athugasemdir
banner
banner
banner