Sancho vill ekki snúa aftur til Man Utd - Dumfries vill fara til Man Utd - Chelsea vill Osimhen
   mið 06. maí 2015 20:38
Ívan Guðjón Baldursson
Meistaradeildin: Hinn ótrúlegi Messi sá um Bayern
Mynd: Getty Images
Barcelona 3 - 0 Bayern München
1-0 Lionel Messi ('77)
2-0 Lionel Messi ('80)
3-0 Neymar ('94)

Barcelona tók á móti Bayern München, sem var án Arjen Robben og Franck Ribery, í einum eftirvæntasta risaslag ársins í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.

Leikurinn var gífurlega fjörugur frá upphafi þar sem gestirnir frá München voru ekkert smeykir við að sækja og skilja vörnina eftir galopna þrátt fyrir að vera á einum af erfiðustu útivöllum heims.

Börsungar fengu nokkur dauðafæri í fyrri hálfleik en Manuel Neuer var magnaður í marki Bæjara. Þá fékk Robert Lewandowski sannkallað dauðafæri fyrir Bayern en hitti boltann mjög illa.

Fjörið hélt áfram í síðari hálfleik og voru það ótrúlegir hæfileikar Lionel Messi sem gerðu gæfumuninn.

Fyrst komst Dani Alves upp hægri kantinn og lagði boltann á Messi sem skoraði með skoti rétt fyrir utan teig og þremur mínútum síðar plataði hann Jerome Boateng, varnarmann Bayern, uppúr skónum áður en hann vippaði boltanum yfir Neuer með hægri fætinum og tryggði dýrmætan sigur.

Þetta var 77. meistaradeildarmark Lionel Messi og er hann markahæsti maður keppninnar frá upphafi, með einu marki meira en Cristiano Ronaldo.

Neymar bætti svo þriðja marki leiksins við eftir sendingu frá Messi í skyndisókn þegar gestirnir lögðu allt í að reyna að skora útivallarmark. Liðin mætast aftur á Allianz Arena, heimavelli Bayern, næsta þriðjudag og þá verður allt undir.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner