Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   fim 08. október 2015 09:47
Elvar Geir Magnússon
Verður Platini líka sendur í leyfi?
Staða Platini verður svartari.
Staða Platini verður svartari.
Mynd: Getty Images
Eins og við greindum frá í gær hefur siðanefnd FIFA lagt til að Sepp Blatter, forseti sambandsins, fari í 90 daga bann frá afskiptum af fótbolta en nú stendur yfir rannsókn á víðtækri spillingu innan alþjóða fótboltahreyfingarinnar.

Hringurinn er farinn að þrengjast að Blatter sem hefur verið forseti í 17 ár. Samkvæmt frétt Guardian gæti Michel Platini, forseti UEFA, einnig verið settur í bann en talið var að Frakkinn væri líklegastur til að verða næsti forseti FIFA þegar kosningar verða í febrúar á næsta ári.

Ef Platini verður settur í bann ætti það að öllum líkindum að gera út um drauma hans um forsetastólinn hjá FIFA.

Blatter og Platini hafa báðir verið undir mikilli pressu síðan glæparannsókn hófst á vafasamri sölu Blatter á sjónvarpsrétti en sú sala var gegn hagsmunum FIFA. Þá kom í ljós að Platini fékk greiðslu upp á 1,3 milljónir punda frá Blatter 2011 en báðir hafa þeir neitað að hafa gert eitthvað rangt.

Siðanefnd FIFA telur að það séu of erfiðar kringumstæður að Blatter sé enn við störf meðan á rannsókn stendur og að það hafi mjög neikvæðar afleiðingar fyrir fótboltann í heiminum.

Það segir sitt um ástandið hjá FIFA að ef bann Blatter verður staðfest ætti Kamerúninn Issa Hayatou, sem lengi hefur verið í stjórn FIFA, að setjast í forsetastólinn í hans fjarveru. Hayatou liggur sjálfur undir grun um að hafa óhreint mjöl í pokahorninu og hefur verið sakaður um að hafa þegið mútugreiðslur.
Athugasemdir
banner