Arsenal hlustar á tilboð í Jesus - Tottenham reynir við Gallagher - Liverpool orðað við varnarmann Frankfurt
   mið 15. apríl 2015 17:00
Magnús Már Einarsson
Af hverju getur Liverpool aldrei haldið bestu mönnunum?
Fernando Torres og Xabi Alonso voru vinsælir á Anfield þegar þeir fóru frá Liverpool.
Fernando Torres og Xabi Alonso voru vinsælir á Anfield þegar þeir fóru frá Liverpool.
Mynd: Getty Images
Luis Suarez.
Luis Suarez.
Mynd: Getty Images
Fótbolti.net er með sérfræðingahorn á síðunni þar sem lesendur geta sent inn fyrirspurnir um allt sem tengist fótbolta á einhvern hátt.

Jósef Róbertsson, Liverpool aðdáandi í 31 ár, kom með spurningu um sína menn.

Kristján Atli Ragnarsson á kop.is sá um að svara spurningunni.

Hvað er það sem menn halda að verði til þess að Liverpool virðist aldrei geta haldið bestu mönnunum sínum? Owen, Torres, Suarez, Alonso, Mascherano og gæti nefnt fleiri nöfn en þetta er alveg nóg. Þetta er alveg ótrúlegt hvernig liðið virðist aldrei geta haldið bestu mönnunum sínum því ef ekkert af bestu mönnunum færi þá væri árangurinn líklega betri en mér finnst þetta svakalega mikið hlutfall af frábærum mönnum sem vilja alltaf fara eitthvert annað. Takk fyrir mig
Það er ekki bara Liverpool sem missir sína bestu leikmenn í gegnum árin. Manchester United voru á hátindi sinnar drottnunar þegar þeir „misstu“ Beckham, Van Nistelrooy, Tevez, Cristiano Ronaldo og svo framvegis. Sama með Arsenal og Fabregas, Kolo Touré, Clichy, Nasri, Adebayor og Van Persie. Sama með Chelsea og ... nei annars það vill enginn stjörnurnar eftir að Chelsea hafa eyðilagt þær.

Þetta er allavega eitthvað sem hrjáir öll lið. Hvert dæmi er sérstakt og alls ekki sama ástæðan sem gengur yfir alla. Liverpool vildi til dæmis halda Mascherano en voru í lægð og hann fór hreinlega í verkfall. Á móti er hægt að segja að liðið hafi selt Suarez og Torres á hárréttum tíma (fengu metfé fyrir þá, a.m.k. Torres dalaði strax á eftir).

Þeir sem eru sárastir á þessum lista eru sennilega Owen og Torres, og svo myndi ég bæta Steve McManaman við. Sá var besti leikmaður Liverpool þegar hann lét samning sinn renna út og fór frítt til Real Madríd sumarið '99. Owen fór allt of ódýrt miðað við hversu góður leikmaður hann var þá, þar sem hann hafði látið megnið af sínum samningi renna út eins og McManaman hafði gert. Torres svíður svo mest allra af því að Liverpool voru í lægð þar og öfugt við hinar stjörnurnar fór hann til keppinauta innan Englands, sem þekkist bara ekki á Anfield.

En þetta er eitthvað sem hrjáir öll lið. Stundum vilja menn fara í stórliðin/uppeldisliðin „heima“ (Fabregas, Alonso), stundum vilja menn breyta til (Ian Rush, David Beckham) eftir mörg ár á toppnum í Englandi og stundum er það félagið sem ákveður að selja (Van Nistelrooy, Suarez).

Ég myndi ekki örvænta yfir þessu. Þetta er alltaf jafn pirrandi þegar það gerist en mundu bara að enginn leikmaður er stærri en félagið og löngu eftir að allar hetjur nútímans eru á braut munu Liverpool, Manchester United, Arsenal og öll hin liðin áfram etja kappi með nýjar hetjur innanborðs.

Eins lengi og Liverpool selur aldrei til Manchester United, það er að segja. Það er eina tabúið sem er eftir í þessu.

Sjá einnig:
Eldri svör í sérfræðingahorninu
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner