Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fös 17. febrúar 2017 13:00
Magnús Már Einarsson
Spilaði leik mánuði eftir fæðingu þar sem barnið hennar lést
Linda Björk Stefánsdóttir.
Linda Björk Stefánsdóttir.
Mynd: ÚÍA/Gunnar
Einherji fagnar sigri.
Einherji fagnar sigri.
Mynd: Aðsend
Linda Björk Stefánsdóttir var í mjög áhugaverðu viðtali við Snæfell, tímarit ÚÍA, í desember síðastliðnum. Árið 2015 spilaði Linda með Einherja í 1. deild kvenna, einungis einum mánuði eftir fæðingu en dóttir hennar lét lífið 13 tímum eftir fæðinguna.

Dóttir Lindu greindist með þindarslit á meðgöngu sem þýðir að öll líffæri, maginn og fleira, fara upp í brjóstholið og lungun náðu ekki að þroskast sem skyldi. „Við vissum út í hvað við fórum. Lífslíkur voru 70% og ég reyndi að vera bjartsýn. Það var meira en minna," sagði Linda í viðtalinu.

Linda fór frá Reykjavík heim á Vopnafjörð eftir fæðinguna og þar var vel tekið á móti henni. Haldin var mínútu þögn fyrir heimaleik Einherja til minningu um dóttur hennar.

„Fyrst þegar ég var spurð út í þetta sagði ég já og hugsaði að mér væri sama en þegar ég var komin á völlinn hugsaði ég: „vá – mér þykir vænt um þetta.“ Líf mitt hefur alltaf snúist um Einherja og fótboltann og mér fannst vænna um þetta en ég gerði mér grein fyrir. Það þýddi heldur ekkert fyrir mig að fara í felur með þetta, hér eru allir ofan í öllum og þetta var eina barnið sem fæddist á Vopnafirði þetta ár," sagði Linda.

„Get ekki verið kyrr uppi í sófa og gert ekki neitt"
Mánuði eftir fæðinguna var Linda mætt inn á fótboltavöllinn í leik með Einherja í 1. deild kvenna.

„Það er rosalega erfitt að missa barn og það er hægt að liggja upp í sófa og grenja öllum stundum. Ég get hins vegar ekki verið kyrr uppi í sófa og gert ekki neitt. Það er langbest að fara í félagsskap í einhverju sem þú hefur gaman af og því reif ég mig á æfingar um leið og ég mátti fara af stað, einhverjum fjórum vikum eftir að ég átti. Það var oft erfitt að fara á æfingar og ég þurfti oft að rífa mig upp en ég held að það sé betra en að sitja heima," sagði Linda en Einherji tefldi fram liði í 1. deild kvenna árið 2015 eftir langt hlé.

„Ég bölvaði því að það hafði verið tekin ákvörðun um að fara aftur af stað með meistaraflokk kvenna akkúrat þegar ég var ólétt því ég hafði þráð það í mörg ár. Í dag er ég mjög þakklát fyrir það því ég held að það hafi hjálpað mér mjög mikið."

„Ég sagði alltaf að ég yrði með þegar ég kæmi heim en ef hún hefði lifað af þá hefði ég verið allt sumarið í Reykjavík. En fyrst fór sem fór ákvað ég að drífa mig af stað. Mér fannst ég gömul og þung en ég var viss um að áhorfendur hugsuðu: „Djöfull er hún dugleg. Hún var að eiga barn.“


Gestir í skírninni áttu að fara fyrir leik
Linda spilaði ekki með Einherja í fyrrasumar þar sem hún eignaðist þá aðra stúlku. Linda kveðst strax hafa verið harðákveðin í að eignast annað barn. Dóttirin Adríana Ósk fæddist þann 29. júní og var strax mætt á fótboltaleiki með móður sinni.

„Ég átti aðfaranótt miðvikudags og var komin heim með hana á föstudegi. Það var leikur hérna á laugardegi og ég fór með hana á hann. Á sunnudag keyrði ég með hana fram og til baka á Akureyri þar sem hin dóttir mín var að spila fótbolta.“

Þegar kom að skírninni hjá Adríönu þann 23. júlí þá spilaði fótboltinn einnig stórt hlutverk. Einherji átti leik við KFR í 3. deild karla klukkan 14:00 og skírnarveislan varð að klárast fyrir þann tíma.

„Ég vildi skíra hana sama dag og hina dótturina. Skírnin var klukkan ellefu um morguninn og ég sagði við gestina að þeir yrðu að vera farnir út klukkan tvö því þá væri leikur uppi á velli. Einn þeirra sagði mig að þetta væri í fyrsta skipti sem honum væri sagt hvenær skírn væri búin," sagði Linda í þessu áhugaverða viðtali.

Smelltu hér til að lesa Snæfell og sjá viðtalið í heild
Smelltu hér til að lesa stærri útdrátt úr viðtalinu á vef Austufréttar
Athugasemdir
banner
banner
banner