Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 19. apríl 2017 14:30
Elvar Geir Magnússon
Ljóst frá upphafi að Mbappe yrði stjarna
Mbappe hefur skotist með fítonskrafti upp á stjörnuhimininn.
Mbappe hefur skotist með fítonskrafti upp á stjörnuhimininn.
Mynd: Getty Images
Í fyrri leiknum gegn Dortmund.
Í fyrri leiknum gegn Dortmund.
Mynd: Getty Images
Kylian Mbappe, sóknarleikmaður Mónakó, er ein mest spennandi fótboltastjarnan í dag. Þessi 18 ára leikmaður hefur skotist upp á stjörnuhimininn í vetur og sýnt mögnuð tilþrif í frönsku deildinni og Meistaradeildinni.

Hann sýndi hraða sinn, kraft og hæfileika í miklu magni í fyrri leiknum gegn Borussia Dortmund í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Í 3-2 sigurleik varð hann yngsti leikmaðurinn til að skora tvö mörk í sama leiknum í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar.

Hann verður aftur í sviðsljósinu á heimavelli í kvöld þegar seinni leikurinn fer fram.

Í umfjöllun Guardian um leikmanninn er sagt frá því hvernig hann var alinn upp til að verða atvinnumaður í fótbolta. Hann er fæddur í úthverfi Parísar en faðir hans er frá Kamerún og móðir hans, sem spilaði handbolta, er af alsírskum ættum.

Mbappe byrjaði að stunda fótbolta ungur að árum hjá AS Bondy þar sem Wilfried faðir hans var þjálfari. Wilfried segir að strax hafi sést að hæfileikarnir væru til staðar og þrettán ára gamall gekk strákurinn í skóla á vegum franska knattspyrnusambandsins.

Mbappe vakti mikla athygli og fór í viðtal 14 ára gamall þar sem hann sagði að sitt stærsta markmið væri að spila fyrir sitt uppáhalds fótboltafélag, Real Madrid.

Mörg af stærstu félögum Evrópu fylgdust með Mbappe áður en hann gekk í raðir Mónakó 2015 þar sem hann lét strax að sér kveða með U19 ára liði félagsins. Í upphafi yfirstandandi tímabils var hann notaður sparlega með aðalliðinu en var fljótur að skjótast almennilega upp á stjörnuhimininn.

„Þetta hefur verið hröð þróun en ekkert sem var dregið upp úr hatti," segir Wilfried faðir hans. Þessi ákaflega spennandi leikmaður er nú eitt hættulegast vopn í besta sóknarliði Evrópufótboltans.

Leikur Mónakó og Dortmund í kvöld hefst 18:45.
Athugasemdir
banner
banner