Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 22. apríl 2014 14:15
Elvar Geir Magnússon
Óli Þórðar: Maður er í þessu til að reyna að vinna titla
Ólafur Þórðarson, þjálfari Víkings.
Ólafur Þórðarson, þjálfari Víkings.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þessi spá kemur ekkert á óvart en við setjum stefnuna auðvitað hærra," segir Ólafur Þórðarson, þjálfari nýliða Víkings. Víkingum er spáð ellefta sæti og þar með falli úr Pepsi-deildinni.

„Það hefur gengið vel hjá okkur í þessum undirbúningsmótum og ég er ánægður með stígandann sem hefur verið á liðinu. Við höfum verið að bæta við mönnum og þetta er farið að líta ágætlega út."

Víkingar hafa bætt átta leikmönnum við hóp sinn síðan þeir tryggðu sér sæti í Pepsi-deildinni. Á síðustu dögum hafa þeir fengið til sín serbneskan framherja og portúgalskan vængmann.

„Þetta er allt að smella. Þessir leikmenn eiga að vera öflugir og ég vona að þeir muni reynast okkur styrkur," segir Ólafur. Talsverð meiðslavandræði hafa verið hjá Víkingum.

„Ég vona að það fari að lagast. Pape (Mamadou Faye) er byrjaður að spila aðeins en er ekki klár í að spila heilan leik. Hann ætti að vera orðinn tilbúinn í 90 mínútur seinni partinn í maí. Viktor Jónsson tognaði á rist en er að koma til baka og svo hefur Aron Elís Þrándarson verið að glíma við vandamál í kviðnum."

Aron Elís var algjör lykilmaður hjá Víkingum í fyrra þar sem hann var valinn bæði bestur og efnilegastur í 1. deildinni.

„Hann er okkur mikilvægur og ef hann kemst í sitt besta form getur hann klárlega skipt sköpum fyrir okkur."

Ólafur býst við jafnri deild. „Ég held að Pepsi-deildin verði jafnari núna en hún hefur verið síðustu ár. Lið eins og KR, Stjarnan og FH hafa misst mikilvæga leikmenn og hafa meiðst. Ég held að eitthvað eitt lið muni koma á óvart og blanda sér í toppbaráttuna."

En á hvaða lið myndi Ólafur veðja að verði Íslandsmeistari.

„Víkingur. Það þýðir ekkert annað en að stefna á það. Maður er í þessu til að reyna að vinna titla," segir Ólafur án þess að hika.
Athugasemdir
banner
banner
banner