Sancho vill ekki snúa aftur til Man Utd - Dumfries vill fara til Man Utd - Chelsea vill Osimhen
   fim 23. apríl 2015 11:50
Fótbolti.net
Pistill: Ótrúlegur árangur Porto
Björn Berg og Gísli Halldórsson skrifa
Mynd: VÍB
Mynd: VÍB
Mynd: VÍB
Saga knattspyrnuliðsins FC Porto frá aldamótum er með ólíkindum. Frá árinu 2003 hefur liðið unnið 22 titla, þar af Meistaradeild Evrópu og Evrópudeildina. Á sama tíma hefur liðið selt leikmenn fyrir vel rúmlega 500 milljónir punda.

Óralangt frá stærstu liðum Evrópu
Portúgalar eru ekki nema um 10 milljónir og þar af býr rúm milljón í og við Porto, næststærstu borg landsins. Tekjumöguleikar liðsins eru því langt í frá jafn miklir og stórvelda á borð við Barcelona, Real Madrid og Bayern Munchen.

Munurinn á tekjum Porto og annarra stórliða Evrópu sést vel á meðfylgjandi myndum. Þetta eru einungis tvo dæmi en það leynir sér ekki að tekjur Porto fyrir að leika í Warrior treyjum og með auglýsingu Portugal Telecom eru ekki nema brotabrot af þeim upphæðum sem stærri lið hafa þénað síðastliðin ár. Sömu sögu er að segja af sjónvarpstekjum og miðasölu en þessir fjórir þættir skila bróðurparti allra tekna þeirra liða sem við skoðum til samanburðar.

Magnaður árangur
Hvernig má vera að stórlið sem fá ótrúlegar tekjur í frá styrktar- og sjónvarpssamningum skila iðulega tapi í ársreikningum á sama tíma og vaninn hjá Porto er að skila myndarlegum hagnaði? Á sama tíma og Porto hefur unnið 22 titla hefur Barcelona unnið 22 titla. Bæði lið hafa sömuleiðis unnið 3 Evrópukeppnir á þessu tímabili. Liverpool hefur unnið 6 titla heimafyrir og eina Evrópukeppni og Manchester United 19 titla og eina Evrópukeppni. Liðið nær því árangri á pari við þá allra bestu, fær ekki nema brotabrot af þeim tekjum sem hin liðin fá en tekst samt að skila hagnaði.

Vel heppnuð viðskipti
Ýmis lið hafa náð aðdáunarverðum árangri í gegnum tíðina en stjórnendur og rekstrarsaga á pari við þessa er vandfundin í hinni miklu samkeppni knattspyrnunnar. Tekjur liðsins koma fyrst og fremst úr tveim áttum; frá Meistaradeildinni og viðskiptum með leikmenn. Miðvörðurinn Ricardo Carvalho kom 17 ára gamall til Porto árið 1997, þaðan var hann seldur til Chelsea árið 2004 fyrir 26 milljónir punda. Í stað Carvalho keypti Porto varnartröllið Pepe á eina milljón punda. Þremur árum síðar, árið 2007, seldu þeir Pepe til Real Madrid fyrir 26 milljónir punda. Í hans stað steig upp Bruno Alves sem var síðan seldur árið 2010 til Zenit í Rússlandi á um 19 milljónir punda. Ári síðar keypti Porto Elaquim Mangala á tæplega 6 milljónir punda, en hann leikur í dag með Manchester City sem greiddu fyrir hann ríflega 32 milljónir punda síðastliðið sumar. Á rúmum 10 árum hefur félagið keypt 4 miðverði á tæpar 7 milljónir punda og selt þá á rúmar 100 milljónir. Þetta er einungis lítill hluti af sögunni eins og sjá má á meðfylgjandi mynd þar sem nokkur þekktustu dæmin eru rifjuð upp.

Meistaradeildin leikur algjört lykilhlutverk fyrir félagið. Þaðan berast miklar tekjur en keppnin er ekki síður mikilvægur búðargluggi fyrir Porto þar sem liðinu gefst færi á að sýna bestu leikmennina og hagnast vonandi veglega á viðskiptum. Ýmsir þættir hjálpa Porto í þessari vegferð sinni, til dæmis eru reglur um erlenda leikmenn frjálsari og sömuleiðis er mun auðveldara fyrir óþekkta leikmenn frá Suður-Ameríku að fá atvinnuleyfi í Portúgal en á Englandi, Spáni og Ítalíu. Auk þess geta aðrir en félagið átt hlutdeild í leikmönnum í Portúgal,en í síðasta birta ársreikningi félagsins kom fram að Porto átti einungis 7 af 29 leikmönnum aðalliðsins að fullu. Öflugir umboðsmenn og fjárfestingarfélög hafa því tekið þátt í þessari merkilegu viðskiptasögu Porto.

Fjámál í fótbolta
Á þriðjudaginn kemur halda VÍB og Fótbolti.net fund um fjármálin í Evrópuboltanum. Sérstaök áhersla verður lögð á þátttöku og möguleika íslensku liðanna munu þeir Baldur Stefánsson varaformaður knattspyrnudeildar KR og Jón Rúnar Halldórsson formaður knattspyrnudeildar FH ræða þar málin við Nils Skutle, formann Rosenborg árin 1998 – 2011 sem einnig flytur framsögu á fundinum.

Opið er fyrir skráningar á fundinn hér

Höfundar eru Björn Berg Gunnarsson og Gísli Halldórsson hjá VÍB.
Athugasemdir
banner
banner