Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fös 24. nóvember 2017 12:47
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Lagerback íhugar framtíð sína í Noregi: Þarf að líta í spegil
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það hefur ekki gengið neitt rosalega vel hjá Lars Lagerback síðan hann tók við sem landsliðsþjálfari Noregs. Þessi fyrrum landsliðsþjálfari Íslands ætlar að skoða framtíð sína ef það fer ekki að ganga betur fljótlega.

Noregur tapaði fjórum leikjum, vann þrjá og gerði tvö jafntefli á árinu sem er að líða.

Lagerback tók við í febrúar eftir að hafa hætt með íslenska landsliðið eftir EM í Frakklandi í fyrra. Hann setti markmiðið á að komast í topp 50 á heimslista FIFA. Það tókst ekki, Noregur er í 58. sæti.

„Við erum á stað þar sem við eigum skilið að vera, en þetta er samt ekki það sem ég var að vonast eftir," sagði Lagerback er hann ræddi við NRK.

„Ef við förum ekki að bæta okkur, þá þarf ég að líta í spegil og skoða hvort ég sé rétti maðurinn í starfið."

Lagerback var ráðinn til Noregs í byrjun febrúar og hefur liðið tekið ákveðnum framförum undir hans stjórn. Hann gerði samning um að stýra liðinu í næstu undankeppni fyrir EM 2020 og það verður fróðlegt að sjá hvernig honum tekst upp þar.

Eins og allir ættu að kannast við var Lagerback landsliðsþjálfari Íslands áður en hann tók við Noregi. Hann hjálpaði Íslandi að komast á sitt fyrsta stórmót, EM 2016. Ísland komst á annað stórmótið í röð undir stjórn Heimis Hallgrímssonar og verður á HM á næsta ári.
Athugasemdir
banner
banner
banner