Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   þri 28. júní 2016 20:10
Elvar Geir Magnússon
Nice
Staðreynd dagsins - Raggi spilar alltaf vel fyrir Ísland
Fær aldrei undir 7 í einkunn
Icelandair
Ragnar Sigurðsson, varnarmaður Íslands.
Ragnar Sigurðsson, varnarmaður Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Klettur í vörn íslenska liðsins.
Klettur í vörn íslenska liðsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Raggi var óaðfinnanlegur gegn Englandi.
Raggi var óaðfinnanlegur gegn Englandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þegar flett er upp í einkunnagjöf Fótbolta.net kemur í ljós að Ragnar Sigurðsson, besti leikmaður Íslands á EM, spilar einfaldlega alltaf vel fyrir íslenska landsliðið.

Raggi spilaði hverja einustu mínútu Íslands í undankeppni EM og hefur spilað hverja einustu mínútu í úrslitakeppni.

Raggi hefur ekki fengið lægri einkunn en 7 frá Fótbolta.net í undankeppni og úrslitakeppni EM eins og sjá má hér að neðan.

Meðfylgjandi er umsögnin úr einkunnagjöfinni eftir hvern leik.

Úrslitakeppnin í Frakkland:

Sigur gegn Englandi
10 - Maður leiksins
Geggjuð frammistaða sem var toppuð með marki. Raggi fær bunka af tilboðum eftir EM.

Sigur gegn Austurríki
9
Eins og margoft hefur komið fram þá hefur Ragnar átt frábært Evrópumót og hann heldur bara uppteknum hætti.

Jafntefli gegn Ungverjalandi
8 - Maður leiksins
Annan leikinn í röð fór Ragnar á kostum. Varðist gríðarlega vel.

Jafntefli gegn Portúgal
9
Suddalega góður leikur hjá Ragnari sem sýndi gæði sín gegn Ronaldo, öðrum af tveimur bestu leikmönnum heims.

Undankeppnin:

Tap fyrir Tyrklandi úti
8
Ragnar var mjög öflugur í þessum leik. Stóð eins og klettur í vörninni allan tímann og Tyrkirnir voru engan veginn að komast framhjá honum.

Jafntefli gegn Lettum heima
7
Besti varnarmaður Íslands í leiknum. Átti mikilvægar tæklingar.

Jafntefli gegn Kasakstan heima
8
Vann ótal skallabolta og duglegur að stoppa sóknir, samvinna hans og Kára sterk sem fyrr.

Sigur gegn Hollandi úti
8
Kári og Raggi voru alveg með þetta í kvöld.

Sigur gegn Tékklandi heima
8
Steig varla feilspor í leiknum, gífurlega öruggur í öllum sínum aðgerðum og er að komast í flokk bestu miðvarða sem Ísland hefur átt.

Sigur gegn Kasakstan úti
8
Miðverðirnir skiluðu gríðarlega öflugri vinnu og Raggi var á tánum allan tímann.

Tap gegn Tékklandi úti
7 - Maður leiksins
Ragnar skoraði sitt fyrsta landsliðsmark og var bestur af varnarmönnum Íslands.

Sigur gegn Hollandi heima
9
Hafði í nægu að snúast með að passa einn sterkasta framherja heims, Robin van Persie. Til að gera langa sögu stutta þá sást sá ágæti maður ekki í leiknum.

Sigur gegn Lettlandi úti
7
Grjótharður. Það hefur oft reynt meira á miðverðina en þeir voru við öllu búnir þegar á þurfti að halda.

Sigur gegn Tyrkjum heima
7
Raggi getur alveg horft á þennan leik aftur í sjónvarpi. Flottur leikur.
Athugasemdir
banner
banner
banner