Fundað um Pochettino - Man City tryggir sér undrabarn - Arsenal ætlar að styrkja hópinn
   lau 29. ágúst 2015 12:30
Ívan Guðjón Baldursson
Emil: Vona ég hafi hjálpað mörgum draumaliðsþjálfurum
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Emil Hallfreðsson var stoðsendingakongur ítölsku deildarinnar á síðasta tímabili, ásamt Marek Hamsik og Antonio Candreva.

Emil leikur fyrir Verona sem endaði í 13. sæti deildarinnar á síðasta tímabili og náði jafntefli við Roma í fyrstu umferð á þessu tímabili.

„Það eru engin sérstök leyndarmál bakvið allar þessar stoðsendingar, kannski bara góður vinstri fótur," sagði Emil hlæjandi í viðtali við Fantagazzetta, sem heldur utan um draumaliðsdeild ítalska boltans.

„Ég er ánægður með að vera stoðsendingakongurinn 2014/15, en væri samt til í að skora aðeins oftar. Það er augljóst að ég gæti ekki verið stoðsendingakongurinn án mikillar hjálpar frá liðsfélögunum og þá sérstaklega þeim sem skora úr færunum sem ég skapa."

Emil lagði upp eina mark Verona í fyrstu umferð þessa tímabils þar sem liðið náði góðu 1-1 jafntefli við stórlið Roma.

„Markmiðið mitt er alltaf að leggja mig eins mikið fram og ég mögulega get til að hjálpa liðsfélögunum. Hvað varðar liðið þá er mikilvægast að tryggja stöðuna í deildinni sem fyrst og sleppa helst fallbaráttunni."

Emil var spurður hvort hann taki sjálfur þátt í ítölsku draumaliðsdeildinni eða hvort hann fylgist með gangi máli þar.

„Síðustu ár hef ég komist að því að þið fylgist mjög mikið með draumaliðsdeildinni hér á Ítalíu. Ég vona að ég hafi hjálpað mörgum draumaliðsþjálfurum. Ég hef aldrei tekið þátt í leiknum en það er til svipaður leikur á Íslandi og hann spilaði ég heldur betur þegar ég var yngri."

Emil var svo spurður út í fyrsta markið sem hann skoraði í Serie A, en það var glæsilegt og kom gegn stórveldinu Juventus. Emil var svo beðinn um að velja tvo leikmenn með sér til að mynda fullkomna miðju og endaði viðtalið á því að skila kveðju.

„Markið sem ég skoraði gegn Juventus var draumur sem varð að veruleika. Buffon var á milli stanganna sem gerði markið tilfinningaþrungið og ég bjóst í raun ekki við því að skora.

„Ef ég mætti velja tvo miðjumenn með mér í þriggja manna miðju væru það (Andrea) Pirlo og baráttuhundurinn (Radja) Nainggolan.

„Ég skila kveðju til Fantagazzetta og óska öllum góðs tímabils í draumaliðsdeildinni, sérstaklega þeirra sem veðjuðu á mig!"

Athugasemdir
banner
banner
banner