Rashford, Fonseca, Moyes, Jorginho, Fati, Lenglet, Amorim, Sterling og Lukaku koma við sögu
   mið 10. janúar 2018 14:30
Magnús Már Einarsson
Rúnar Már líklega á förum frá Grasshopper
Rúnar Már á landsliðsæfingu í Katar í nóvember.
Rúnar Már á landsliðsæfingu í Katar í nóvember.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Líklegt er að íslenski landsliðsmaðurinn Rúnar Már Sigurjónsson sé á förum frá svissneska félaginu Grasshopper núna í janúar samkvæmt heimildum Fótbolta.net.

Magnús Agnar Magnússon, umboðsmaður Rúnars hjá Total Football, vildi ekki tjá sig um málið.

Hinn 27 ára gamli Rúnar Már kom til Grasshopper frá sænska félaginu GIF Sundsvall sumarið 2016. Rúnar hefur skorað þrjú mörk í tólf leikjum í svissnesku úrvalsdeildinni á þessu tímabili en hann var talsvert á bekknum undir lok árs.

Í desember var Rúnar orðaður við sænsku meistarana í Malmö í fjölmiðlum þar í landi.

Grasshopper er í 6. sæti af tíu liðum í svissnesku úrvalsdeildinni en á síðasta tímabili skoraði Rúnar sjö mörk í 31 leik með liðinu.

Rúnar Már er uppalinn á Sauðárkróki en hann lék með Tindastóli, HK og Val á Íslandi áður en hann fór út í atvinnumennsku árið 2013.

Rúnar er einn af þeim sem eru í baráttu um sæti í íslenska landsliðshópnum fyrir HM í Rússlandi næsta sumar en hann hefur skorað eitt mark í fimmtán landsleikjum á ferlinum.
Athugasemdir
banner
banner