Rashford, Fonseca, Moyes, Jorginho, Fati, Lenglet, Amorim, Sterling og Lukaku koma við sögu
   mán 23. nóvember 2015 08:00
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Ágúst Gylfa var á Karíbahafinu þegar Þórður opnaði sig
Þórður Ingason, markvörður Fjölnis.
Þórður Ingason, markvörður Fjölnis.
Mynd: Fótbolti.net - Daníel Rúnarsson
Ágúst Gylfason.
Ágúst Gylfason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótboltaferill Þórðar Ingasonar, markvarðar Fjölnis, var í lausu lofti þegar hann var settur í agabann af félagi sínu í september síðastliðnum. Þórður opnaði sig í opinskáu viðtali við Fótbolta.net í lok október og sagði frá áfengis- og vímuefnavanda sínum.

Þórður hafði mætt á æfingu undir áhrifum áfengis en Ágúst Gylfason, þjálfari hans hjá Fjölni, segir að hjá Grafarvogsfélaginu hafi fólk verið meðvitað um vandamál Þórðar.

„Að sjálfsögðu vissum við að þessu en það hafði aldrei gerst þannig að hann hefði komið á æfingar og ekki verið í standi. Svo gerðist þetta og ég tók á því þannig að setja hann í agabann. Ég tel mig hafa gert akkúrat rétta hlutinn," sagði Ágúst í viðtali í útvarpsþættinum Fótbolti.net síðasta laugardag.

Þórður ákvað að taka á sínum málum og fór í meðferð eins og fram kemur í viðtalinu.

„Hann er með þvílíka hæfileika, ef hann er í lagi og vinnur með okkur þá er hann klárlega einn af betri markvörðum á Íslandi. Það er ekki spurning," sagði Ágúst sem telur að Þórður eigi möguleika að berjast um sæti í íslenska landsliðshópnum ef hann nær að halda rétt á spöðunum.

Þórður var samningslaus eftir tímabilið í sumar. Hvenær tók Ágúst þá ákvörðun að hann vildi halda Þórði?

„Ég tók þessa ákvörðun í sumarfríinu mínu sem er reyndar í lok október. Ég var á siglingu á Karíbahafinu en fékk símtal um að Þórður hefði opnað sig í viðtali. Ég fór strax á netið og las viðtalið og þá fékk ég strax straum, einskonar hroll. Þórður var að taka gríðarlega stórt skref með þessu og ég hugsaði strax að ég væri til í að hjálpa og vinna með félaginu og honum sjálfum til að gera hann að þeim leikmanni sem hann geymir."

„Það verður forvitnilegt að fylgjast með þessu og hvernig hann getur sprungið út. Við ætlum að hjálpa honum," sagði Ágúst sem sagði að Þórður hafi verið magnaður á æfingu á laugardagsmorgun og sé í flottu standi.

„Hann var bara frábær í morgun, varði eins og berserkur," sagði Ágúst en hægt er að hlusta á viðtalið við hann í heild sinni með því að smella hérna.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner