Rashford, Fonseca, Moyes, Jorginho, Fati, Lenglet, Amorim, Sterling og Lukaku koma við sögu
   lau 12. maí 2012 17:59
Arnar Þór Ingólfsson
Umfjöllun: Enginn nýliðabragur á Hötturum
Erlingur Jack brýtur á Högna Helgasyni innan teigs
Erlingur Jack brýtur á Högna Helgasyni innan teigs
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Það var hiti í mönnum á Valbjarnarvelli
Það var hiti í mönnum á Valbjarnarvelli
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Hattarar fagna marki Elvars Þórs
Hattarar fagna marki Elvars Þórs
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Þróttur 1 - 3 Höttur
0-1 Högni Helgason ('13)
0-2 Elvar Þór Ægisson ('53)
1-2 Karl Brynjar Björnsson ('64)
1-3 Stefán Þór Eyjólfsson ('83, víti)

Þróttur tók á móti Hetti frá Egilsstöðum á Valbjarnarvelli í fyrstu umferð 1. deildar karla í dag. Þetta var fyrsti leikur Hattar í 1. deild frá upphafi og fyrir leik hittust stuðningsmenn Hattar og gerðu sér glaðan dag, sumir þeirra komnir keyrandi alla leið frá Egilsstöðum. Skemmst er frá því að segja að Hattarar hafa ástæðu til að halda gleðinni áfram, þar sem liðið vann Þróttara sannfærandi í Laugardalnum með þremur mörkum gegn einu.

Bæði lið þreifuðu fyrir sér á blautum vellinum í upphafi leiks og töluvert var um langar sendingar. Á 13. mínútu komst Höttur svo yfir. Þá átti Stefán Þór Eyjólfsson sendingu úr aukaspyrnu á miðjum vellinum sem varnarmaður Þróttara skallaði í hnakkann á Högna Helgasyni framherja Hattar og í netið.

Nýliðarnir efldust við þetta mark og voru töluvert beinskeyttari í sínum aðgerðum án þess þó að ná að skapa sér teljandi færi. Þróttarar áttu líka sínar sóknir en þær skiluðu ekki miklu og þau skot sem að þeir náðu á markið enduðu öll í öruggum höndum hins unga Ryan Allsop, sem kom til Hattar í fyrradag frá Millwall. Allsop leit vel út í leiknum og var sérstaklega sterkur í því að koma boltanum í leik með löngum spyrnum, auk þess sem hann varði nokkrum sinnum vel.

Í síðari hálfleik var það sama uppi á teningnum. Hattarar voru ákveðnari, létu boltann ganga vel á milli sín og á 53. mínútu uppskáru þeir annað mark eftir snarpa sókn. Jóhann Valur Klausen geystist þá upp hægri kantinn og gaf fastan bolta fyrir markið sem Elvar Þór Ægisson stýrði í netið af miklu öryggi. Stuðningsmenn Hattar með stuðningsmannasveitina Hróa í fararbroddi réðu sér vart fyrir kæti í stúkunni.

Á 60. mínútu vildu Þróttarar síðan að Högni Helgason framherji Hattar yrði sendur af velli, en hann virtist stíga viljandi á Karl Brynjar Björnsson er þeir lágu í grasinu eftir skallabaráttu. Dómari leiksins virðist þó ekki hafa séð atvikið og ekki línuvörðurinn heldur og því aðhöfðust þeir ekkert. Frá sjónarhorni blaðamanna virtist um ásetning vera að ræða og því hefði Högni sennilega átt að fjúka út af með rautt spjald.

Þetta atvik virtist þó kveikja í Þrótturum, sér í lagi Karli Brynjari, en hann minnkaði muninn á 63. mínútu með frábæru skoti í slána og inn eftir að leikmönnum Hattar mistókst að koma boltanum í burtu eftir hornspyrnu. Glæsilegt mark hjá Karli. Þróttarar áttu þarna sinn besta kafla í leiknum og fengu nokkur færi, það besta fékk sennilega Andri Gíslason skömmu eftir að hann kom inná sem varamaður. Hann komst einn í gegn á móti Allsop en enski markvörðurinn gerði afar vel, las Andra eins og opna bók og varði í horn.

Hattarar fengu svo vítaspyrnu á 83. mínútu þegar Erlingur Jack Guðmundsson braut á títtnefndum Högna þegar hann var kominn einn á móti markverði. Erlingur fékk gult spjald, sem var vel sloppið, einhverjir dómarar hefðu rekið hann af velli. Stefán Þór skoraði af miklu öryggi af punktinum og Hattarmenn sigldu öruggum 3-1 sigri í höfn.
Allir miðlar hafa spáð Hetti falli í sumar en miðað við það sem þeir sýndu í dag getur ekkert lið bókað sigur gegn Héraðsbúum. Þeir geta komist langt á baráttunni og stemmningunni sem fylgir því að vera nýliðar í deildinni. Þróttarar geta hinsvegar ekki verið ánægðir með að tapa gegn nýliðunum á heimavelli.

Athugasemdir
banner
banner
banner