Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
   þri 24. september 2019 12:45
Magnús Már Einarsson
Gústi Gylfa bjóst við framlengingu: Þetta er högg
Ágúst Gylfason.
Ágúst Gylfason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ágúst hefur stýrt Breiðabliki undanfarin tvö ár.
Ágúst hefur stýrt Breiðabliki undanfarin tvö ár.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks, segir það hafa komið sér á óvart þegar honum var tilkynnt í gær að félagið hefði ákveðið að nýta sér uppsagnarákvæði í samningi hans.

„Við hittumst á fundi og ég bjóst við að fá framlengingu á samningi. Ég kom í þeirri trú á fundinn. Fljótlega á fundinum tjáðu þeir mér að ég væri ekki í framtíðarplönum í því skipulagi sem þeir eru að sækja eftir núna," sagði Ágúst við Fótbolta.net í dag.

„Ég er mjög ósáttur við að fá ekki að taka þátt í þeirri vegferð. Ég fékk heldur ekki að vita hvert þetta skipulag væri. Ég var í rauninni aldrei inn í þessum plönum varðandi hvað þeir ætla að gera. Það kemur í ljós hvað verður þar. Það var frekar sárt að fá ekki að taka þátt áfram miðað við starf mitt hjá félaginu undanfarn tvö ár. Ég hefði verið til í að heyra hvað þeir hefðu að segja en það fór aldrei á það stig. Stjórn og meistaraflokksráð þurfa að taka ákvarðanir og þetta er þeirra ákvörðun sem við þurfum að lifa við."

Grunaði að ekki væri allt með felldu
Ágúst segir að tíðindin hafi komið sér í opna skjöldu. „Þau gerðu það. Miðað við fyrirsagnir og samskiptamiðla undanfarnar vikur þá var manni farið að gruna að það væri ekki allt með felldu. Maður var aðeins búinn að undirbúa sig en það er alltaf erfitt að fá þetta högg. Sérstaklega miðað við árangur undanfarinna tveggja ára, leikmannaveltu og þar fram eftir götunum."

„Hefði treyst mér til að fara alla leið með þetta lið"
Ágúst hefur þjálfað Breiðablik í tvö ár en á þeim tíma hefur hefur félagið selt marga leikmenn út í atvinnumennsku, meðal annars í júlí síðastliðnum.

„Síðan ég tók við skútunni hefur þetta verið með ólíkindum. Það eru 15 leikmenn farnir frá félaginu. Við höfum fengið 7-8 leikmenn á móti en það tekur tíma að búa til sigurlið. KR-ingar hafa haldið sama hóp í smá tíma og á endanum skilar það sér í titli og góðum árangri. Ég held að ég hafi gert nokkuð vel úr því sem ég hef úr að moða. 2. sætið tvö ár í röð og bikarúrslit. Það hefur vantað herslumuninn upp á en ég hefði treyst mér til að fara alla leið með þetta lið. Það hefði ekki verið annað markmið en að vinna titilinn á næsta ári. Það er ef og hefði. Núna er maður út úr þessu og annar fær að stíga inn í starfið og taka titil. Ég óska þeim sem tekur við velfarnaðar. Þetta er frábært starf," sagði Ágúst en hann er ánægður með starf sitt hjá Breiðabliki.

„Ég er mjög sáttur við þjálfarateymið mitt, Gumma Steinars, Óla P og Aron Má styrktarþjálfara ásamt öllum þeim sem hafa unnið frábært starf með okkur. Þar eru stuðningsmenn, stjórn og meistaraflokksráð. Breiðablik er frábært félag og ég hef ekkert út á það að setja. Það var heiður að fá að vinna þarna í tvö ár þó að ég hefði viljað gera það lengur persónulega. Stjórn og meistaraflokksráð ákváðu að taka þessa ákvörðun sem mér skilst að sé mögulega á móti því sem stuðningsmennirnir og batteríð í kringum þetta vill. Þetta er þeirra ákvörðun og þeir verða að lifa með henni."

Ekki hættur að þjálfa
Kveðjuleikur Gústa með Breiðablik verður gegn KR í lokaumferð Pepsi Max-deildarinnar á laugardag. „Ég bað um að klára tímabilið. Ég vildi taka 2-3 æfingar og stýra liðinu í síðasta leiknum á móti KR. Ég hef heyrt að það þurfi mikinn styrk að vera hættur í starfi en klára samt tímabilið með liðið. Mér finnst leikmennirnir og Blikar eiga það skilið að ég klári mótið og samninginn með sóma áður en ég þakka fyrir mig. Þetta verður skrýtið og eitthvað sem maður hefur aldrei upplifað. Þetta fer í reynslubankann."

Ágúst segir ekki ljóst hvað tekur við hjá sér en hann ætlar sér að halda áfram í þjálfun.

„Ég er að melta þetta. Þetta er ákveðið högg. Ég tel mig hafa unnið frábært starf en það er greinilega ekki nógu gott til að halda starfinu. Það er ekkert á döfinni eins og staðan er núna en Guð minn almáttugur, ég er ekki hættur að þjálfa," sagði Ágúst.

„Ég skil vonandi eftir mig gott starf og góðan hóp og það verður vonandi gott fyrir annan að taka við. Ég tók við liði sem hafði verið í ströggli í tvö ár og er búinn að koma því á þann stað sem það er í dag," sagði Ágúst að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner