Bayern reynir aftur við Walker - Neves til Man Utd?
   fim 14. apríl 2005 19:00
Leiknir F. með verðmætasta leikmann Íslands
Það kann að þykja ótrúlegt en 3.deildarlið Leiknis frá Fáskrúðsfirði skartar verðmætasta knattspyrnumanni landsins, leikmanni sem enska stórliðið Newcastle sýndi áhuga haustið 2002. Leikmaðurinn hefur spilað 8 Evrópuleiki, gegn Newcastle, Malaga, Lilleström og ÍA og skoraði í þeim eitt mark. Samkvæmt þýska netmiðlinum Online Soccer er hann metinn á 3,7 milljónir Evra, eða rétt um 300 íslenskar milljónir.

Leikmaðurinn sem um ræðir er 29 ára gamall, heitir Almir Cosic og er frá Bosníu - Herzegovínu. Menn hljóta að spyrja sig hvernig 3.deildarlið á Íslandi fari að því að fá leikmann að þessari getu til liðs við sig.

Vilberg M. Jónasson, þjálfari Leiknis sagði aðspurður þá hafa dottið í lukkupottinn:

,,Þetta var í raun heppni. Þannig er að Samir Mesetovic sem leikur með okkur er góður vinur Almirs og hann fékk hann til að koma hingað og spila með okkur." Vilberg hélt áfram: ,, Það sem mér þykir merkilegast er að við hefðum getað fengið hann til okkar fyrir þremur árum, en þá varð hann samningslaus og FC Zeljeznicar, sem er eitt sterkasta lið Bosníu skuldaði honum um helming launa sinna."

Það var einmitt það haust sem Newcastle United bauð um 1 milljón punda í leikmanninn í kjölfar viðureigna þessara tveggja liða í Evrópukeppni félagsliða. FC Zeljeznicar hafnaði boðinu og því gekk það ekki upp.

Amir hefur spilað 8 evrópuleiki fyrir FC Zeljeznicar og sagðist Vilberg hafa myndband í höndunum frá leik þeirra við Lilleström í Noregi fyrir þremur árum. Þar hafi hann spilað gegn Gylfa Einarssyni og félögum og verið með betri mönnum á vellinum.

Aðspurður hvort Leiknismenn reikni með að hafa hann áfram svaraði Vilberg:
,,Það verður bara að ráðast, er á meðan er, við erum allavega búnir að semja við hann í sumar og fjölskylda hans flytur til Fáskrúðsfjarðar fljótlega."

Almir hefur nú þegar spilað tvo leiki í deildabikarnum fyrir Leikni og unnust þeir báðir sannfærandi. ,,Almir er mjög jarðbundinn og góður liðsmaður, alveg laus við alla stæla. Hann getur spilað hvar sem er á miðjunni en er vanur að spila framarlega."

Það er ljóst að þessi leikmaður væri lykilmaður í hvaða liði sem væri hér á landi, og þó víðar væri farið. Hann er mjög prúður og drífandi leikmaður sem á eflaust eftir að setja sterkan svip á austurlandsriðilinn í sumar. Aðspurður segir Vilberg Leiknismenn stefna hiklaust á það að fara upp um deild í sumar. Þeir eru með mjög vel spilandi lið, með stóra og stæðilega menn í mörgum stöðum og spila árangursríkan sóknarbolta.

Það verður gaman að fylgjast með þessu Leiknisliði á næstu misserum, en eins og menn vita komust tvö lið úr austurriðlinum upp í 2.deild síðasta sumar, enda riðill talinn sá sterkasti í deildinni. Með margreyndan atvinnumann eins og Almir Cosic í sínum röðum verður að teljast líklegt að Leiknismenn verði í toppbaráttu þriðju deildar í sumar.

Athugasemdir
banner
banner
banner