Man Utd skoðar það að fá Tuchel - Postecoglou fær fjármagn í sumar - Greenwood eftirstóttur á Englandi
banner
   lau 27. apríl 2024 14:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Missum besta hafsent deildarinnar og setjum inn 19 ára strák í hans stað"
Úlfur Arnar Jökulsson - Fjölnir
Lengjudeildin
Úlfur Arnar Jökulsson, þjálfari Fjölnis.
Úlfur Arnar Jökulsson, þjálfari Fjölnis.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hans Viktor fór í KA en þá kemur bara ungur leikmaður í hans stað.
Hans Viktor fór í KA en þá kemur bara ungur leikmaður í hans stað.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fjölnismönnum er spáð sjötta sæti.
Fjölnismönnum er spáð sjötta sæti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Við viljum skemmta fólki. Það á að vera gaman að horfa á Fjölni og það á að vera gaman að vera í Fjölni'
'Við viljum skemmta fólki. Það á að vera gaman að horfa á Fjölni og það á að vera gaman að vera í Fjölni'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Tímabilið leggst mjög vel í okkur. Við erum búnir að æfa vel, erum vel undirbúnir og hlökkum til að byrja mótið," segir Úlfur Arnar Jökulsson, þjálfari Fjölnis, í samtali við Fótbolta.net. „Spáin kemur svolítið á óvart já, en það skiptir okkur engu máli hvar okkur er spáð."

Fjölni er spáð sjötta sæti Lengjudeildarinnar af fyrirliðum og þjálfurum deildarinnar.

Fjölnir komst í umspilið í fyrra en tapaði þar gegn Vestra í undanúrslitum. Hvernig horfir Úlfur á síðasta sumar?

„Með blendnum tilfinningum. Margar góðar frammistöður og margir góðir sigrar. Tókum skref fram á við milli ára í allri tölfræði. Okkur fannst við ekki nógu sterkir gegn efstu liðunum '22 og ætluðum okkur að bæta það og erum efstir í innbyrðisviðureignum topp fimm liðanna '23. Hins vegar töpum við 13 stigum gegn liðunum í áttunda til ellefta sæti og það í raun kostar okkur deildina. Við drögum mikinn lærdóm af síðasta tímabili og höfum náð að laga og addressa það sem við þurftum að gera áður en við byrjum þetta tímabil."

Lögðu undirbúningstímabilið aðeins öðruvísi upp
Úlfur segir að undirbúningstímabilið hafi verið notað í tilraunir og telur hann liðið á réttri leið.

„Við lögðum undirbúningstímabilið aðeins öðruvísi upp í vetur," segir þjálfari Fjölnismanna. „Mikil tilraunastarfsemi og vorum óhræddir við að prófa okkur áfram."

„Við horfðum lítið í úrslitin en meira í frammistöðuna og vorum að leita svara við ákveðnum hlutum og fengum skýr svör. Það hefur verið mikill vaxandi í okkar spilamennsku og við teljum okkur vera á góðri leið með að toppa á réttum tíma. Við erum með mjög marga unga leikmenn í okkar liði, leikmenn sem hafa verið að taka hárrétt skref undanfarin ár og eru orðnir tilbúnir að taka mikla ábyrgð og stór hlutverk."

„Svo erum við með marga sem eru næstir inn, ef svo má segja, og eru að banka á dyrnar. Þessir strákar hafa vaxið verulega í vetur," segir Úlli.

Þarf ekki alltaf að sækja nýja menn
Fjölnir hefur misst nokkra mikilvæga leikmenn úr sínum leikmannahópi en í stað þeirra eiga ungir og efnilegir leikmenn að stíga upp.

„Við missum mikla reynslu í þeim leikmönnum sem hættu og fóru, en við vorum strax sannfærðir að við værum með unga stráka sem gætu tekið við keflinu, auk þess sem við fáum Dag Austmann inn sem býr yfir mikilli reynslu," segir Úlfur.

„Það þarf ekki alltaf að sækja leikmann þegar leikmaður fer, við leitum alltaf fyrst inn á við hvort við séum með strák sem við getum prómótað upp í hlutverk. Við missum að mínu mati besta hafsent deildarinnar í fyrra í Hansa og setjum inn 19 ára strák í hans stað. Við gerum slíkt hið sama þegar Gummi Júl meiddist."

„Við stöndum og föllum með því að þegar við teljum ungan leikmann geta gripið tækifæri þá gefum við honum það. Staðan á hópnum er góð, við höfum glímt töluvert við meiðsli og veikindi í vetur en það eru allir að skríða saman sem hafa verið frá."

Gerum það á okkar forsendum
Úlfur býst við jafnri og sterkri Lengjudeild í sumar.

„Ég býst við mjög jafnri og sterkri deild. Á ekki von á að neitt lið stingi af og held þetta verði barátta fram í síðustu umferð," segir hann og heldur áfram:

„Markmið Fjölnis er alltaf að komast í efstu deild, en eins og ég hef oft sagt þá ætlum við okkur að gera það á okkar forsendum. Okkar markmið eru líka alltaf að það skíni í gegn á vellinum hvað við stöndum fyrir."

Eitthvað að lokum?

„Við viljum skemmta fólki. Það á að vera gaman að horfa á Fjölni og það á að vera gaman að vera í Fjölni. Ég vonast til að sjá Gulu Þrumuna, Káramenn og alla Fjölnismenn á vellinum í sumar. Saman getum við myndað stemningu, liðsheild og vonandi góðar minningar."
Athugasemdir
banner
banner