Bayern reynir aftur við Walker - Neves til Man Utd?
   fös 01. júní 2018 19:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
HM spáin: C-riðill - 1. sæti
Frakkland
Frakkar eru líklegir til að fara langt.
Frakkar eru líklegir til að fara langt.
Mynd: Getty Images
Deschamps er landsliðsþjálfari Frakka. Hér lyftir hann Heimsmeistarabikarnum árið 1998.
Deschamps er landsliðsþjálfari Frakka. Hér lyftir hann Heimsmeistarabikarnum árið 1998.
Mynd: Getty Images
Antoine Griezmann er mikilvægur fyrir franska landsliðið.
Antoine Griezmann er mikilvægur fyrir franska landsliðið.
Mynd: Getty Images
Paul Pogba.
Paul Pogba.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mbappe og Dembele eiga bjarta framtíð fyrir höndum.
Mbappe og Dembele eiga bjarta framtíð fyrir höndum.
Mynd: Getty Images
Það er farið að styttast gífurlega í Heimsmeistaramótið í Rússlandi. Spennan er farin að magnast og er spennan hjá landsmönnum miklu meiri en áður þar sem Ísland er nú í fyrsta sinn á meðal þáttökuþjóða.

Fótbolti.net er með spá í riðlakeppnina og heldur hún áfram í dag. Við fengum nokkra góða álitsgjafa í bland við starfsmenn okkar til að aðstoða okkur við spána.

Sjá einnig:
Spáin fyrir A-riðil
Spáin fyrir B-riðil

Í dag er komið að C-riðlinum í spánni og er það Frakklandi sem er spáð efsta sætinu þar. Frakkar fengu fullt hús stiga í spánni og greinilegt er að mikil trú er á liðinu.

Í C-riðli leika Ástralía, Danmörk, Frakkland og Perú, en eitt af þessum liðum gæti mætt Íslandi í 16-liða úrslitum þar sem lið úr C- og D-riðlunum munu eigast við þegar þangað er komið.

Spámenn Fótbolta.net: Cloe Lacasse, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Gunnar Logi Gylfason, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson, Mist Rúnarsdóttir, Natasha Moraa Anasi, Orri Rafn Sigurðarson, Sara Hrund Helgadóttir, Tryggvi Guðmundsson.

Liðin fengu stig frá 1-4 eftir því sem þeim var spáð í riðlinum. Mest var því hægt að fá 44 stig, minnst 11 stig.

Spá Fótbolta.net fyrir C-riðil:

1. sæti. Frakkland, 44 stig
2. sæti. Perú, 27 stig
3. sæti. Danmörk, 26 stig
4. sæti. Ástralía, 13 stig

Staða á heimslista FIFA: 7.

Um liðið: Frakkland er með rosalega breidd í sínum herbúðum, það hafa orðið kynslóðarskipti á síðustu árum og er liðið mjög spennandi. Það eru ekki bara efnilegir leikmenn í franska liðinu, það eru frábærir fótboltamenn í liðinu og eru Frakkar á meðal sigurstranglegustu liða fyrir mótið í Rússlandi.

Það voru vonbrigði fyrir Frakka að vinna ekki Evrópumótið á heimavelli fyrir tveimur árum og eru leikmennirnir hungraðir í að koma heim með sinn fyrsta Heimsmeistaratitil frá 1998.

Þjálfarinn: Didier Deschamps er áfram þjálfari Frakklands, hann hefur þjálfað liðið síðustu sex árin og er þetta hans annað Heimsmeistaramót með liðið. Hann hefur verið að byggja upp þetta franska lið og fær að sýna afraksturinn í Rússlandi.

Deschamps er fyrrum fyrirliði franska landsliðsins og þekkir það vel að vinna stórmót. Hann var leiðtoginn er Frakkland varð Heimsmeistari 1998 og Evrópumeistari 2000. Hér að neðan má sjá myndband af Deschamps lyfta Heimsmeistarabikarnum árið 1998, þá voru Frakkar á heimavelli.



Sjá einnig:
Saga Heimsmeistaramótsins - HM í Frakklandi 1998

Árangur á síðasta HM: Féllu út í 8-liða úrslitum gegn Þýskalandi sem urðu svo Heimsmeistarar.

Besti árangur á HM: Meistarar árið 1998.

Leikir á HM 2018:
16. júní, Frakkland - Ástralía (Kazan)
21. júní, Frakkland - Perú (Ekaterinburg)
26. júní, Danmörk - Frakkland (Moskva)

Af hverju Frakkland gæti unnið leiki: Þegar litið er á einstaklinga eru Frakkar líklega best settir af öllum liðum á mótinu. Breiddin er ótrúleg og nokkrar stjörnur voru skildar eftir heima. Heimsmeistaramótið snýst mikið um að hafa leikmenn sem geta breytt leikjum og Frakkar hafa meira af þeim en nokkuð annað lið.

Af hverju Frakkland gæti tapað leikjum: Didier Deschamps hefur verið gagnrýndur fyrir að fá ekki nægilega mikið út úr liðinu. Þetta mót mun skipta sköpum fyrir þessa kynslóð.

Frakkar hafa sýnt það í gegnum tíðina að andinn í kringum liðið skiptir gríðarlegu, gríðarlegu máli. Á HM 2010 í Suður-Afríku fór allt í háaloft hjá liðinu og það féll út í riðlakeppninni. Deschamps verður að halda hópnum þétt saman.

Stjarnan: Antoine Griezmann fær þennan titil í stjörnu prýddu liði. Griezmann sló í gegn á EM fyrir tveimur árum og var að margra mati besti maður mótsins. Hann hefur haldið uppteknum hætti með Atletico Madrid og Frakkar þurfa á sprengikrafti hans að halda í sóknarleiknum.

Hávær orðrómur er á kreiki um að Griezmann sé á leið til Barcelona, en hann má ekki láta sögusagnir trufla sig á meðan hann dvelur með franska liðinu í Rússlandi.

Fylgstu með: Kylian Mbappe, Ousmane Dembele, Thomas Lemar... Paul Pogba. Pogba átti ekki sérstakt tímabil með Manchester United og þurfti að sæta mikilli gagnrýni á Englandi, en nú er hann kominn til móts við franska liðið. Hann fær tækifæri í Rússlandi til þess að sýna hversu góður hann er í fótbolta, það væri gott fyrir hann að nýta það og koma sterkur inn með Manchester United á næstu leiktíð.

Benjamin Mendy, bakvörður Manchester City, fær líka tilnefningu hér. Mendy er búinn að meiddur nánast allt tímabil. Hann getur væntanlega ekki beðið eftir því að snúa aftur. Mendy er líka skemmtilegur á samfélagsmiðlum. Fylgstu með honum þar!

Líklegt byrjunarlið að mati Yahoo Sports (4-3-3): Hugo Lloris; Djibril Sidibe, Raphael Varane, Samuel Umtiti, Benjamin Mendy; N’Golo Kante, Blaise Matuidi, Paul Pogba; Kylian Mbappe, Olivier Giroud, Antoine Griezmann.

Leikmannahópurinn:
Frakkar eru búnir að velja 23 manna hóp og skildu þeir eftir ótrúlega marga góða fótboltamenn. Smelltu hér til að skoða draumalið þeirra sem komust ekki franska hópinn fyrir HM.

Markverðir: Hugo Lloris (Tottenham Hotspur), Steve Mandanda (Marseille), Alphonse Areola (Paris Saint-Germain)

Varnarmenn: Djibril Sidibe (Mónakó), Benjamin Pavard (Stuttgart), Adil Rami (Marseille), Raphael Varane (Real Madrid), Samuel Umtiti (Barcelona), Presnel Kimpembe (Paris Saint-Germain), Benjamin Mendy (Manchester City), Lucas Hernandez (Atletico Madrid)

Miðjumenn: Paul Pogba (Manchester United), Blaise Matuidi (Juventus), Corentin Tolisso (Bayern Munich), N'Golo Kante (Chelsea), Steven Nzonzi (Sevilla)

Sóknarmenn: Kylian Mbappe (Paris Saint-Germain), Olivier Giroud (Chelsea), Antoine Griezmann (Atletico Madrid), Ousmane Dembele (Barcelona), Florian Thauvin (Marseille), Thomas Lemar (Monaco), Nabil Fekir (Lyon)
Athugasemdir
banner
banner