Man Utd ætlar að reka Ten Hag - Hver tekur við? - Tuchel hefur áhuga á starfinu
   mán 23. október 2017 16:30
Magnús Már Einarsson
Jói Harðar aðstoðarþjálfari Start - Á góðri leið upp í úrvalsdeild
Jóhannes Harðarson.
Jóhannes Harðarson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fotbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Jóhannes Harðarson hefur undanfarnar vikur verið aðstoðarþjálfari hjá Start í norsku B-deildinni. Steinar Pedersen var rekinn frá Start í lok september. Mick Priest tók tímabundið við liðinu með Jóhannes sér til aðstoðar. Úr varð að þeir klára tímabilið við stjórnvölinn hjá Start sem er á góðri leið með að komast upp í norsku úrvalsdeildinni.

„Það var óljóst í byrjun hvernig þetta myndi verða en síðan var tekin ákvörðun um að við myndum klára tímabilið og að staðan yrði tekin eftir það," sagði Jóhannes við Fótbolta.net í dag.

Jóhannes stýrði ÍBV fyrri hluta sumars 2015 áður en hann flutti aftur til Noregs af persónulegum ástæðum. Eftir að hafa verið yfirþjálfari yngri flokka hjá Flöy í fyrra þá tók Jóhannes til starfa hjá Start í vor þar sem hann þjálfaði unglingalið áður en hann var ráðinn aðstoðarþjálfari á dögunum.

Start er í 2. sæti í norsku B-deildinni, fjórum stigum á undan Sandnes Ulf. Tvö efstu liðin fara beint upp og Start nægir að vinna annað hvort Elverum um næstu helgi eða Åsane um þarnæsu helgi til að tryggja sætið í úrvalsdeild og fylgja Bodö/Glimt upp um deild.

„Við erum búnir að vinna þessa leiki síðan við höfum tekið við og þetta lítur þokkalegu úti. Þetta hefði getað klárast í lokin en Sandnes Ulf grísaði inn marki í lokin og er ennþá inni í þessu," sagði Jóhannes.

Óvíst hvaða starf verður í boði hjá Start
Jóhannes veit ekki hvort hann verði áfram aðstoðarþjálfari Start á næsta tímabili eða ekki.

„Það er alveg óráðið. Eftir að þjálfarinn var látinn fara um daginn þá var farið á fullt í að leita að þjálfara. Ég reikna fastlega með því að það komi nýr aðalþjálfari eftir tímabilið. Síðan er spurning hvernig restin af teyminu verður. Hvort við verðum áfram eða ekki. Það fer eftir þjálfaranum sem kemur inn. Það er ekkert búið að ákveða ennþá," sagði Jóhannes.

Líklega ekki á leið til Íslands
Jóhannes hefur verið orðaður við aðstoðarþjálfarstöðu hjá Víkingi R. eins og kom fram í slúðurpakkanum hér á Fótbolta.net í dag. Hann reiknar þó ekki með að vera á leið til Íslands.

„Maður heyrir alltaf í einhverjum og svoleiðis en eins og staðan er núna þá er það frekar ólíklegt. Við sjáum hvernig tímabilið endar hér og hvernig málin þróast. Ég held alltaf starfinu hjá Start, sama hvort það verði í akademíunni eða í kringum aðalliðið. Það er líklegast að það verði ofan á," sagði Jóhannes að lokum.
Athugasemdir
banner
banner