Bayern reynir aftur við Walker - Neves til Man Utd?
   mán 28. maí 2018 18:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
HM spáin: A-riðill - 1. sæti
Úrúgvæ
Suarez og Cavani hafa saman skorað 92 landsliðsmörk.
Suarez og Cavani hafa saman skorað 92 landsliðsmörk.
Mynd: Getty Images
Oscar Tabarez.
Oscar Tabarez.
Mynd: Getty Images
Luis Suarez kann að skora fótboltamörk en hann hefur líka verið duglegur að koma sér í vesen.
Luis Suarez kann að skora fótboltamörk en hann hefur líka verið duglegur að koma sér í vesen.
Mynd: Getty Images
Guillermo Varela er fyrrum leikmaður Manchester United.
Guillermo Varela er fyrrum leikmaður Manchester United.
Mynd: Getty Images
Hversu langt fer Úrúgvæ?
Hversu langt fer Úrúgvæ?
Mynd: Getty Images
Nú eru aðeins rétt rúmar tvær vikur, nánar tiltekið tvær vikur og þrír dagar, þangað til flautað verður til leiks á HM í Rússlandi. Mótið hefst 14. júní og lýkur mánuði síðar, 15. júlí.

Spennan er farin að magnast og er spennan hjá landsmönnum miklu meiri en áður þar sem Ísland er nú í fyrsta sinn á meðal þáttökuþjóða.

Fótbolti.net spáir í riðlakeppnina og byrjar hún að rúlla í dag. Við fengum nokkra góða álitsgjafa í bland við starfsmenn okkar til að aðstoða okkur við spánna.

Við byrjum auðvitað á A-riðlinum og við ljúkum honum með því að fjalla um liðið sem spáð er efsta sæti þar; Úrúgvæ.

Í A-riðli spila heimamenn í Rússlandi ásamt Egyptalandi, Sádí-Arabíu og Úrúgvæ.

Spámenn Fótbolta.net: Cloe Lacasse, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Gunnar Logi Gylfason, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson, Mist Rúnarsdóttir, Natasha Moraa Anasi, Orri Rafn Sigurðarson, Sara Hrund Helgadóttir, Tryggvi Guðmundsson.

Liðin fengu stig frá 1-4 eftir því sem þeim var spáð í riðlinum. Mest var því hægt að fá 44 stig, minnst 11 stig.

Spá Fótbolta.net fyrir A-riðil:
1. sæti. Úrúgvæ, 40 stig
2. sæti. Egyptaland, 29 stig
3. sæti. Rússland, 26 stig
4. sæti. Sádí-Arabía, 15 stig

Staða á heimslista FIFA: 17

Um liðið: Það er hægt að líkja Úrúgvæ við Ísland. Úrúgvæ er lítil þjóð, ekki eins lítil og Ísland en samt. Í Úrúgvæ ríkir mikil fótboltamenning og þaðan hafa komið margir frábærir knattspyrnumenn. Úrúgvæ vann fyrsta Heimsmeistaramótið 1930 og er núna að fara að taka þátt á sínu 13. móti.

Þjálfarinn: Hinn 71 árs gamli Oscar Tabarez er enn við stjórnvölinn hjá Úrúgvæ. Hann hefur þjálfað liðið frá 2006 og náð geggjuðum árangri. Hann kom liðinu í undanúrslit á HM 2010 í Suður-Afríku, en 2014 í Brasilíu féll liðið úr leik í 16-liða úrslitum gegn Kólumbíumönnum.

Stefnan er sett á betri árangur í Rússlandi, væntanlega á síðasta móti Tabarez með liðið.

Árangur á síðasta HM: Tap í 16-liða úrslitum gegn Kólumbíu.

Besti árangur á HM: Heimsmeistarar 1930 og 1950.

Leikir á HM 2018:
15. júní, Egyptaland - Úrúgvæ (Ekaterinburg)
20. júní, Úrúgvæ - Sádí-Arabía (Rostov-On-Don)
25. júní, Úrúgvæ - Rússland (Samara)

Af hverju Úrúgvæ gæti unnið leiki: Í liðinu eru reynslumiklir leikmenn í bland við unga og spennandi leikmenn sem eru að koma upp. Godin, Cavani og Suarez, þetta eru magnaðir fótboltamenn og upp eru að koma efnilegir og spennandi leikmenn.

Hryggsúlan í liðinu eru góð, Godín og Gimenez mynda sterkt miðvarðarpar, á miðjusvæðinu má finna leikmenn eins og Matias Vecino, Rodrigo Betancur og Lucas Torreira og fremstir eru Edinson Cavani og Luis Suarez. Þetta getur varla klikkað. Liðið ætti að komast auðveldlega upp úr riðlinum og jafnvel langt í keppninni.

Af hverju Úrúgvæ gæti tapað leikjum: Miðjan er spennandi, en ung og fer inn í HM með fáa leiki á bakinu. Pressan getur reynst of mikil fyrir ungu strákanna, við verðum að bíða og sjá.

Úrúgvæ er sterkasta liðið í riðlinum á pappírnum, en má ekki vanmeta einn né neinn. Það er aldrei vænlegt til árangurs.

Luis Suarez er stjarnan í liðinu, hann má ekki gerast sekur um eitthvað heimskulegt eins og raunin hefur verið á síðustu mótum. Á HM 2014 átti hann stóran þátt í að liðið komst upp úr riðlakeppninni, en Úrgvæ var án hans í 16-liða úrslitunum þar hann hafði bitið Giorgio Chiellini, varnarmann Ítalíu, í síðasta leik riðlakeppninnar. Hann verður að haldast heill og halda einbeitingu.

Stjarnan: Luis Suarez. Suarez kemur inn á HM eftir að hafa átt gott tímabil með Barcelona þar sem hann skoraði 25 mörk í 33 deildarleikjum. Hann og Cavani eru eitt sterkasta sóknarparið á HM, ef ekki það allra sterkasta.

Suarez hefur gripið fyrirsagnirnar á síðustu tveimur Heimsmeistaramótum. Fyrst með því að verja boltann á marklínunni gegn Gana í 8-liða úrslitum í Suður-Afríku árið 2010. Síðar á HM 2014 beit hann Giorgio Chiellini í leik gegn Ítalíu. Mun Suarez koma sér í eitthvað vesen á HM 2018 í Rússlandi? Vonandi ekki fyrir Úrúgvæ.

Svo ber einnig að nefna miðvörðinn Diego Godin hér. Gríðarlegur leiðtogi þar á ferðinni.

Fylgstu með: Það hafa nokkrir efnilegir leikmenn komið upp hjá Úrúgvæ á síðustu misserum, Rodrigo Betancur, Lucas Torreira, Federico Valverde, Nahitan Nandez og Jose Maria Gimenez svo einhver nöfn séu nefnd. En þessa útnefningu fær Guillermo Varela. Það er leikmaður sem var á mála hjá Manchester United á árum áður, en er í dag búinn að finna taktinn með Penarol í heimalandinu. Verður væntanlega fyrsti kostur í hægri bakvarðarstöðuna á HM.

Líklegt byrjunarlið að mati Yahoo Sports (4-2-1-3): Fernando Muslera; Guillermo Varela, Diego Godin, Jose Maria Gimenez, Gaston Silva; Nahitan Nandez, Matias Vecino, Rodrigo Bentancur; Giorgian de Arrascaeta; Luis Suarez, Edinson Cavani

Leikmannahópurinn:
Úrúgvæ hefur tilkynnt 26 manna hóp fyrir HM. Hann verður skorinn niður og verða 23 leikmenn eftir snemma í júní.

Markverðir: Fernando Muslera (Galatasaray), Martin Silva (Vasco da Gama), Martin Campana (Independiente)

Varnarmenn: Diego Godin (Atletico Madrid), Sebastian Coates (Sporting CP), Jose Maria Gimenez (Atletico Madrid), Maximiliano Pereira (FC Porto), Gaston Silva (Independiente), Martin Caceres (Lazio), Guillermo Varela (Penarol)

Miðjumenn: Nahitan Nandez (Boca Juniors), Lucas Torreira (Sampdoria), Matias Vecino (Inter Milan), Federico Valverde (Real Madrid), Rodrigo Bentancur (Juventus), Carlos Sanchez (Monterrey), Giorgian De Arrascaeta (Cruzeiro), Diego Laxalt (Genoa), Cristian Rodriguez (Penarol), Jonathan Urretaviscaya (Monterrey), Nicolas Lodeiro (Seattle Sounders), Gaston Ramirez (Sampdoria)

Sóknarmenn:: Cristhian Stuani (Girona), Maximiliano Gomez (Celta Vigo), Edinson Cavani (PSG), Luis Suarez (Barcelona)
Athugasemdir
banner
banner
banner