Bayern reynir aftur við Walker - Neves til Man Utd?
banner
   mið 22. júlí 2015 22:58
Arnar Geir Halldórsson
Ole Gunnar Solskjær horfir á son sinn keppa á Íslandi
Solskjær og Einar Kristinn Kárason, þjálfari ÍBV
Solskjær og Einar Kristinn Kárason, þjálfari ÍBV
Mynd: Úr einkasafni
Manchester United goðsögnin, Ole Gunnar Solskjær, heldur til á Íslandi þessa dagana.

Hann fylgdi syni sínum, Noah Solskjær, til Reykjavíkur vegna knattspyrnumótsins Rey Cup sem haldið er í Laugardalnum ár hvert og hefst á morgun.

Ole Gunnar mætti ásamt syni sínum á setningarathöfn mótsins sem fram fór í kvöld.

Noah, sem er elsti sonur Solskjær, leikur með liði CFK á mótinu en fjölskyldan býr í Kristiansund í Noregi.

Ole Gunnar Solskjær er í miklum metum hjá stuðningsmönnum Man Utd eftir farsælan 11 ára feril sinn hjá félaginu en Norðmaðurinn var þekktur fyrir að koma inn af bekknum með miklum trukki og hefur stundum verið nefndur besti varamaður sögunnar.

Eftir leikmannaferilinn hefur Solskjær fengist við þjálfun. Þjálfaraferilinn hófst hjá yngri liðum Man Utd áður en hann hélt til Molde þar sem hann gerði góða hluti. Það gekk hinsvegar öllu verr hjá Cardiff þar sem Solskjær entist aðeins tæpt ár í starfi.

Solskjær ætti því að hafa nægan tíma til að sinna fararstjórahlutverkinu næstu dagana en eins og áður segir hefst Rey Cup á morgun og lýkur næstkomandi sunnudag.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner