Sancho vill ekki snúa aftur til Man Utd - Dumfries vill fara til Man Utd - Chelsea vill Osimhen
   fös 02. desember 2016 14:14
Magnús Már Einarsson
Viðtal
Mikael í Midtjylland: Opinn fyrir að spila fyrir hönd Íslands
Mikael (í miðjunni) í leiknum gegn Silkeborg í gær.
Mikael (í miðjunni) í leiknum gegn Silkeborg í gær.
Mynd: Getty Images
Mikael gengur af velli eftir tapið í gær.
Mikael gengur af velli eftir tapið í gær.
Mynd: Getty Images
Mynd: YouTube - Midtjylland
Mikael Neville Anderson, 18 ára Íslendingur, spilaði í gær sinn fyrsta leik í dönsku úrvalsdeildinni þegar hann kom inn á sem varamaður fyrir FC Midtjylland í 2-1 tapi gegn Silkeborg.

Hinn efnilegi Mikael ólst upp í Sandgerði en hann flutti til Danmerkur þegar hann var 11 ára gamall. Móðir Mikaels er íslensk en faðir hans er frá Jamaíka. Mikael spilaði á kantinum hjá Midtjylland í gær en Fótbolti.net heyrði í honum í dag. Mikael segist vonast eftir að fá fleiri tækifæri með aðalliði Midtjylland á næstunni.

„Ég er mjög spenntur að vera í hópnum hjá aðalliðinu. Ég er ungur en vona að ég fái að spila einhverjar mínútur því mér finnst ég hafa eiginleika sem liðið vantar. Ég er mjög ánægður með að vera í hópnum en núna vil ég bara spila meira og meira," sagði Mikael við Fótbolta.net.

Spilaði með íslenska U17 en danska U19
Árið 2014 spilaði Mikael þrjá leiki með U17 ára landsliði Íslands á UEFA æfingamóti. Hann spilaði hins vegar ekkert með U17 ára liðinu í undankeppni EM sama ár, né með U19 ára liði Íslands á þessu ári.

Fyrr á þessu ári spilaði Mikael hins vegar vináttuleik með U19 ára liði Dana gegn Svartfellingum. Í kjölfarið var Mikael frá keppni í hálft ár og leikirnir með danska U19 ára liðinu urðu því ekki fleiri í ár.

„Ég spilaði með U17 ára landsliði Íslands og það var alveg frábært. Strákarnir voru frábærir en mér fannst eins og ég fengi ekki leyfi til að spila minn leik eins og ég geri best. Svona er þetta stundum," sagði Mikael.

„Danir voru mjög áhugasamir að fá mig til liðs við landliðið þeirra svo ég ákvað að slá til. Það var bara allt annað, þar fékk ég að vera ég sjálfur og spila minn leik."

Kemur til greina að spila fyrir A-landslið Íslands
Þar sem Mikael hefur ekki spilað með A-landsliði getur hann ennþá valið sér landslið í framtíðinni. Hann segir vel koma til greina að spila fyrir íslenska landsliðið ef tækifæri býðst í framtíðinni.

„Auðvitað kemur það til greina. Ég er ennþá Íslendingur og á fjölskyldu sem ég heimsæki á Íslandi. Möguleikinn er til staðar en við sjáum bara til hvað gerist í framtíðinni," sagði Mikael.

U19 ára lið Midtjylland er mjög öflugt en liðið sigraði meðal annars Atletico Madrid í Meistaradeild unglingaliða fyrr á árinu þar sem Mikael skoraði eitt af mörkunum. Mikael segist hafa háleit markmið fyrir framtíðina í fótboltanum.

„Ég vil ná eins langt og hægt er. Ég er ungur en mjög metnaðarfullur. Ég hef alltaf verið þannig. Núna þarf ég bara að sýna öllum hvað ég get og svo sjáum við til. Auðvitað vil ég fara erlendis og spila í Evrópu. Úrvalsdeildin er spennandi og ég er mikill United maður. Það er draumurinn að spila þar en maður veit aldrei hvað gerist í fótbolta," sagði Mikael að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner