Branthwaite, Zirkzee og Olise til Man Utd? - Potter til Hollands - Nunez til Barca og Osimhen til Chelsea
   fim 09. september 2021 20:37
Helga Katrín Jónsdóttir
Vilhjálmur: Bayern draumaandstæðingurinn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik sigraði Osijek í dag 3-0 og tryggði sér með sigrinum sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Ekki voru leyfð viðtöl á vellinum en fréttaritari heyrði í Vilhjálmi, þjálfara Blika, sem hafði þetta að segja.

„Þetta er æðisleg tilfinning. Við byrjuðum leikinn vel og skoruðum mark fljótt sem hjálpaði ansi mikið í svona leik. En það var auðvitað spenna í þessu og mikið undir en það hjálpaði okkur að byrja leikinn vel.“

„Þetta var bara mjög skemmtilegt og fallegt kvöld líka, gott veður. Mér fannst vera góð stemning og gaman fyrir íslenska iðkendur að sjá sínar fyrirmyndir standa sig vel.“

„Við njótum góðs af fyrri árangri Breiðabliks, við vorum búin að safna stigum í gegnum góðan árangur síðustu ár sem þýddi að við drógumst á móti slakari liðum sem gerði það að verkum að okkar möguleikar voru sterkari fyrir vikið.“

Þjálfarateymið skoðaði króatíska liðið vel fyrir leik og fann veikleika sem Blikarnir nýttu sér í dag.

„Við horfðum á leikinn hjá þeim við Anderlecht og sáum að það var ágætis pláss á hægri kantinum og fundum pláss þar en það sem gerðist líka núna var að þær komu hátt upp á völlinn og Hildur komst ein inn fyrir og skorar strax sem hjálpaði mikið og róaði leikinn. Mér fannst þær miklu daufari en í fyrri leiknum, þeirra bestu leikmenn náðu sér ekki á strik í dag.“

Undir lok fyrri hálfleiks lá aðeins á Blikastelpum svo hálfleikurinn kom á ágætis tíma. Hvað sagði Vilhjálmur við þær í hálfleik?

„Þær voru pínu ósáttar við sig í hálfleik en ég hrósaði þeim bara mikið svo þær færu ekki að velta sér upp úr síðustu mínútunum. Við reyndum bara að taka það jákvæða, sem var hellingur. Við ákváðum að byrja seinni hálfleikinn eins sem skilaði þriðja markinu fljótt og gerði það út um leikinn.“

Aðspurður út í hvort að hann verði áfram með liðið í riðlakeppninni þá vildi Vilhjálmur ekki svara þeirri spurningu að svo stöddu.

„Ég ætla ekki að ræða þetta ég vil tala við mína leikmenn fyrst. Það er ekki rétti tímapunkturinn að ræða þetta núna. Það kemur eitthvað frá mér um þetta mjög fljótt.“

Varamannabekkur Blika var ansi þunnskipaður í dag. Mun Breiðablik reyna að sækja nýja leikmenn fyrir riðlakeppnina?

„Við munum leita allra leiða í því, það er dálítið flókið. Það er einn leikmaður með Covid-19 og svo er einn leikmaður sem má ekki spila sökum aldurs, en það er Margrét Brynja. Hún má spila í deildinni heima en ekki í Meistaradeildinni. Þess vegna var þetta orðið mjög þunnskipað. Við þurfum að skoða okkar möguleika, það er hægt að fá undanþágu með leikmenn sem eru samningslausir svo við þurfum að skoða það mjög vel. Það er erfitt að fara í svona leiki svona fáliðaðar ef eitthvað kemur upp á.“

Fær Breiðablik að spila leikina í riðlakeppninni á Kópavogsvelli?

„Við munum sækja um undanþágu, við erum bjartsýn á það. Það eru strangari kröfur hjá strákunum en hjá okkur. Við viljum auðvitað spila á okkar velli. Ég skil ekki afhverju við megum ekki spila hérna, sérstaklega ef hitt liðið samþykkir það líka. Miklu betra að spila hér á upphituðum vell þegar það er frost . Hin liðin og UEFA hljóta að vera skynsöm og vilja það líka.“

Að lokum var Vilhjálmur spurður út í draumaandstæðing sinn í riðlakeppninni og kom svarið ekki á óvart en hann vill mæta dóttur sinni sem leikur með Bayern Munchen.

„Fyrir mig Bayern Munchen, fá Karolínu á Kópavogsvöll. Þessi fjögur efstu lið eru gríðarlega sterk og þá vildi maður helst fá Bayern. Annars er bara flott að fá þá andstæðinga sem við eigum mestan séns á móti. En þetta eru allt góð lið sem eru eftir.“



Athugasemdir
banner
banner
banner
banner