Salah, Rashford, Guehi, Ten Hag, Dewsbury-Hall og fleiri í pakka dagsins
   þri 07. apríl 2020 08:00
Matthías Freyr Matthíasson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Fordæmalausir tímar - nóg að frétta?
Matthías Freyr Matthíasson
Matthías Freyr Matthíasson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Verðlaunagripir í Fótbolta.net mótinu sem er haldið árlega.
Verðlaunagripir í Fótbolta.net mótinu sem er haldið árlega.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net stendur árlega fyrir lokahófi í 1. og 2. deildum karla og kvenna. Myndin er frá hófinu 2018.
Fótbolti.net stendur árlega fyrir lokahófi í 1. og 2. deildum karla og kvenna. Myndin er frá hófinu 2018.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Áður en ég held áfram, þá vil ég senda þakkir til heilbrigðisstarfsfólks og „hins heilaga þríeykis“ fyrir frábæra framgöngu síðustu daga og vikur.

En það er óhætt að segja það að ég öfunda ekki íþróttafréttamenn þessi dægrin. Ekki frekar en ég öfunda ekki framlínufólk í heilbrigðisþjónustunni eða aðra sem eru að glíma við erfiðar aðstæður í þjóðfélaginu sem Covid-19 er að valda.

En þar sem ég er að skrifa pistil sem birtist á íþróttavefmiðli ætla ég að beina sjónum mínum að íþróttafréttamennsku sérstaklega. Fótbolti.net er einstakt fyrirbæri í íslenskum fjölmiðlaheimi sem fagnar í næsta mánuði 18 ára afmæli. Það eitt og sér er ákveðið afrek, sagan sýnir að reka fjölmiðil á Íslandi er fallvölt gæfa. Þeir koma og fara og skipta um eigendur eins og ég veit ekki hvað.

Fótbolti.net hefur á að skipa einstaklega hæfileikaríkum fréttamönnum og ljósmyndurum sem leggja líf og sál sína í að tryggja það að fótboltaþyrstir lesendur fái gæðaefni á hverjum einasta degi til aflestrar. Yfir sumartímann eru svo fjöldinn allur af fólki um land allt sem leggur miðlinum til efni, hvort sem það er með að vera með beinar textalýsingar eða viðtöl frá leikjum sem eiga sér stað í íslenska boltanum.

Allt þetta hefur gert það að verkum að fótbolti.net er mest lesni íþróttafréttavefur landsins. Svo má ekki gleyma öllum þeim hliðarafurðum sem kemur frá starfsmönnum fjölmiðlisins, útvarpsþættir og podköst með áhugaverðum viðtölum og umfjöllunarefnum um allar hliðar fótboltans.

Þrátt fyrir allt það sem hér að ofan er talið og jafnvel meira til, þá er það svo að í því fjölmiðlafrumvarpi sem Menntamálaráðherra hefur lagt fram, mun Fótbolti.net ekki njóta góðs af því en fjölmiðlar sem eru stærri og jafnvel á ríkisspenanum munu fá ríkisaðstoð við að halda úti sínum miðlum. Þetta þýðir það að það mun skapast 20% fjárhagslegt ójafnvægi á milli fótbolta.net og annarra miðla. Ég veit ekki með ykkur, en það finnst mér gríðarlegt óréttlæti.

Fótbolti.net hefur brugðist við aðstæðum dagsins í dag og síðustu vikna með því að leggja ekki árar í bát. Þar sem enginn fótbolti er spilaður (nema í Hvíta-Rússlandi) þessi dægrin hefur þetta væntanlega verið gríðarleg áskorun fyrir starfsmenn miðilsins. En þeir hafa á undanförnum dögum og vikum haldið sínu striki og birta fréttir á hverjum einasta degi eins og ekkert hafi í skorist. Áherslurnar eru aðrar, fjöldi viðtala og annarra hliða fótboltans hafa birst og svo ég tali nú bara fyrir mig, þá hafa heimsóknir mínar á miðilinn ekki minnkað heldur í raun þvert á móti.

Fyrir þetta ber að þakka! En fjölmiðill lifir ekki á þökkum einum saman. Nú er lag fyrir hvern þann sem er þakklát/ur fyrir þá þjónustu sem fótbolti.net veitir lesendum sínum, sama hvernig viðrar í heiminum, að sýna það þakklæti í verki.

Forsvarsmenn fótbolta.net fóru þá leið þegar áðurnefnt fjölmiðlafrumvarp var lagt fram að setja á laggirnar Stuðningssveit Fótbolta.net. Þetta er kerfi sem er vel þekkt um heim allan þar sem lesendur geta látið fé af hendi rakna í formi styrktargreiðslna mánaðarlega í stað þess að fjölmiðillinn sé áskriftarfjölmiðill. Auglýsingatekjur eru ekki nægjanlegar einar og sér þegar viðbúið er að með lögum sé verið að tryggja rekstrargrundvöll samkeppnisaðilanna.

Það hefur sýnt sig að á fordæmalausum fótboltalausum tímum, að hugmyndaríkir starfsmenn fótbolta.net láta það ekki á sig fá. Þeir standa vaktina með því að bregðast við ástandinu með frábærum fréttum og greinum og viðtölum sem gerir það að verkum að þeir fjölmörgu fótboltaþyrstu lesendur fá sinn daglega skammt af fótboltafréttum. Fyrir það ber að þakka og hægt er að gera betur en það og hvet ég alla til þess að ganga til liðs við stuðningsmannasveitina og sýna þakklætið í verki.

Smelltu hér til að ganga í stuðningssveit Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner