Man Utd skoðar það að fá Tuchel - Postecoglou fær fjármagn í sumar - Greenwood eftirstóttur á Englandi
banner
   mið 25. október 2023 17:45
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Gent
Höskuldur ánægður að fá aukið andrými - „Þá eigum við sannarlega séns á að gera eitthvað"
Það er upplifun mín að það sé létt yfir hópnum á góðan hátt, en að sama skapi mikill fókus
Það er upplifun mín að það sé létt yfir hópnum á góðan hátt, en að sama skapi mikill fókus
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Leikið á heimavelli Gent á morgun. Mikið gler þema á leikvanginum.
Leikið á heimavelli Gent á morgun. Mikið gler þema á leikvanginum.
Mynd: EPA
20 þúsund manns í sæti.
20 þúsund manns í sæti.
Mynd: EPA
Þetta er bara standardinn á stóra sviðinu.
Þetta er bara standardinn á stóra sviðinu.
Mynd: EPA
„Ég geri þær væntingar að þetta verði góður og skemmtilegur leikur. Ég vænti þess af okkur að við mætum og sýnum okkar allra bestu hliðar. Þá eigum við sannarlega séns á að gera eitthvað," sagði Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, við Fótbolta.net á fréttamannafundi í dag.

Framundan er leikur gegn Gent í Belgíu á morgun og verður leikurinn í beinni textalýsingu hér á Fótbolti.net.

Alvöru keppnisleikur gegn Rangers
„Ég er ánægður með undirbúninginn. Við gerðum góða og mikilvæga ferð til Skotlands. Það eru einhverjar þrjár vikur frá því að deildin kláraðist og við þurfum að halda okkur 'competitively sharp' ef ég leyfi mér aðeins að sletta. Því var þessi leikur gegn varaliði Rangers mjög dýrmætur fyrir okkur, bæði upp á að fá alvöru leik, en líka upp á stilla okkur aðeins af og brýna á nokkrum punktum fyrir þetta einvígi."

Var þetta erfiður leikur gegn Rangers?

„Ég upplifði þetta sem keppnisleik; það var góð ákefð í þessu og margir fantaspilarar þeirra megin. Maður fann það líka innanborðs hjá okkur að það var gaman að spila þarna. Það eru flottar aðstæður hjá þeim, liðið sögufrægt og við mættum til leiks eins og þetta væri alvöru keppnisleikur. Þetta var dýrmætur leikur fyrir okkur upp á framhaldið."

Hafa gott af auknu andrými
Hvernig hefur verið að halda einbeitingu á komandi leikjum í Sambandsdeildinni eftir að deildin kláraðist?

„Það hefur verið mjög auðvelt í raun og veru, til þess betra ef svo má segja. Núna fáum við smá meira andrými til þess að einblína bara á þessa keppni og ég held að við höfum alveg haft gott af því. Það er upplifun mín að það sé létt yfir hópnum á góðan hátt, en að sama skapi mikill fókus."

Frammistaðan flott en vantar að stigin fylgi
Heldur þú að það verði litið öðruvísi á tímabilið 2023 eftir því hvort að Breiðablik nái í stig eða jafnvel sigur í riðlinum?

„Alveg pottþétt. Það er bara ávinningur (upside) í þessu. Árangurinn hingað til, að komast í riðlakeppnina, er frábær, en við viljum ekki stoppa hér. Við ætlum okkur sannarlega að gera eitthvað í þessum riðli og við höfum sýnt það í þessum fyrstu tveimur leikjum að við eigum fullt erindi í þessum riðli. Það vantar bara að stigin fylgi. Það er góður staður og stundin góð á morgun til að reyna láta það verða að veruleika á morgun."

Horfirðu svekktur til baka á fyrstu tvo leikina?

„Já, klárlega úrslitalega séð og þá kannski sérstaklega í síðasta leik heima. Við áttum skilið að minnsta kosti jafntefli og vorum klaufar að gera ekki betur úr þeim stöðum sem við fengum sóknarlega og sömuleiðis var markmaðurinn þeirra í stuði."

„Við vorum komnir í smá holu í Tel Aviv, sýndum mikinn karakter, komum til baka og höfðum hálftíma til að skora þriðja markið. Maður er svekktur að hafa ekki fengið nein stig hingað til, en frammistaðan hefur verið flott."


Umgjörðin endurspeglar hversu stórt félagið er
Ghelamco Arena er heimavöllur Gent og er hann mjög glæsilegur. Hann tekur 20 þúsund manns í sæti. Hvernig líst þér á að mæta Gent á morgun á þessum glæsilega leikvangi?

„Þetta er ótrúlega flott, risastórt lið og umgjörðin endurspeglar það. Maður er kominn með smá reynslu af þessu stóru sviði. Þetta er bara standardinn á því sviði," sagði Höskuldur.
Athugasemdir
banner
banner
banner