Bayern reynir aftur við Walker - Neves til Man Utd?
   fim 16. apríl 2009 06:00
Magnús Már Einarsson
3.deild: Hvað er að frétta af Vopnafirði?
Mynd: Jón
Úr leik hjá Einherja í utandeildinni árið 2007.
Úr leik hjá Einherja í utandeildinni árið 2007.
Mynd: Jón
Mynd: Fótbolti.net - Andri Fannar
Mynd: adidas
Þá er komið að liðnum "Hvað er að frétta?" hér á Fótbolti.net en þar kíkjum við á stemninguna hjá liðum í fyrstu, annarri og þriðju deild

Einherji frá Vopnafirði verður með í þriðju deildinni í ár eftir fimm ára hlé. Davíð Örvar Ólafsson þjálfari liðsins svaraði nokkrum spurningum.

Hvernig er stemningin hjá Einherja þessa dagana? Stemmningin er fín hjá Einherja þessa dagana, eftir 5 ára fjarveru úr íslenska boltanum eru allir Vopnfirðingar, og sennilega meirihluti landans, að farast úr spenningi að sjá Einherja á iðagrænum grasvöllum Austurlands í sumar. Ekki skemmir fyrir að Símon stækkaði um 1cm þegar hann vaknaði á föstudaginn langa og náði í páskaeggið uppí efstu hillu heima hjá sér.

Hvað kemur til að Einherji tekur nú þátt í 3.deildinni að nýju eftir nokkurra ára hlé? Það voru nú strákarnir sjálfir á Vopnafirði sem höfðu frumkvæðið af því, þeir hafa verið að dútla í utandeildinni síðustu ár hérna fyrir austan og fannst vera kominn tími til að láta slag standa og vera með lið í 3.deildinni og gera það af fullri alvöru. Flest allir í liðinu fá því eldskírn sína í sumar og eru menn staðráðnir í að standa sig vel og gera þetta almennilega. Við gerum okkur alveg grein fyrir því að við erum hálfgerðir "nýliðar" í 3.deildinni enda 5 ár síðan Einherji var með lið og verður þetta því mikil áskorun fyrir strákana og ætlum við að reyna að stríða hinum liðunum í deildinni í sumar.

Hvernig er liðið skipað? Það verða 11 inná í byrjun, sennilega einn í marki og hinir í vörn ! Öllu gamni sleppt þá eru það heimamenn sem skipa liðið að mestu leyti, strákar á aldrinum 17-22 og svo eru nokkrir gamlir jaxlar sem ætla að draga skóna uppúr frystiklefanum hjá HB Granda og reima þá fast á sig. Við erum til að mynda með feðga í liðinu, Gísli er það ungur að pabbi hans kemur alltaf með á æfingar og passar uppá að hinir sparki ekki í hann. Báðar löggurnar á staðnum eru líka í liðinu þannig að það má búast við að við verðum harðir í horn að taka innan og utan vallar. Hópurinn er mjög samhentur og gríðarlega áhugasamir drengir og menn !

Er mikill knattspyrnuáhugi á Vopnafirði? Það er töluverður áhugi á knattspyrnu á Vopnafirði, Einherji var á 9.áratugnum virkilega frambærilegt fótboltalið og gerði fína hluti á þeim árum, og flestar allar gömlu kempurnar búa enn á Vopnafirði og eru duglegir að segja frægðarsögur af sjálfum sér við hvert tækifæri og núna er þvi kærkomið tækifærið fyrir strákana að sýna þessum gömlu hvað þeir geta og haldið merki Einherja á lofti í sumar. Ég hef fulla trú á að bæjarbúar muni fjölmenna á völlinn í sumar enda heyrir maður á fólki að það er spennt að fá tækifæri til að sjá fótboltaleiki á Vopnafirði í sumar, verð illa svekktur ef við verðum ekki með fleiri áhorfendur að meðaltali en Fram í sumar ! Einnig ber þess að geta að það enski boltinn er gríðarlega vinsæll á Vopnafirði, strákarnir hittast í Olla sjoppu og horfa á leikina saman, stappa niður fótum og berja í borð þegar illa gengur og allur pakkinn. Liverpool er langvinsælasta liðið á Vopnafirði og er það víst að þakka eiganda Olla sjoppu, hann nánast uppá sitt einsdæmi leggur krökkunum á Vopnafirði línurnar á unga aldri og einnig hef ég heyrt að Alli skólastjóri sé með í ráðunum. United mennirnir eru síðan nokkrir en það er nú bara eins og það er, það eru svartir sauðir í hverri rétt!

Hvernig hefur undirbúningstímabilinu verið háttað? Við hófum skipulagðar æfingar í síðustu viku þannig að undirbúningstímabilið er stutt hjá okkur en skemmtilegt. Strákarnir hafa nú flestir verið að hreyfa sig sjálfir í vetur og eru því í fínu formi. Ég tók nú bara við liðinu um miðjan mars og fór þá eina helgi austur og síðan aftur núna fyrir páska og hafa æfingarnar gengið fínt hingað til. Núna byrjar því eiginlegt undirbúningstímabil hjá okkur og stendur nánast fram að fyrsta leik í deild. Hópurinn er þrískiptur, Vopnafjörður - Laugar og Akureyri og síðan er ég sjálfur í Reykjavík þannig að strákarnir þurfa að sjá að mestu um sig sjálfir á hverjum stað en við erum með A4 blað þarsem æfingarnar eru niðurnegldar eins og önnur lið á landinu.

Ertu sáttur við spilamennsku liðsins í æfingaleikjum til þessa? Við erum búnir að spila 3 æfingaleiki, tvo við varalið Hattar og vinna þá báða og síðan einn leik við Huginn sem við töpuðum 5-3. Ég var bara nokkuð sáttur við þessa leiki, við höfum sýnt stíganda og framfarir í þessum 3 leikjum og erum svona að slípa þetta til. Okkar helsta vandamál er að flestir þessir strákar hafa ekkert verið að spila alvöru leiki á stórum velli í mörg ár, þeir hafa aðallega verið að spila innanhúss og á litlum völlum. Það er því mikil breyting að koma á stóran völl og spila "alvöru" fótbolta en menn eru að átta sig á breyttum aðstæðum og er ætlunin að reyna að spila nokkra æfingaleiki í viðbót fyrir mót til að slípa þetta enn betur saman. Við erum með malavöll á Vopnafirði sem við vonumst til að geta notað núna á næstunni ef veður leyfir en annars verðum við að notast við battavöllinn okkar þangað til að sumarið kemur.

Hvert er markmið ykkar fyrir sumarið? Markmiðin okkar í sumar eru einföld, við ætlum að hafa gaman af því að spila fótbolta, leggja okkur 110% í öll verkefni sumarsins og leggja áframhaldandi grunn að því að Einherji verði með í íslenskri knattspyrnu næstu árin. Við ætlum ekki að tjalda til einnar nætur í sumar, ætlum að byggja þetta lið á strákunum sem eru á Vopnafirði og í kring (erum með tvo flóttamenn frá Þórshöfn!!). Auðvitað þurfum við að líta í kringum okkur eftir liðsstyrk enda liðið mjög óreynt og ungt að árum og því ætlum við kannski að reyna að fá 1-2 reynslumeiri menn til að styrkja liðið sem geta tekið ábyrgð inná vellinum, leitt liðið og leiðbeint hinum yngri. Við erum í hörkuriðli en eins og ég sagði áðan er ætlunin að stríða stóru liðunum og ganga hnakkreistir frá borði í lok sumars.

Hvaða lið telur þú að sé sigurstranglegast í 3. deildinni í sumar? Er Grótta í 3.deild ? Þeir vinna ef þeir eru í 3.deild annars ekki ! Ég sá Völsung spila um daginn og þeir voru helvíti frískir og eru örugglega sigurstranglegir í okkar riðli, skil ekkert í liðunum á höfuðborgarsvæðinu að ná ekki í nokkra leikmenn þaðan í sín lið. KV verða örugglega með fínt lið ef KR-ingar fara ekki að kroppa í þá fyrir mót, Valdi Sig á örugglega eftir að skora glás af mörkum fyrir Skallagrím í sumar, þeir gætu verið góðir, annars held ég að riðilinn fyrir austan sé sterkastur, Leiknir Fáskrúðsfirði, Seyðfirðingar, Dalvík og auðvitað Völsungur eru allt hörkulið sem munu keppast um sæti í 2.deild í sumar. Annars er mér nokkuð sama um hin liðin, eina liðið sem skiptir mig máli í sumar er Einherji og vona ég að okkur gangi sem allra best.

Eitthvað að lokum? Ég vona bara að sumarið verði okkur Einherja mönnum gæfuríkt og skemmtilegt, að Vopnfirðingar fjölmenni á völlinn og láti vel í sér heyra á "frímerkinu" okkar í sumar. Við verðum allaveg glaðir, graðir og appelsínugulir!!
Athugasemdir
banner
banner