Sancho vill ekki snúa aftur til Man Utd - Dumfries vill fara til Man Utd - Chelsea vill Osimhen
banner
   fös 26. apríl 2024 19:55
Ívan Guðjón Baldursson
Galatasaray og Al-Hilal skrefi nær deildarmeistaratitli
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Stjörnum prýtt lið Galatasaray heimsótti Adana Demirspor í mikilvægum slag í tyrkneska boltanum í dag og var staðan markalaus í leikhlé.

Hakim Ziyech skoraði fyrsta mark leiksins á 53. mínútu, eftir undirbúning frá Dries Mertens, og tvöfaldaði Kerem Demirbay forystuna skömmu síðar.

Mertens kom boltanum svo í netið sjálfur en ekki dæmt mark vegna afrar naumrar rangstöðu sem sást eftir athugun í VAR-herberginu. Galatasaray hélt tveggja marka forystu allt þar til í uppbótartíma, þegar Mauro Icardi innsiglaði sigurinn eftir stoðsendingu frá Mertens.

Lokatölur urðu því 0-3 þar sem Mertens lagði upp mörk fyrir Ziyech og Icardi. Galatasaray er með sjö stiga forystu á toppi tyrknesku deildarinnar þegar fjórar umferðir eru eftir af leiktíðinni.

Stórveldi Fenerbahce er í öðru sæti og með einn leik til góða, gegn sterku liði Besiktas.

Galatasaray er því komið skrefi nær deildarmeistaratitlinum, alveg eins og Al-Hilal í Sádi-Arabíu.

Al-Hilal lenti óvænt undir á heimavelli í dag þegar sterkt lið Al-Fateh kíkti í heimsókn, en staðan var markalaus í leikhlé.

Lucas Zelaryan tók forystuna fyrir Al-Fateh snemma í síðari hálfleik, eftir stoðsendingu frá Cristian Tello, en heimamenn voru eldfljótir að jafna í gegnum brasilíska kantmanninn Michael.

Rúben Neves kom stórveldi Al-Hilal yfir með marki úr vítaspyrnu á 74. mínútu og var afar mikil spenna á lokakaflanum, þar sem rúmlega 15 mínútur bættust við leikinn í uppbótartíma.

Al-Fateh tókst þó ekki að jafna, heldur var það Ali Al-Bulayhi sem innsiglaði sigur Al-Hilal seint í uppbótartímanum.

Al-Hilal er með tólf stiga forystu á toppi sádi-arabísku deildarinnar, þegar sex umferðir eru eftir af tímabilinu. Al-Fateh er í sjöunda sæti.

Slakt gengi fyrrum meistara Al-Ittihad virðist engan endi ætla að taka en liðið tapaði á heimavelli í dag gegn Al-Shabab og á í verulegri hættu á að missa af meistaradeildarsæti fyrir næstu leiktíð.

Jota, Ahmed Hegazy og Romarinho voru í byrjunarliði Al-Ittihad en þeir réðu ekki við sterka andstæðinga sína. Karim Benzema, Fabinho, N'Golo Kante og Luiz Felipe voru ekki með í dag og þá kom markavélin Abderrazak Hamdallah inn af bekknum.

Hamdallah skoraði eina mark Ittihad í tapinu í kvöld og er liðið í fimmta sæti, tveimur stigum frá sæti í Meistaradeild Asíu.

Habib Diallo, sem gerði flotta hluti með Strasbourg í efstu deild franska boltans á síðustu árum, skoraði annað markanna í sigri Al-Shabab.

Yannick Carrasco og Romain Saiss voru einnig í byrjunarliði Shabab, sem siglir lygnan sjó um miðja deild.

Adana Demirspor 0 - 3 Galatasaray
0-1 Hakim Ziyech ('53)
0-2 Kerem Demirbay ('64)
0-3 Mauro Icardi ('91)

Al-Hilal 3 - 1 Al-Fateh
0-1 Lucas Zelaryan ('57)
1-1 Michael ('58)
2-1 Ruben Neves ('74, víti)
3-1 Ali Al-Bulayhi ('105)

Al-Ittihad 1 - 3 Al-Shabab
0-1 Habib Diallo ('48)
1-1 Abderrazak Hamdallah ('58)
1-2 Carlos Junior ('82)
1-3 Musab Al-Juwayr ('100)
Athugasemdir
banner
banner
banner