Arsenal hlustar á tilboð í Jesus - Tottenham reynir við Gallagher - Liverpool orðað við varnarmann Frankfurt
   þri 10. júlí 2018 14:00
Arnar Daði Arnarsson
Berglind Björg: Sárt að sjá Fanndísi fara í annað lið
Berglind Björg í leik með Blikum í sumar.
Berglind Björg í leik með Blikum í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það er mikil tilhlökkun í hópnum að spila þennan leik," segir framherji Breiðabliks, Berglind Björg Þorvaldsdóttir sem mætir Val í 9. umferð Pepsi-deildar kvenna á heimavelli í kvöld klukkan 19:15.

Leikur Breiðabliks og Vals er einn af tveimur stórleikjum Pepsi-deildarinnar í dag en klukkan 18:00 mætast Þór/KA og Stjarnan fyrir norðan.

„Við þurfum að spila okkar leik, nýta alla okkar styrkleika og fylgja því sem við lögðum upp með. Það er alltaf gaman að spila svona stóra leiki þannig það má ekki gleyma að njóta og hafa gaman," sagði Berglind sem segir að það séu einhver smá meiðsli í hópnum fyrir leikinn í kvöld.

„Við erum með flottan hóp þannig það kemur bara maður í manns stað."

Fyrrum leikmaður Breiðabliks, Fanndís Friðriksdóttir gekk á dögunum til liðs við Vals frá Marseille í Frakklandi. Fanndís verður þó ekki lögleg með Val í leiknum í kvöld.

„Ég viðurkenni að það var sárt að sjá hana fara í annað lið en Breiðablik en þetta er hennar ákvörðun og maður virðir það. Við látum það ekki trufla okkur í kvöld og við munum bara fókusera á okkur og okkar leik."

Leikurinn fer fram á svipuðum tíma og undanúrslitaleikur Frakklands og Belgíu á HM. Berglind viðurkennir að það sé pirrandi að missa af þeim leik og vera að spila á sama tíma.

„Sérstaklega þar sem ég held með Belgíu. En maður horfir bara á leikinn eftir okkar leik," sagði Berglind að lokum.

Leikurinn verður í beinni textalýsingu á Fótbolta.net í kvöld.

Leikir dagsins í Pepsi-deild kvenna:
Þór/KA - Stjarnan (Klukkan 18:00)
ÍBV - Selfoss (Klukkan 18:00)
FH - Grindavík (Klukkan 19:15)
Breiðablik - Valur (Klukkan 19:15)
Athugasemdir
banner
banner