Man Utd hefur áhuga á Yoro - Osimhen í forgangi hjá Chelsea - Napoli, Juve og Atletico hafa áhuga á Greenwood
   þri 30. apríl 2024 12:30
Innkastið
FH lét ÍA bragða á eigin meðulum - Töfðu með því að sparka upp í þakið
Lofthæðin er ekki há í Akraneshöllinni.
Lofthæðin er ekki há í Akraneshöllinni.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Sindri Kristinn Ólafsson.
Sindri Kristinn Ólafsson.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Í Stúkunni á Stöð 2 Sport var sýnt frá því hvernig FH notaði aðstæður í Akraneshöllinni til að éta af klukkunni þegar liðið vann 2-1 sigur á ÍA á sunnudaginn.

Akraneshöllin hefur verið mikið til umræðu og harðlega gagnrýnt að gefið hafi verið leyfi til að spila leiki í Bestu deildinni þar. Meðal annars hefur verið rætt um það forskot sem ÍA hefur en liðið æfir þarna stóran hluta ársins.

FH-ingar voru greinilega vel undirbúnir fyrir þessar öðruvísi aðstæður og lét ÍA bragða á eigin meðulum. Lág lofthæð hússins hefur verið talsvert til umfjöllunar og fer boltinn nokkrum sinnum í þakið í hverjum leik.

Þá er reglan sú að dómarinn lætur boltann falla til liðsins sem sparkaði upp í þakið og samkvæmt heiðursmannareglu skilar það boltanum svo til baka. Sindri Kristinn Ólafsson markvörður FH sparkaði boltanum viljandi í þakið til að tefja í leiknum á sunnudag.

Lestu um leikinn: ÍA 1 -  2 FH

„FH-ingarnir leika sér að því að sparka boltanum upp í þakið til að narta tíma af klukkunni," skrifaði Sölvi Haraldsson, fréttamaður Fótbolta.net, í textalýsingu frá leiknum en hann er á því að ekki eigi að vera leyfilegt að spila í höllinni.

„Fólki fannst það skrítið að ÍA hafi fengið leyfi frá KSÍ að spila heimaleikinn sinn gegn Fylki inni í Akraneshöllinni en núna skilur fólk ekkert í því hvernig þeir fá að spila tvo leiki í röð hérna inni. Skagamenn gerðu þó vel með umgjörð og þess háttar í kringum leikinn gegn Fylki en svona völlur og aðstaða á ekki að sjást í Bestu deildinni að mínu mati."

Fjallað var um Akraneshöllina í útvarpsþættinum Fótbolti.net nýlega. „Ég ætla ekki að fara svo langt að segja að þetta sé önnur íþrótt þarna inni, en þetta fer langleiðina," sagði Elvar Geir Magnússon í þættinum.
Innkastið - Víkingar fá hjálp sem þeir þurfa ekki
Athugasemdir
banner