Kompany vill taka við Bayern - Isak og Brobbey efstir á blaði Arsenal - McKenna orðaður við Chelsea og Man Utd
   þri 30. apríl 2024 18:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Staðan ekki góð á Króknum - „Þarf bara að rjúka í verkið"
Bryndís Rut Haraldsdóttir, fyrirliði Tindastóls.
Bryndís Rut Haraldsdóttir, fyrirliði Tindastóls.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrir leikinn gegn Breiðabliki.
Fyrir leikinn gegn Breiðabliki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tindastóll gat ekki spilað gegn Breiðabliki á heimavelli um síðustu helgi. Sá leikur átti upphaflega að vera á Sauðárkróki en var færður á Kópavogsvöll út af vallaraðstæðum fyrir norðan.

„Völlurinn er slysahætta eins og hann er í dag," sagði Adam Smári Hermannsson, formaður knattspyrnudeildar Tindastóls, við Feyki á dögunum en völlurinn fór undir vatn og er gúmmípúðinn undir honum ónýtur.

Bryndís Rut Haraldsdóttir, fyrirliði Tindastóls, var spurð út í stöðuna eftir síðasta leik en hún vinnur hjá sveitarfélaginu og kemur meðal annars eitthvað að vallarmálum á Króknum.

„Staðan gæti verið betri, ég ætla að vera hreinskilin með það," sagði Bryndís Rut eftir leikinn gegn Breiðabliki síðasta laugardag.

„Gúmmípúðinn er ónýtur. Við flettum upp dúknum af því það kom vatnsflóð á laugardeginum fyrir FH-leikinn. Það var sjáanlegt að límingin í púðanum er eignlega farin... ég vona að það verði brugðist hratt og vel við; að það verði farið í að laga þetta. Það er eiginlega ekki í boði fyrir okkur að fara að spila á gamla aðalvellinum."

„Ég treysti á mitt fólk fyrir norðan að grípa í aðstæður og bjarga þessu. Það þarf bara að rjúka í verkið. Það þarf að gera þetta hratt og gera þetta vel. Ég verð örugglega eitthvað þarna á svæðinu til að passa upp á þetta."

Tindastóll á næst skráðan heimaleik gegn Fylki 9. maí, en miðað við frétt Feykis í dag er afar ólíklegt að sá leikur fari fram á Gervigrasvellinum. Þar segir að flytja þurfi inn efni til viðgerða erlendis frá og því megi reikna með einhverjum biðtíma eftir viðgerðum.

Hægt er að horfa á viðtalið við Bryndísi í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.
Bryndís Rut: Partur af fjölskyldunni þó hún sé núna í öðru liði
Athugasemdir
banner
banner
banner