Antony vill ekki yfirgefa Man Utd - Bakvörður Sevilla á blaði Man Utd - Newcastle ætlar að halda Trippier
   mið 01. maí 2024 21:37
Brynjar Ingi Erluson
Lengjudeildin: Fimm marka veisla í opnunarleiknum
Lengjudeildin
Máni Austmann skorar fyrsta mark Lengjudeildarinnar
Máni Austmann skorar fyrsta mark Lengjudeildarinnar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Grindavík 2 - 3 Fjölnir
0-1 Máni Austmann Hilmarsson ('7 , víti)
0-2 Guðmundur Karl Guðmundsson ('45 )
1-2 Kristófer Konráðsson ('66 )
1-3 Dagur Ingi Axelsson ('75 )
2-3 Símon Logi Thasaphong ('92 )
Lestu um leikinn

Fjölnir hafði betur gegn Grindavík, 3-2, í opnunarleik Lengjudeildar karla á Víkingsvellinum í kvöld.

Máni Austmann Hilmarsson skoraði fyrsta mark deildarinnar en það gerði hann úr vítaspyrnu eftir klaufagang vörn Grindavíkur á 7. mínútu leiksins.

Í blálokin á uppbótartíma fyrri hálfleiks tvöfaldaði Guðmundur Karl Guðmundsson forystu Fjölnis. Reynir Haraldsson kom með aukaspyrnu í átt að teignum, boltinn skallaður niður á Guðmund sem skoraði.

Dýrmætt mark rétt áður en flautað var til loka fyrri hálfleiks. Snemma í þeim síðari var Máni Austmann nálægt því að gera út um leikinn en skot hans hafnaði í þverslá.

Grindavík náði að vinna sig inn í leikinn. Kristófer Konráðsson minnkaði muninn á 66. mínútu eftir að hafa fengið glæsilega sendingu frá Einari Karli Ingvarssyni.

Kristófer gerði sig sekan um slæm mistök nokkrum mínútum síðar er hann leyfði Degi Inga Axelssyni að vinna boltann í návígi. Dagur fékk beina og greiða leiða í átt að marki áður en hann setti boltann framhjá Aroni Degi Birnusyni í markinu.

Hrannar Ingi Magnússon taldi sig hafa skorað annað mark Grindavíkur á 85. mínútu. Hann lyfti boltanum fyrir Halldór í marki Fjölnis, en gestirnir náðu að bjarga á línu. Hrannar var sannfærður um að boltinn hafi verið inni, en dómarinn ekki á sama máli.

Grindvíkingar fengu þetta annað mark sem þeir leituðu að. Símon Logi Thasaphong gerði það með stórglæsilegum skalla eftir fyrirgjöf Josip Krznaric.

Markið kom allt of seint og eru það Fjölnismenn sem byrja á þremur stigum í Lengjudeildinni í ár.
Athugasemdir
banner
banner
banner