Salah, Rashford, Guehi, Ten Hag, Dewsbury-Hall og fleiri í pakka dagsins
banner
   fös 25. mars 2016 22:30
Elvar Geir Magnússon
Heimild: BBC 
Pistill - Hver er maðurinn á bak við titilvonir Tottenham?
Grein sem Paul Fletcher hjá BBC skrifaði
Argentínumaðurinn sem stýrir Tottenham.
Argentínumaðurinn sem stýrir Tottenham.
Mynd: Getty Images
Í leik með argentínska landsliðinu.
Í leik með argentínska landsliðinu.
Mynd: Getty Images
Lærifaðirinn Bielsa.
Lærifaðirinn Bielsa.
Mynd: Getty Images
Pochettino í búningi Espanyol.
Pochettino í búningi Espanyol.
Mynd: Getty Images
Sem stjóri Espanyol.
Sem stjóri Espanyol.
Mynd: Getty Images
Pochettino leggur miklar kröfur á leikmenn.
Pochettino leggur miklar kröfur á leikmenn.
Mynd: Getty Images
Pochettino var umdeild ráðning þegar hann tók við Southampton.
Pochettino var umdeild ráðning þegar hann tók við Southampton.
Mynd: Getty Images
Eyðir miklum tíma á æfingasvæðinu.
Eyðir miklum tíma á æfingasvæðinu.
Mynd: Getty Images
Jack Cork lék undir stjórn Pochettino.
Jack Cork lék undir stjórn Pochettino.
Mynd: Getty Images
Pochettino og Kelvin Davies.
Pochettino og Kelvin Davies.
Mynd: Getty Images
Talar ekki í fyrirsögnum.
Talar ekki í fyrirsögnum.
Mynd: Getty Images
Pochettino veifar til stuðningsmanna.
Pochettino veifar til stuðningsmanna.
Mynd: Getty Images
Snemma í febrúar bárust fréttir af því að Sir Alex Ferguson teldi Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóra Tottenham, vera besta stjóra ensku úrvalsdeildarinnar. Þessi fyrrum stjóri Manchester United sat við hlið stjórnmálamannsins David Lammy á kvöldverðarboði þar sem hann opnaði sig með þetta.

Þetta eru stór orð en nú þegar komið er að lokaspretti tímabilsins er Tottenham svo sannarlega á fullu gasi í baráttunni um enska meistaratitilinn. Félagið hefur ekki unnið deildina síðan 1961 en er nú í öðru sæti deildarinnar, fimm stigum á eftir Leicester.

Ef liðið nær að hampa titlinum er alveg ljóst að hinn 44 ára argentínski stjóri liðsins mun fá stóran bita af heiðrinum fyrir þann magnaða og óvænta árangur. En hver er maðurinn sem gæti verið að endurheimta sigurdagana aftur til félagsins?

Lærði af þeim klikkaða
Marcelo Bielsa er ekki þekktur sem El Loco - Sá klikkaði - að ástæðulausu. Hann blaðrar heillengi á fréttamannafundum en veitir aldrei viðtöl. Hann segir að ef leikmenn væru vélar þá myndi hann aldrei tapa.

Hann mætti einu sinni heim til 14 ára gamals Pochettino í smábænum Murphy klukkan 2 eftir miðnætti. Hann var í félagi með Jorge Griffa, sem var á þeim tíma einnig þjálfari hjá Newell's Old Boys og er þekktur fyrir að hafa þjálfað upp leikmenn á borð við Gabriel Batistuta og Carlos Tevez. Sagan er þannig að þeir hafi skrifað undir samning við táninginn um leið og þeir höfðu skoðað fætur hans.

Klikkaður eða ekki, Bielsa er líklega lykilmaður í fótboltalífi Pochettino.

„Hann er mér sem faðir," sagði stjóri Spurs þegar samlandi hans var orðaður við stjórastarfið hjá Swansea fyrr á tímabilinu. „Ég hef þekkt hann síðan ég var 14 ára hjá Newell's Old Boys."

Pochettino er fæddur í Murphy, Santaf Fe, og er sonur verkamannas á bændabæ. Hann var hjá Newell's, staðsett tveimur klukkustundum frá í Rosario í norðurhluta Argentínu, þar til hann fór til spænska félagsins Espanyol 1994.

18 ára gamall miðvörður vann hann argentínska meistaratitilinn með Newell's liði Bielsa 1991 og fór í úrslitaleik Copa Libertadores tímabilið á eftir þar sem liðið tapaði gegn Sao Paulo í vítaspyrnukeppni. Frábær árangur hjá félagi sem hafði ekki mikinn pening milli handanna miðað við keppinauta sína.

„Þegar við unnum meistaratitilinn og komumst í úrslit Copa Libertadores vorum við með lið sem svipar að mörgu leyti til Tottenham í dag þegar horft er á aldursjafnvægið og jafnvægið milli yngri leikmanna og þeirra reyndari. Það voru mjög góðir ungir leikmenn, eins og ég, og mjög góðir reyndir leikmann. Svipað jafnvægi og svipað verkefni," sagði Pochettino nýlega.

Bielsa lagði áhersu á ákafan og hraðan leikstíl með hápressu, reyna að kæfa andstæðinginn. Hann þurfti og hafði fjárfest í ungum leikmönnum til að þetta gæti virkað.

.„Þetta lið Newell's var samansett af mörgum ungum leikmönnum," segir argentínski íþróttafréttamaðurinn Martin Mazur. „Þetta er ekki eins og í dag þegar það þarf að fá upp unga leikmenn til að fylla skarð kynslóðarinnar sem er í kringum 25 ára aldurinn og er nánast öll að spila í Evrópu. Á þessum tíma voru ekki eins margir Argentínumenn sem fóru til Evrópu og það var ekki algengt eða auðvelt að veðja á nýja kynslóð."

„Bielsa kom upp eftir að hafa unnið í unglingastarfinu en hafði ekki neina sögu sem leikmaður eða knattspyrnustjóri. Hann vann með leikmönnum eins og Tata Martino og Juan Manuel Llop og var í miklum metum hjá ungum leikmönnum eins og Pochettino og Fernando Gamboa sem hann gerði að hermönnum í sínu kerfi: Sóknarleik, hápressu, skipulögðum hlaupum, nýjum þjálfaraaðferðum þar sem var mikið álag, líkamlegum yfirburðum, dínamísku 4-3-3 leikkerfi sem gat orðið 3-4-3 eftir aðstæðum."

.„Í raun voru þeir meira en hermenn, þeir voru allir hershöfðingjar með sína ábyrgð en fengu að vera virkir í ákvarðanatökum. Pochettino var vinstri miðvörðurinn eða stopparinn. Hann ólst upp í þeim leikstíl og þeirri metnaðarfullri áætlun að vinna gegn líkum og hefðum."

Það er erfitt að vanmeta þau áhrif sem Bielsa hafði á feril Pochettino og annarra varnarmanna eins og Gamboa, Eduardo Berizzo og Julio Saldana. Bielsa bað þá sjálfa um að leikgreina andstæðingana og bað þá um að kynna niðurstöður sínar fyrir framan leikmannahópinn. Þetta var fyrir tíma internetsins og þeir áttu að lesa þrjár blaðagreinar um síðasta leik andstæðingsins og íþróttablaðið El Grafico.

Bielsa átti síðar eftir að stýra Argentínu á HM 2002 þar sem Pochettino braut á enska sóknarmanninum Michael Owen og dæmd var vítaspyrna sem David Beckham skoraði úr - eina mark leiksins. Argentína ferðaðist til Japan og Suður-Kóreu sem eitt sigurstranglegasta liðið en komst ekki upp úr riðlinum.

„Owen hafði boltann. Ég setti fótinn á mér fram og hann tók dýfu. Á þessari stundu var Michael argentínskari en ég," segir Pochettino um atvikið.

Pochettino lagði landsliðsskóna á hilluna sama ár. Á þeim tímapunkti hafði hann ekki bara spilað undir Bielsa hjá Newell's og landsliðinu heldur einnig um stuttan tíma 1998 hjá Espanyol.

„Ár Pochettino á Spáni og Frakklandi, ásamt því að spila fyrir argentínska landsliðið, gerði hann auðvitað að þroskaðri leikmanni en hugarfarið breyttist ekki," segir Mazur. „Sumir leikmenn uppgötva það að þeir vilja verða knattspyrnustjórar skömmu áður en þeir leggja skóna á hilluna. Pochettino var knattspyrnustjóri nánast frá fyrsta degi sem hann fór í skóna."

Umbreytingin yfir í stjóra - Espanyol árin
Pochettino flutti til Evrópu 1994 þegar hann gekk í raðir Espanyol í Barcelona. Hann var vinsæll hjá katalónska félaginu og spilaði næstum 300 leiki á tímabili sem spannaði næstu tólf ár. Hápunktur leikmannaferilsins með Espanyol var sigur í Konungsbikarnum 2000. Þrátt fyrir að hann yfirgaf félagið til að ganga í raðir Paris St-Germain, og síðar Bordeaux, fékk hann frábærar móttökur þegar hann snéri aftur til félagsins og vann spænska bikarinn 2006.

Skref Pochettino inn í þjálfun kom ekki beint eftir ferilinn en þrjú ár liðu milli þess sem hann hætti að spila og þar til hann var ráðinn stjóri Espanyol. Á þessum tíma var hann að ná sér í nauðsynleg réttindi og starfaði um leið sem aðstoðarþjálfari kvennaliðs félagsins.

Þegar kallið kom þá kom það óvænt og af nauðsyn. German Bona, íþróttafréttamaður dagblaðsins Sport segir: „Hann tók við í janúar 2009 þegar liðið var í fallhættu. Hann var þriðji þjálfarinn á tímabilinu og þetta var risastór áskorun á mjög mikilvægu tímabili því félagið var að flytja á nýjan leikvang um sumarið og vildi ekki byrja þar í B-deildinni."

Pochettino notaði aðferðir sem hann þekkti frá því að hann lék undir stjórn Bielsa og það hafði samstundi áhrif. Hann leiddi lið sitt til frægs 2-1 sigur gegn erkifjendunum í Barcelona á Nývangi og kom þar af stað mun betra skriði sem gerði að verkum að liðið sigldi að lokum lygnan sjó um miðja deild.

Hann hélt liðinu á þeim stað næstu þrjú ár en svo tóku fjárhagsvandræði og deilur innan stjórnar félagsins sinn toll og eftir slæma byrjun á tímabilinu 2012-13 var Pochettino rekinn.

„Ef það er eitthvað sem upp úr stendur frá hans tíma sem þjálfari Espanyol þá var það hvernig hann stýrði öllu hjá félaginu. Hann breytti mörgum smáatriðum hjá Espanyol sem aðrir þjálfarar hefðu ekki skipt sér af. Til dæmis hvað og hvenær leikmenn borðuðu og hann var leiðtogi í öllu sem hann gerði. Maður sá það að fólk hlustaði á hann og trúði á hann," segir Bona.

Pochettino vann gríðarlega mikið og lagði hart að sér og vænti þess að allir í kringum hans gerðu slíkt hið sama.

„Hann var marga klukkutíma á dag á æfingasvæðinu. Hann kom snemma á morgnana og fór seint á kvöldin, eitthvað sem er ekki mjög algengt á Spáni. Hann vildi að liðið myndi virka eins og klukka þar sem allt varðandi liðið gekk snurðulaust fyrir sig. Ekki bara leikmenn heldur allt í umhverfinu; læknaliðið, aðstoðarmenn, stjórnarmenn og svo framvegis," segir Bona.

Það sem einkenndi tíma Pochettino hjá Espanyol er eitthvað sem nú sést á White Hart Lane, vilji hans til að fá unga leikmenn í sínar áætlanir. Hann blóðgaði yfir 20 leikmenn úr yngri liðunum á þremur árum sínum við stjórnvölinn.

Þurfti að takast á við dauða fyrirliðans
Pochettino var við stjórnvölinn hjá Espanyol þegar fyrirliðinn Daniel Jarque, 26 ára, dó 2009 eftir að hafa fengið hjartastopp eftir æfingu á undirbúningstímabilinu. Kærasta Jarque var ólétt þegar hún lést. Dóttir þeirra fæddist nokkrum vikum síðar, 23. september. Fyrir tilviljun var það sama dag og Espanyol vann sinn fyrsta leik á nýjum leikvangi. Eftir sigurinn tileinkaði Pochettino sigurinn til barnsins og móður þess.

„Ég man mjög vel eftir þessum erfiðu dögum vegna þess að ég var á Ítalíu að fjalla um Espanyol þegar þetta átti sér stað," segir íþróttafréttamaðurinn Bona.

„Við komum til baka í flugvélinni með liðinu frá Flórens daginn sem þetta gerðist og það var algjör sársaukafull þögn í vélinni. Nokkrum dögum fyrir harmleikinn hafði Pochettino ákveðið að láta Jarque fá fyrirliðabanadið. Það var ekki augljós ákvörðun því fyrirliðinn fram að því hafði verið Raul Tamudo, markahæsti katalónski leikmaðurinn í sögu La Liga. En Pochettino vildi að fyrirliðinn væri hans leiðtogi og endurkast af sjálfum sér á vellinum."

„Þetta atvik hafði jafn mikil áhrif á Pochettino og aðra í liðinu. Það tók nokkra mánuði að finna taktinn aftur og kostaði þá nokkra sigra."

Hans leið eða engin leið - Árin hjá Southampton
Margir stuðningsmenn Southampton voru allt annað en sáttir þegar félagið þeirra ákvað að láta Nigel Adkins fara í janúar 2013 eftir að hann hafði komið liðinu upp um tvær deildir og upp í úrvalsdeildina. Jamie Redknapp, fyrrum leikmaður Dýrlinganna, sagði að stjórnarformaðurinn væri veruleikafirrtur.

Reiðin minnkaði ekki þegar einhver var ráðinn sem kunni ekki ensku og hafði aldrei unnið áður í landinu.

Þeir kvörtuðu aftur þegar Pochettino fór en að þessu sinni vegna þess að félaginu mistókst að halda honum. Hann tók við Dýrlingunum í fallsæti úrvalsdeildarinnar og yfirgaf þá í maí 2014 eftir að liðið hafði hafnað í áttunda sæti.

„Ég á mér ekkert líf utan fótboltans," sagði Pochettino í viðtali á upphafsmánuðum sínum á St Mary's. „Ég eyði um tólf tímum á dag á æfingavellinum. Líf mitt snýst í grunninn um að fara frá hótelinu á æfingasvæðið. Ég er tileinkaður félaginu á fullu. Það er engin stimpilklukka í fótboltanum, við vinnum allan daginn. Ég lít ekki á þetta sem vinnu - þetta félag er ástríða."

Jack Cork var hjá Southampton allan tímann sem Pochettino var þar og var seldur til Swansea í janúar 2015.

„Hlutirnir komust fljótlega í jafnvægi eftir að Mauricio kom," sagði Cork við BBC. „Það var alltaf hans leið eða engin leið. En við vorum ungt lið og hann gaf okkur sjálfstraust. Hans skilaboð voru alltaf þau að við ættum að njóta fótboltans."

„Ég held að hann hafi ekki veitt viðtal á ensku allan tímann sem hann var þar en hann náði alltaf að koma skilaboðum sínum til leikmanna. Hann var rólegur og yfirvegaður nánast allan tímann. Ég man eftir leik gegn Wigan þar sem við lentum undir en komumst yfir þegar fimm mínútur voru eftir. Við fengum á okkur mark á lokamínútunni og ég bjóst við því að hann yrði trylltur. Í staðinn staðinn tók hann nokkrar mínútur sjálfur í sturtunni og kom svo út og tók í hendurnar á okkur öllum."

„Hann var uppfullur af hugmyndum. Hann fór með okkur í æfingaferð til Spánar og hafði skipulagt æfingu sem innihélt ötvar til að styrkja liðsheildina. Hver leikmaður þurfti að láta endann á ör á mjúkan hluta hálsins á meðan liðsfélagi hélt í hinn endann. Svo þurftir þú að ýta gegn örinni þar til hún bognaði eða brotnaði. Örvarnar voru úr plasti eða álíka svo það var ekki hægt að meiða sig. Þetta var líka til að byggja upp traust til liðsfélaga. Við þurftum einnig að labba yfir heit kol og leikmenn tóku þessu opnum örmum."

„Það var alltaf mikið um hlaup og æfingum hjá Mauricio. Á köflum var þetta mjög erfitt. Þú þurftir tvö hjörtu til að spila eins og Pochettino vildi. Kelvin Davis markvörður tók einu sinni klukkuna úr klefanum til að minna sig á hversu lengi æfingin hafði verið. En aðferðirnar virkuðu. Við byrjuðum tímabilið 2013-14 með aðeins einum tapleik í fyrstu ellefu deildarleikjunum."

„Það var mikið til umræðu í lok tímabilsins að hann væri á förum. Ég man að ég fór upp að honum og spurði hann hreint út hvort hann væri að fara. Hann hló og dró úr því. Vegna tímapunktsins sem hann fór, eftir tímabilið, þá var engin stór kveðjustund því allir voru farnir í frí. Ég hef hitt hann nokkrum sinnum síðan og hann gefur sér alltaf tíma til að spyrja mig hvernig mér gangi og hvernig fjölskylda mín hafi það," segir Cork.

Endurheimtir sigursældina hjá Tottenham?
Tottenham samdi við Pochettino til fimm ára í maí 2014. Á fyrsta tímabili sínu hjá Spurs kom hann félaginu í úrslitaleik deildabikarins. Á þessu tímabili eru þeir í baráttu um sigur í ensku úrvalsdeildinni. Pochettino hefur ekki sagt að hann vilji sérstaklega vinna með ungum leikmönnum en leiksýrslurnar hjá Spurs segja sína sögu. Könnun sýnir að Tottenham var með yngsta hópinn í ensku úrvalsdeildinni á síðasta ári.

Harry Kane, Dele Alli, Eric Dier, Ryan Mason - Þessir og fleiri hafa blómstrað undir Pochettino. Rétt eins og Bielsa gerði hjá Newell's fyrir öllum þessum árum hefur Argentínumaðurinn lagt traust sitt á unga leikmenn.

Í pistli í Daily Telegraph í nóvember sagði Gary Neville: „Í starfi mínu við þjálfun hjá enska landsliðinu hef ég tekið eftir breytingunum á hugarfari og framkomu leikmanna Tottenham þegar þeir koma til móts við hópinn. Þeir koma núna tilbúnir fyrir bardaginn, tilbúnir til að spila, tilbúnir til að vinna. Það er eins og þeir vilji taka virkan þátt í fundum. Allt sem þú vilt sjá hjá ábyrgðarfullum leikmönnum er til staðar."

„Það lítur út fyrir að Pochettino hafi gefið yngri leikmönnum sjálfstraust til að njóta sín, utan vallar líka."

Argentínumaðurinn heldur áfram að leggja áherslu á heildina. Ein af hans hugmyndum er að nota stór svæði, til dæmis spila fimm gegn fimm á stærri velli en venja er svo leikmenn þurfi að hlaupa lengra til að loka á andstæðinga. Það er einnig mikil áhersla á myndbandsgreiningu og hann kallar leikmenn á skrifstofuna sína til að sýna þeim myndbrot af því góða og því slæma.

Ólíkt læriföður sínum, Bielsa, er Pochettino ekki eins íhaldssamur og ósveigjanlegur varðandi leikkerfi sitt. Hann gefur sínum leikmönnum meira frelsi og meiri andargift - innan skýrrar hugmyndafræði. En hann elskar sóknarbolta og það sést á Spurs.

Danny Rose kallaði hann vin í byrjun síðasta tímabils. Adam Lallana, sem lék fyrir hann hjá Southampton, leitað hann uppi í lok leiks Liverpool á White Hart Lane í október og hefur hann augljóslega í miklum metum.

En vertu á verði - Ef þú óhlýðnast honum gætirðu verið settur í frystinn. Ákveðnir leikmenn segja að hann hafi ekki talað við sig í vikur. Eftir að Andros Townsend gekk í raðir Newcastle fyrir 12 milljónir punda í janúar sagðist hann hafa viljað betri aðskilnað. Honum hafði verið ýtt til hliðar eftir að hafa rifist við einn af styrktarþjálfurum liðsins.

Mörgum þykir Pochettino þurr á almannafæri - stundum hreinlega leiðinlegur. Hann tilheyrir sífellt vaxandi hópi knattspyrnustjóra sem aldrei virðast segja neitt áhugavert. En það fer vel í yfirmenn hans á White Hart Lane. Engin óþarfa vandamál, engar óþarfa fyrirsagnir.

Hann kvartar ekki yfir dómurum, talar ekki um leikmannakaup, gagnrýnir ekki aðra stjóra. Að þessu leyti er hann andstæða forvera síns, Harry Redknapp. Mörgum þykir hann kannski leiðinlegur í viðtölum en þeir sem þekkja hann segja hann félagslega sterkan, hann er týpan sem þú vilt spjalla við á barnum. Kannski myndi hann spjalla við þig um hversu mikið hann leggur á sig með leikmönnum, vegna þess að þar til í síðasta mánuði var liðið enn að æfa tvisvar á dag - Eitthvað sem hefur ekki þekkst á þessum tímapunkti tímabilsins.

Hann leggur líka mikla áherslu á gagnkvæma virðingu og krefst þess að leikmenn taki í hendur hvers annars alla morgna fyrir æfingu.

„Þetta eru bara litlir hlutir en það skiptir miklu máli til að skapa alvöru lið," segir Argentínumaðurinn. „Þú finnur fyrir liðsfélögunum, þú finnur fyrir þínu fólki."

Sagan er að einn daginn hafi Pochettino verið að borða morgunmat með stjórnarformanninum Daniel Levy þegar sex leikmenn komu upp að þeim og tóku í hendur þeirra. Þetta kom Levy á óvart.

Ef Tottenham nær að komast upp fyrir Leicester og vinna ensku úrvalsdeildina í fyrsta sinn þá eru mun fleiri handabönd framundan hjá Pochettino í sumar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner