Man Utd ætlar að reka Ten Hag - Hver tekur við? - Tuchel hefur áhuga á starfinu
   fim 11. janúar 2024 13:12
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Heiður að vera valinn - „Væri gaman að sjá Messi þarna"
Landsliðið æfir á æfingasvæði Inter Miami
Anton Logi Lúðvíksson.
Anton Logi Lúðvíksson.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Íslenska A-landsliðið mætir Gvatemala 13. janúar og Hondúras 17. janúar og fara báðir leikirnir fram á heimavelli Inter Miami í Bandaríkjunum. Báðir leikirnir fara fram á DRV Pink Stadium í Fort Lauderdale í Flórída.

Um er að ræða verkefni utan landsleikjaglugga og því flestir leikmenn í hópnum sem spila á Norðurlöndum, en þetta er samt sem áður liður í undirbúningi liðsins fyrir umspilið mikilvæga í mars þegar liðið mun reyna að komast á lokakeppni EM.

Anton Logi Lúðvíksson, sem var nýverið keyptur til Haugesund í Noregi frá Breiðabliki, er í hópnum í fyrsta sinn en hann segir það mikinn heiður. Anton Logi, sem er tvítugur miðjumaður, spilaði stórt hlutverk með Breiðabliki síðasta sumar.

„Það var mikill heiður. Maður var pínu sjokkeraður þar sem þú býst ekki alltaf við því að vera valinn í A-landsliðið. Þetta er janúarverkefni og allt það en að fá að spila mögulega fyrir A-landslið Íslands er mikill heiður," segir Anton Logi í samtali við Fótbolta.net.

„Ég var ekki að hugsa um þetta og var ekki búinn að velta því upp með þetta verkefni, pæla neitt í því. Þetta kom á óvart. Þegar maður skoðar hópinn þá er maður sáttur að vera valinn."

Íslenska liðið er mætt út til Miami en liðið æfir á æfingasvæði Inter Miami. Það félag er í eigu David Beckham og á meðal leikmanna eru Sergio Busquets, Luis Suarez og Jordi Alba. Og jú, sjálfur Lionel Messi.

„Það eru nokkrir leikmenn þar sem maður væri til að sjá eitthvað af. Það er skemmtilegt að æfa þarna og kannski að Messi verði eitthvað að taka aukaæfingar," sagði Anton léttur. „Busquets er reyndar líka þarna, geggjaður leikmaður. En það væri gaman að sjá Messi þarna."

Eftir landsliðsverkefnið fer Anton Logi nánast beint til Haugesund en það verður fróðlegt að fylgjast með framgangi hans svo í norska boltanum.
Anton Logi: Held að allir í félaginu séu spenntir að hrista upp í þessu
Athugasemdir
banner
banner
banner