Man Utd skoðar það að fá Tuchel - Postecoglou fær fjármagn í sumar - Greenwood eftirstóttur á Englandi
banner
   mán 15. janúar 2018 14:01
Magnús Már Einarsson
Helgi Valur í Fylki (Staðfest)
Helgi Valur í leik með Fylki árið 2005.  Hann er nú mættur í Árbæinn á nýjan leik.
Helgi Valur í leik með Fylki árið 2005. Hann er nú mættur í Árbæinn á nýjan leik.
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
Helgi í sínum síðasta landsleik árið 2014.
Helgi í sínum síðasta landsleik árið 2014.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Miðjumaðurinn reyndi Helgi Valur Daníelsson hefur ákveðið að taka skóna af hillunni og leika með uppeldisfélagi sínu Fylki í Pepsi-deildinni í sumar. Helgi Valur er 36 ára gamall en hann lagði skóna á hilluna í júní árið 2015.

Helgi Valur lék síðast með Fylki árið 2005 en á ferli sínum í atvinnumennsku erlendis spilaði hann með Peterborough, Öster, Elfsborg, Hans Rostock, AIK, Belenenses og AGF.

Þá á Helgi einnig 33 landsleiki að baki fyrir Íslands hönd en sá síðasti var gegn Belgum árið 2014.

Helgi hefur búið í Portúgal síðustu ár. Nú er hann á heimleið til að spila með uppeldisfélaginu sínu.

„Það er algjörlega frábært að það hafi komið upp sú staða að ég gæti fengið tækifæri til að koma heim í uppeldisklúbbinn minn. Mér finnst ég vera tilbúinn í að koma heim og taka slaginn í Pepsi deildinni. Ég hef haldið mér ágætlega við eftir að ég hætti að spila sem atvinnumaður og stefni á að vera kominn í topp form sem allra fyrst," segir Helgi Valur Daníelsson leikmaður Fylkis

Fylkir vann Inkasso-deildina í fyrra en Helgi er annar leikmaðurinn sem kemur til félagsins í vetur.

Áður hafði markvörðurinn Stefán Ari Björnsson komið frá Gróttu auk þess sem Ragnar Bragi Sveinsson er mættur aftur í Árbæinn eftir að hafa verið í láni frá Víkingi R. síðari hluta tímabils í fyrra.

„Þetta eru frábærar fréttir fyrir Fylki. Helgi er frábær fótboltamaður, uppalinn hjá félaginu og hefur átt farsælan feril sem leikmaður. Það er gott að fá Helga til okkar aftur til að taka þátt í spennandi tímum sem eru framundan hjá Fylki," segir Þorvaldur Árnason formaður meistaraflokks ráðs karla hjá Fylki.
Athugasemdir
banner
banner
banner