Sancho vill ekki snúa aftur til Man Utd - Dumfries vill fara til Man Utd - Chelsea vill Osimhen
   sun 23. mars 2008 11:00
Þórður Már Sigfússon
Heimild: Joinfutbal.com 
Sveinn Aron Guðjohnsen í sigurliði Barcelona
Sveinn Aron í baráttunni
Sveinn Aron í baráttunni
Mynd: Joinfutbol.com
Meistaralið mótsins
Meistaralið mótsins
Mynd: Joinfutbol.com
Hinn 9 ára gamli sonur Eiðs Smára Guðjohnsens, Sveinn Aron, var í U-10 ára drengjaliði Barcelona sem bar sigur úr býtum á Torneo de Futbal 7 Benjamin mótinu sem háð var í smábænum San Pedro del Pinatar í vikunni og lauk í gær.

Sveinn Aron sem þykir gríðarlega efnilegur tók þátt í öllum leikjum Börsunga. Hann náði þó ekki að komast á blað í markaskoruninni sem var mest í höndum framherjans Carles Aleñá, sem er fyrirliði liðsins og varð jafnframt markakóngur mótsins.

Átta lið, sem skiptust niður í tvo riðla, tóku þátt í mótinu og sendu stórliðin Real Madrid, Atletico Madrid, Valencia og Villarreal öll lið til þátttöku ásamt Barcelona.

Börsungar voru í A-riðli ásamt Atletico Madrid, Villarreal og ANEF en þau reyndust öll vera lítil hindrun fyrir Svein Aron og félaga sem sigruðu alla leikina nokkuð örugglega.

Real Madrid varð á vegi Börsunga í undanúrslitum og vakti sá leikur mikla athygli fyrir þær sakir að synir tveggja þekktra knattspyrnukappa voru þar í eldlínunni, þeir Sveinn Aron og Luca Zidane, markvörður Madrídarliðsins, en það þarf varla að kynna föður hans, Zinedine Zidane.

Þeim leik lyktaði með 1-0 sigri Barcelona og mætti liðið að lokum Valencia í úrslitaleik mótsins sem lauk einnig með 1-0 sigri Katalóníuliðsins.

Sveinn Aron æfir við bestu aðstæður undir handleiðslu mjög færra þjálfara og verður fróðlegt að fylgjast með framgöngu hans á komandi árum.
Athugasemdir
banner
banner