Bayern reynir aftur við Walker - Neves til Man Utd?
   fim 26. mars 2009 08:46
Magnús Már Einarsson
1.deild: Hvað er að frétta úr Ólafsvík?
Úr leik hjá Víkingi á síðustu leiktíð.
Úr leik hjá Víkingi á síðustu leiktíð.
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Kristinn Guðbrandsson og Jónas Gestur Jónasson eftir að gengið var frá samningum síðastliðið haust.
Kristinn Guðbrandsson og Jónas Gestur Jónasson eftir að gengið var frá samningum síðastliðið haust.
Mynd: Víkingur Ólafsvík
Mynd: Alfons Finnsson
Liðurinn "Hvað er að frétta?" hóf göngu sína að nýju á Fótbolta.net í gær en þar er kíkt á stemninguna hjá liðum í fyrstu, annarri og þriðju deild.

Í dag er komið að því að kíkja til Ólafsvíkur og skoða stemninguna hjá liði Víkings í fyrstu deild.

Kristinn Guðbrandsson tók við þjálfun Víkings af Ejub Purisevic síðastliðið haust og hér að neðan má sjá svör Kristins við nokkrum spurningum.


Hvernig er stemningin í Ólafsvík þessa dagana? Ég veit ekki betur en að stemmningin sé góð í Ólafsvík. Sjálfur er ég ekki fluttur, þannig að ég er ekki alveg dómbær á þetta.

Eru miklar breytingar á liði ykkar frá því síðastliðið sumar? Já það verða töluverðar breytingar á hópnum, einungis hefur verið samið við einn af erlendu leikmönnum félagsins frá því í fyrra. Ungir leikmenn félagsins munu fá tækifæri í sumar. Einnig er unnið að því að finna sterka leikmenn sem gætu styrkt okkur.

Má búast við að fleiri leikmenn muni bætast í leikmannahóp ykkar fyrir sumarið? Já við erum að skoða markaðinn eins og staðan er í dag.

Þú tókst við liðinu síðastliðið haust. Hvernig hafa fyrstu mánuðirnir verið í starfinu? Þetta hefur verið skemmtilegt, flestar helgar frá í nóvember hafa farið í bíltúr vestur á Snæfellsnes.

Ert þú sjálfur fluttur á Ólafsvík? Nei ég flyt í byrjun júní. Fram að því hef ég það bara gott á Hótel Hellissandi um helgar.

Hvernig hefur undirbúningstímabilinu hjá ykkur verið háttað? Leikmennirnir eru flestir fyrir vestan og æfa þar, um þær æfingar sjá tveir reynsluboltar félagsins. Um helgar kem ég vestur eða þá að við hittumst á Akranesi, Reykjavík eða Keflavík og spilum leiki.

Ertu sáttur við spilamennsku liðsins í Lengjubikarnum og í æfingaleikjum til þessa? Spilamennskan hefur verið ágæt þó úrslitin hafi ekki fallið með okkur. Við erum allavega að bæta okkur milli leikja.

Hvaða áherslur ætlar þú koma með inn í liðið? Liðið er sterkt varnarlega, það hlýtur því að vera markmið okkar að skora meira í sumar en í fyrra.

Hver eru markmið ykkar fyrir sumarið? Hópurinn er að byrja ákveðna undirbúningsvinnu hvað markmið varðar. Eins og staðan er núna er ekki tímabært að segja til um markmið sumarsins.

Er einhver leikmaður úr liði ykkar sem þú telur að eigi eftir að springa út í sumar? Í liðinu eru margir frambærilegir leikmenn, leikmenn sem geta gert flotta hluti ef þeir koma til leiks með réttu hugafari. Ég ætla ekki að nefna nein nöfn það væri ekki klókt af mér.

Hvaða lið telur þú að sé sigurstranglegast í 1. deildinni í sumar? ÍA og HK ættu að koma sterklega til greina. Mér finnst samt mjög erfitt að átta mig á styrkleika liðanna eins og staðan er núna. Ég vona bara að þetta verði skemmtilegt mót.

Eitthvað að lokum? Ekkert endilega!
Athugasemdir
banner
banner