Sancho vill ekki snúa aftur til Man Utd - Dumfries vill fara til Man Utd - Chelsea vill Osimhen
banner
   mið 03. júlí 2019 11:30
Magnús Már Einarsson
Jói rýnir í toppslaginn: Erfitt að sjá fyrir sér markaþurrð
Valur - Breiðablik klukkan 19:15 í kvöld
Breiðablik og Valur mætast í toppslag í kvöld.
Breiðablik og Valur mætast í toppslag í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur er á toppnum með betri markatölu en Breiðablik.
Valur er á toppnum með betri markatölu en Breiðablik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það verður mikið undir á Origo-vellinum í kvöld þegar Valur og Breiðablik mætast í toppslag í Pepsi Max-deild kvenna klukkan 19:15. Bæði lið hafa unnið alla sjö leiki sína í deildinni í sumar og beðið er með eftirvæntingu eftir leiknum í kvöld.

Jóhann Kristinn Gunnarsson er sérfræðingur Fótbolta.net í Pepsi Max-deild kvenna og Fótbolti.net fékk hann til að spá í spilin fyrir leik kvöldsins.

Jói rýnir í toppslaginn
Fyrri úrslitaleikur sumarsins í Pepsi Max deild kvenna fer fram í dag á Hlíðarenda. Valur og Breiðablik mætast en liðin eru jöfn á toppi deildarinnar með fullt hús stiga. Þau eru átta stigum á undan Þór/KA í þriðja sætinu og hafa því þegar stungið af og mótið ekki hálfnað.

Það er því ekki óeðlilegt að tala um fyrri úrslitaleikinn að þessu sinni. Valsstelpur eru á heimavelli og vita vel að í þessum tveimur leikjum sem liðin mætast í sumar er mikilvægt að láta heimavöllinn telja. Jafntefli yrðu svo sem engin heimsendaúrslit fyrir þær en til að vinna mótið þurfa þær að sigra Breiðablik og þessi leikur er kjörið tækifæri. Á heimavelli. Valur kemur úr erfiðum leik fyrir norðan þar sem þær duttu úr bikarnum í hörkuleik. Það hljóta að vera mikil vonbrigði enda liðið á þannig siglingu að margt sem benti til þess að þær gerðu harða atlögu að báðum titlunum. Það þýðir ekkert að grenja það og veit ég vel að Pétur mætir með liðið vel stillt og alveg dýrvitlaust í þennan toppslag.

Breiðablik er einnig dottið úr bikarnum, sem er náttúrulega efni í sér pistil – að tvö langheitustu liðin í deildinni þetta sumarið séu dottin úr bikarnum fyrir undanúrslitin! Þær ætla sér ekki að missa frá sér annan bikar þetta árið enda gríðarlegt hungur í titla hjá Blikum. Þær fengu smávegis aðvörun frá nágrönnum sínum í síðasta leik en ættu að vera með það á tandurhreinu núna að þær þurfa að klára leikina og halda einbeitingu svo ekki fari illa.

Það verður gaman fyrir áhugasama að fylgjast með taktískri skák þjálfaranna og hvernig liðin framkvæma það sem lagt verður upp með. Báðir eru þeir klókir í að lesa í leik andstæðingsins og því gæti taflið orðið ansi greindarlegt. Segjum að þeim takist báðum vel upp að stoppa og koma í veg fyrir að lið andstæðingsins keyri á sínum vel þekktu styrkleikum. Haldi niður lykilmönnum og lesi vel hvorn annan. Þá kemur oftar en ekki fyrir örlagavaldar eru minni spámenn og úrslit ráðast úr óvæntum áttum. Þeir leikmenn eiga það til að gleymast eða fljúga undir radarinn þegar verið er að loka á stóru byssurnar.

Þrátt fyrir allar óábyrgar spár og raus þá verða lykilmenn að spila vel og skila sínu í liðunum í kvöld. Bæði lið refsa miskunnarlaust fyrir mistök og ekki er ólíklegt að við sjáum það skýrt í þessum leik. Það er mikið undir og liðið sem gerir færri mistök vinnur. Það er klassískt að spá fyrir um lokaðan leik og fá mörk enda liðin aðeins fengið á sig örfá mörk í sumar. En með sóknarþunga beggja liða er erfitt að sjá fyrir sér markaþurrð á nývökvuðu gervigrasinu.

Það er vonandi fyrir deildina og knattspyrnu á Íslandi að fólk flykkist á völlinn. Toppslagur tveggja frábærra liða á flottum velli í góðu veðri. Það er ekki hægt að hafa það betra. Skora á alla að fara á völlinn og taka vini og fjölskyldu með sér. Slökkva á símanum og taka Holland – Svíþjóð bara á plúsnum.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner