Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   sun 18. nóvember 2018 16:15
Fótbolti.net
Þjálfaralistinn - Allt ráðið í þremur efstu deildunum
Pedro Hipólito yfirgaf Fram og tók við ÍBV.
Pedro Hipólito yfirgaf Fram og tók við ÍBV.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tufa og Óli Stefán tóku bein skipti!
Tufa og Óli Stefán tóku bein skipti!
Mynd: Þorsteinn Magnússon
Arnar Gunnlaugsson er tekinn við þjálfun Víkings.
Arnar Gunnlaugsson er tekinn við þjálfun Víkings.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ásmundur tók aftur við Fjölni.
Ásmundur tók aftur við Fjölni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gregg Ryder fór norður á Akureyri.
Gregg Ryder fór norður á Akureyri.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stefán Gíslason tók við Leikni.
Stefán Gíslason tók við Leikni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Sveinsson er nýr þjálfari Fram.
Jón Sveinsson er nýr þjálfari Fram.
Mynd: Fram
Hólmar Örn Rúnarsson tók við Víði.
Hólmar Örn Rúnarsson tók við Víði.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Viðar Jónsson stýrir sameiginlegu liði Hattar og Hugins.
Viðar Jónsson stýrir sameiginlegu liði Hattar og Hugins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ekki er ljóst hver þjálfar Vængi Júpíters næsta sumar.
Ekki er ljóst hver þjálfar Vængi Júpíters næsta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Hér má hverjir verða þjálfarar í Pepsi, Inkasso, 2. deild og 3. deild í karlaflokki á næsta tímabili.

Allar þjálfarastöður eru klárar í þremur efstu deildunum en í 3. deild er ennþá óvissa. Þá á ennþá eftir að skýrast hvort Álftanes eða Ægir taki tólfta sætið í 3. deildinni næsta sumar.

*Nýr þjálfari frá síðasta tímabili.



Pepsi-deild karla:

Valur - Ólafur Jóhannesson
Ólafur hefur gert Val að Íslandsmeisturum síðustu tvö tímabil og verður áfram við stjórnvölinn með Sigurbjörn Hreiðarsson sér við hlið.

Breiðablik - Ágúst Gylfason
Vel gekk á fyrsta tímabili Gústa Gylfa í Kópavoginum en liðið var nálægt því að krækja í titil. Blikar enduðu í öðru sæti og komust í bikarúrslit.

Stjarnan - Rúnar Páll Sigmundsson
Rúnar Páll er að fara inn í sitt sjötta tímabil með Stjörnuna en liðið hafnaði í 3. sæti í ár. Garðbæingar misstu þó Jón Þór Hauksson aðstoðarþjálfara sem er að taka við kvennalandsliðinu.

KR - Rúnar Kristinsson
KR-ingar enduðu í fjórða sæti undir stjórn Rúnars. Það var bæting á spilamennsku liðsins eftir því sem á tímabilið leið og það náði Evrópusæti.

FH - Ólafur Kristjánsson
Fyrsta tímabil Ólafs með FH voru vonbrigði en liðið missti af Evrópusæti. Það verða þó engar breytingar á þjálfaramálum í Krikanum.

ÍBV - Pedro Hipolito*
Kristján Guðmundsson lét af störfum eftir tvö farsæl ár við stjórnvölinn hjá ÍBV. Eyjamenn leituðu til hins portúgalska Pedro Hipolito sem hefur stýrt Fram síðustu tvö ár.

KA - Óli Stefán Flóventsson*
Leiðir KA og Srdjan Tufegdzic, Tufa, skildu eftir tímabilið. Akureyrarfélagið sótti Óla Stefán Flóventsson sem hefur stýrt Grindavík undanfarin ár.

Fylkir - Helgi Sigurðsson
Stýrði Árbæingum til sigurs í Inkasso-deildinni á sínu fyrsta tímabili og hélt liðinu svo uppi í deild þeirra bestu. Verður áfram við stjórnvölinn.

Víkingur R. - Arnar Gunnlaugsson*
Leiðir Víkings og Loga Ólafssonar skildu eftir tímabilið. Arnar Gunnlaugsson, sem var aðstoðarmaður Loga, fékk traustið.

Grindavík - Srdjan Tufegdzic*
Tufa kom frá Akureyri og hans bíður það erfiða verkefni að smíða saman nýtt lið hjá Grindavík en ljóst er að miklar breytingar verða á leikmannahópnum.

ÍA - Jóhannes Karl Guðjónsson
Jói Kalli stýrði Skagamönnum til sigurs í Inkasso-deildinni og stýrir liðinu í Pepsi-deildinni. Hans fyrsta tímabil sem aðaþjálfari í efstu deild framundan.

HK - Brynjar Björn Gunnarsson
Var valinn þjálfari ársins í Inkasso-deildinni eftir að hann stýrði liðinu upp í deild þeirra bestu. Hans fyrsta tímabil sem aðaþjálfari í efstu deild framundan.

Inkasso-deildin:

Fjölnir - Ásmundur Arnarsson*
Fjölnismenn áttu vont tímabil undir stjórn Ólafs Páls Snorrasonar og fall var niðurstaðan. Ásmundur Arnarsson snéri aftur í Grafarvoginn.

Keflavík - Eysteinn Húni Hauksson
Eysteinn Húni tók við Keflavík á miðju tímabili í sumar en liðið féll úr Pepsi-deildinni án þess að vinna leik. Hann heldur áfram með liðið en fær Milan Stefán Jankovic sem aðstoðarmann.

Þór - Gregg Ryder*
Þór hafnaði í þriðja sæti undir stjórn Lárusar Orra í sumar. Gregg Ryder, fyrrum þjálfari Þróttar, á að taka liðið skrefi lengra.

Víkingur Ó. - Ejub Purisevic
Ejub verður áfram á sínum stað í Ólafsvík.

Þróttur - Gunnlaugur Jónsson
Gulli Jóns tók við Þrótti rétt fyrir liðið tímabil. Ánægja er með hans starf og hann skrifaði undir nýjan tveggja ára samning.

Njarðvík - Rafn Markús Vilbergsson
Hefur gert frábæra hluti með Njarðvík en liðið endaði í sjötta sæti sem nýliði í Inkasso-deildinni í sumar.

Leiknir R. - Stefán Gíslason*
Vigfús Arnar Jósepsson ákvað að halda ekki áfram þjálfun Leiknis og Stefán Gíslason, fyrrum þjálfari Hauka og fyrrum landsliðsmaður, tók við.

Haukar - Kristján Ómar Björnsson
Kristján stýrði Haukum í áttunda sæti á fyrsta tímabili sínu við stjórnvölinn.

Fram - Jón Sveinsson*
Pedro Hipolito lét af störfum hjá Frömurum og tók við ÍBV. Jón Sveinsson tók við af honum en hann hefur áður spilað með Fram, þjálfað yngri flokka þar og verið aðstoðarþjálfari í meistaraflokki.

Magni - Páll Viðar Gíslason
Hélt Magna uppi í Inkasso-deildinni og verður áfram með stjórnartaumana.

Afturelding - Arnar Hallsson
Afturelding náði því langþráða markmiði að komast upp í Inkasso-deildina undir stjórn Arnars.

Grótta - Óskar Hrafn Þorvaldsson
Óskar kom Gróttu upp og áhugavert verkefni hans heldur áfram í mun sterkari deild.

2.deild:

ÍR - Brynjar Þór Gestsson
ÍR féll úr 2. deildinni eftir æsispennandi lokaumferð. Brynjar fær það verkefni að reyna að koma liðinu aftur upp.

Selfoss - Dean Martin
Dean Martin tók við Selfyssingum um mitt sumar en náði ekki að snúa við skútunni og bjarga liðinu frá falli. Hann gerði tveggja ára samning við Selfoss eftir mót.

Vestri - Bjarni Jóhannsson
Vestri var hársbreidd frá því að fara upp. Bjarni Jóhannsson stýrir liðinu annað tímabilið í röð næsta sumar.

Völsungur - Jóhann Kristinn Gunnarsson
Jóhann skrifaði undir nýjan samning á Húsavík um síðustu helgi.

Kári - Lúðvík Gunnarsson
Lúðvík hefur þjálfað lið Kára undanfarin ár og hann heldur áfram eftir að hafa komið nýliðunum í toppbaráttuna í sumar.

Þróttur V. - Úlfur Blandon
Úlfur siglir inn í sitt annað tímabil í Vogunum eftir að hafa siglt nýliðunum örugglega um miðja deild í sumar.

Fjarðabyggð - Dragan Stojanovic
Dragan Stojanovic verður þjálfari Fjarðabyggðar þriðja árið í röð en hann gerði nýjan samning í sumar.

Tindastóll - Yngvi Borgþórsson*
Yngvi tók við stjórnartaumunum á Sauðárkróki í síðustu viku en hann hefur áður þjálfað Skallagrím og Einherja.

Víðir Garði - Hólmar Örn Rúnarsson*
Hólmar Örn tók við Víði í haust þegar Guðjón Árni Antoníusson ákvað að hætta. Guðjón Árni verður aðstoðarþjálfari ásamt sínum fyrrum liðsfélaga úr Keflavík.

Leiknir F. - Brynjar Skúlason*
Viðar Jónsson hætti með Leikni eftir langt starf og tók við Hetti. Brynjar Skúlason, sem hefur þjálfað Huginn með góðum árangri í áraraðir, tók við keflinu.

Dalvík/Reynir - Óskar Bragason*
Sveinn Þór Steingrímsson hætti með Dalvík/Reyni eftir að hafa unnið 3. deildina og gerðist aðstoðarþjálfari KA. Óskar Bragason, aðstoðarþjálfari KA undanfarin ár, skipti um starf við hann.

KFG - Lárus Guðmundsson, Björn Másson, Kristján Másson
Garðabæjarliðið er á leið í 2. deild í fyrsta skipti. Fyrrum landsliðsmaðurinn Lárus Guðmundsson er áfram við stýrið með bræðrunum Birni og Kristjáni Mássyni.

3.deild:

Höttur/Huginn - Viðar Jónsson*
Viðar Jónsson stýrir nýju sameiginlegu liði Hattar og Hugins. Viðar hefur áður þjálfað Leikni Fáskrúðsfirði í áraraðir.

KF - Slobodan Milisic
Míló framlengdi samning sinn í Fjallabyggð á dögunum en KF var hársbreidd frá því að fara upp undir hans stjórn í ár.

Vængir Júpíters - ÓRÁÐIÐ
Arnar Páll Garðarsson hætti sem þjálfari Vængjanna eftir tímabil og ekki er búið að ráða eftirmann hans.

KH - ÓRÁÐIÐ
Ekki er búið að ákveða hver tekur við KH en Arnar Steinn Einarsson og Ingólfur Sigurðsson stýrðu liðinu á síðasta tímabili.

Einherji - ÓRÁÐIÐ
Jón Orri Ólafsson stýrði Vopnfirðingum síðastliðið sumar en ekki er ljóst hver verður þjálfari á næsta tímabili.

KV - ÓRÁÐIÐ
Sigurvin Ólafsson og Björgvin Vilhjálmsson stýrðu KV á síðasta tímabili. Ekki er búið að staðfesta hvort þeir haldi áfram eða ekki.

Augnablik - Jökull Elísabetarson
Jökull heldur áfram sem þjálfari Augnabliks og Páll Einarsson kemur inn í þjálfarateymið með honum.

Sindri - ÓRÁÐIÐ
Gamla kempan Sinisa Valdimar Kekic heldur ekki áfram með Sindra. Ekki er búið að ganga frá ráðningu á nýjum þjálfara.

Reynir S. - Haraldur Freyr Guðmundsson
Fyrrum landsliðsmaðurinn Haraldur Freyr kom Reyni upp um deild og verður áfram við stjórnvölinn.

Skallagrímur - Kristinn Guðbrandsson*
Kristinn var ráðinn þjálfari Skallagríms af dögunum en hann tók við af Yngva Borgþórssyni sem kom liðinu upp í 3. deildina.

Kórdrengir - Davíð Smári Lamude
Davíð Smári kom Kórdrengjum upp í 3. deild í fyrsta skipti í haust. Hann verður áfram við stjórnvölinn.
Athugasemdir
banner
banner